10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

1. mál, fjárlög 1934

Magnús Torfason:

Það er nú ekki efnilegt, að eiga að fara að sannfæra menn hér í d., þegar flestir stólarnir eru tómir, en það er þó í betra lagi núna, því nú eru 3 í stólunum. Ég verð þá bara að tala hinsvegin við þá, sem ekki eru hér viðstaddir.

Ég á hérna eina brtt. að fjárupphæð 1000 kr. Það er 7. brtt. á þskj. 609 um styrk til Guðmundar Jónssonar frá Stokkseyri, til þess að fullkomnast í vélfræðinámi í Þýzkalandi. Það ætti að vera létt verk að mæla með þessum styrk. Þessi maður hefir fengið styrk hér áður, 1000 kr., til þessa náms, og nú er svo komið, að hann kemur til að ljúka námi á þessu ári. En kennarar hans við þennan vélaskóla hafa mælt fastlega með því, að hann fái tækifæri til þess að fullkomna sig betur en námið eða prófið hjálpar honum til, og það vegna þess, að hann hefir sýnt, að hann er alveg sérstaklega lagaður til þess arna. Þessi maður hefir jafnvel áður en hann hefir tekið próf gert talsvert þýðingarmikla uppgötvun í sinni grein. Hann hefir gert uppgötvun þess eðlis, að vélar geta orðið mun léttari heldur en hingað til hefir reynzt eftir hans fyrirkomulagi, og ennfremur er þessari uppgötvun samfara spörun á vinnukrafti. Menn hafa litið svo á, að með tíð og tíma geti þessi uppgötvun orðið fjárvænleg og nú liggur maðurinn í málaferlum út af því, að aðrir hafa viljað taka uppfindinguna frá honum.

Af þessu sést, að þessum styrk hefir sannarlega verið vel varið, og að við megum vænta mikils gagns af þessum manni, þegar hann að loknu námi kemur hingað til landsins aftur. Það er víst, að við stöndum aftarlega í þessari grein og að mikið fé hefir farið forgörðum, vegna þess að menn hafa ekki kunnað eins vel og skyldi að gæta vélanna.

Ég verð því að líta svo á, að þessi maður sé einna bezt kominn að styrk úr ríkissjóði af þeim, sem nú sækja um slíka styrki.

Þetta er eina till., sem ég flyt um hækkun á fjárl.

En þá er ég með aðra till. á þskj. 609, þess efnis, að við 16. gr. 2 bætist 2000 kr. til varnargarðs fyrir sandgræðslu í Óseyrarneslandi. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er það orðin 19 ára gömul sandgirðing og þar hefir gróið mikið upp á þessum tíma, en fyrir landinu er sjóvarnargarður, og hann hefir bilað mikið í flóðinu, sem varð í vetur.

Þetta er því framlag til að halda við fyrirtæki, sem komið er vel á veg og mundi vera til stórskaða, ef því verður ekki sinnt og allt, sem gert hefir verið, verður að engu. Vitanlega leggur sveitin 1/3 part á móti samkv. sandgræðslulögunum.

Eins og ég gat um áðan, þá er ekki ætlazt til þess, að með þessu verði styrkurinn hækkaður. — Strandakirkja fær í fjárl. 2 þús. kr. samkv. 1. nr. 50 frá 1928. En hún á nokkurt fé, sem er óeytt, og hefir það orðið að ráði milli mín og þeirra, sem veita sandgræðslunni forstöðu, að það verði ekki notað meira til sandgræðslunnar við Strandakirkju en sem nemur því fé, sem óeytt er á þessu ári. Þetta kemur því þannig út, að þær 2000 kr., sem kirkjan á að fá í þessum fjárl., falla niður. M. ö. o., að þetta er aðeins tilfærsla.

Fyrir fleiri till. þarf ég ekki að tala hér. En þá vildi ég tala nokkur orð við fjvn. Hún hefir lagt til, að vöruflutningastyrkur austur verði lækkaður úr 12 þús. kr. niður í 8 þús. kr. Ég get ekki annað séð en að þetta sé nokkuð frek niðurfærsla, að taka 2/5 parta af styrknum vegna þess að bifreiðaskatturinn hefir verið lækkaður lítilfjörlega. Ég er ekki í vafa um það, að hlutfallslega er lækkunin á bifreiðaskattinum ekki nærri eins mikil og þarna kemur fram í þessum till. n.

Ég vonast þess vegna til þess, að þessi till. n. verði ekki samþ., og það því fremur, þar sem þessar 20 þús. kr. eru nokkurskonar uppbót fyrir það, að slíkur skattur kemur illa niður á þau héruð, sem sérstaklega þurfa að nota bifreiðar að vetrarlagi eins og nú er orðið á Suðurlandi. Ég mun koma með brtt. um það, að þessi styrkur verði ekki færður nema niður í 15 þús. kr. úr 20 þús. kr., og tel ég það harla nóg, og vil ég með því sýna, að ég tek sannarlega tillit til fjárhags ríkissjóðs, og þá einkum þegar ég sé, að í till. n. eru liðir, sem ég hefði talið, að mættu algerlega missa sig. (JónJ: Til dæmis?) Ég er ekki að nefna nöfn, en ég gæti hvíslað þeim í eyru hv. form. n. við tækifæri til þess að seðja forvitni hans.

Svo verð ég líka að mótmæla 25. lið í till. n., sem er þess efnis, að styrkur til Odds Oddssonar á Eyrarbakka, sem skrifað hefir talsvert í blöð og tímarit um alþýðleg efni, verði látinn falla niður. Þetta eru 400 kr., ef ég man rétt, og virðist ríkissjóður vera nokkurnveginn jafnsettur, hvort sem þetta er tekið af þessum manni eða ekki. Ég get upplýst það, að einn af okkar ágætu prófessorum í bókmenntum landsins hefir gert samning við þennan mann um að menntamálasjóður fái handrit hans til útgáfu. Ég sé ekki, að það sé hægt að veita þessum manni betri meðmæli en þetta, að maður eins og prófessor Sig. Nordal semur við hann um að fá rétt til að gefa út handrit hans. Hann hefir svona mikið álit á þessum manni. Ég held því, að það hljóti að hafa stafað af ókunnugleika, að n. leggur til að klípa af honum þennan litla styrk.

Það er alveg víst, að fyrir fræðslu manna á alþýðuháttum eru þessi rit hans margfaldlega þess virði, sem styrknum nemur, að því ógleymdu, að málið á því, sem kemur frá þessum manni, er svo gott, fallegt og fullkomið, að það eru ekki margir rithöfundar, sem rita betra mál en hann. Ég vonast því til þess, að n. haldi ekki fast við það að klípa þennan styrk af þessum ágæta manni. Ég hefi nú eins og ég sagði áðan sitt hvað að athuga við brtt. n. og reyndar líka þær, sem koma frá einstökum þm. En ég skal ekki fara neitt út í það, mun sýna við atkvgr. hvernig ég lít á þau mál öll, en vitanlega fer það að líkindum eftir því, hvernig gert er við mig og mína.