09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (3077)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Ég varð fyrir vonbrigðum með ræðu hæstv. forsrh. Ég hélt, að hann hefði ýmsar mikilvægar ástæður til þess að vera með þessu máli, bæði af því að hann hefir lesið mikið um þessi efni og ætti þess vegna að vera talsvert víðsýnn, en þó sérstaklega af því, að hann er fjmrh. Mér virtist það ekki ósennilegt, að þegar hann færi að litast um eftir nýjum eða auknum tekjum í ríkissjóðinn, þá mundi hann telja það með því fyrsta, sem til mála gæti komið, að gefa verzlunina frjálsa, svo að ríkissjóður mætti njóta góðs af hinu bætta ástandi, sem þá fengist í landinu. Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðh., að hann benti ekki á hættuna af því fyrir ríkissjóð, ef höftunum yrði viðhaldið. Sú hlið málsins snertir hann mest sem fjmrh. Það er alveg satt, að innflutningshaftafarganið orsakast af því, að þjóðirnar þurfa að beita hver aðra samskonar tökum. En þrátt fyrir það sé ég ekki sambandið á milli innilokunarstefnu hinna stærri þjóða og þessara innflutningshafta okkar. Mér hefir virzt, að við Íslendingar hefðum þá sérstöðu, að við mundum geta setið hjá þessum leik stórveldanna og þyrftum ekki að taka þátt í honum. Ég hefi meira að segja litið svo á, að Norðurlönd yfirleitt væru nógu lítil til þess að þurfa ekki að gripa til slíkra ráða, að girða sig með innflutningshöftum. Það þykir venjulega ókostur fyrir eina þjóð að vera lítil, en það getur líka stundum verið kostur. Ég gat þess í fyrri ræðu minni, að út af innilokunar- og haftastefnu stórþjóðanna hefði sú hugsun komið fram hjá merkum erlendum stjórnmálamanni, að það liti svo út, sem heimurinn væri sjúklingur, nýkominn út úr vitlausraspítala. Þetta liggur beinast við að skilja þannig, að spennitreyja innilokunarstefnunnar hafi verið höfuðorsök sjúkdómsins. Ef hæstv. fors.- og fjmrh. vill ekki taka í þá hönd, sem hér er fram rétt, um að afnema innflutningshöftin til ágóða fyrir ríkissjóð, þá þarf hann ekki að vænta þess, að þingmenn stökkvi upp með fögnuði til þess að samþ. nýjar álögur á landsmenn til ríkissjóðs.

Hæstv. forsrh. vék tvisvar að því í ræðu sinni, að það væri, að mér skildist, sjálfsmótsögn í því, að innflutningshöftin væru öllum til skaða. Vitaskuld eru til þær ráðstafanir, sem allir hlutaðeigendur hljóta skaða af, og mætti nefna ýms dæmi þess. Bóndi, sem heyjar allt það sneggsta og það, sem fjarst er frá bæ hans, af slægjulandi jarðarinnar, hann skaðar bæði sjálfan sig og aðra með því háttalagi. Og aðra svipaða ráðstöfun mætti nefna sem dæmi. Samkv. ákvörðun fiskifræðings var það eitt sinn ákveðið, að sjómenn mættu ekki róa til fiskjar út fyrir ákveðna línu, sem dregin var tiltekinn spöl frá landi, vegna þess að þá mundu þeir stöðva fiskgengdina inn fyrir línuna. Svo lögðu þeir veiðarfæri sín innan við línuna og fengu ekki ugga úr sjó. Þó kom þar, að flokkur sjómanna hér suður á Vatnsleysuströndinni reri út fyrir línuna og hlóð báta sína. Þeir voru sektaðir fyrir brotið, en gátu ekki greitt sektirnar, og höfðu samtök um að fara heldur allir í fangelsi. Þeir komu hingað til Reykjavíkur, en fangahúsið rúmaði þá ekki. Þessi uppreisn þeirra gegn gildandi ráðstöfun leiddi það í ljós, að hún var hrein og bein vitleysa, Og uppreisnin varð til þess að opna augu vísindamannanna og ríkisvaldsins í því efni.

Þó að innflutningshöftunum hafi verið viðhaldið fram á þennan dag, þá sannar það ekki, að þau séu nokkrum að gagni, því að þau geta verið byggð á röngum forsendum, eins og þær ráðstafanir, sem farið var eftir í þeim dæmum, er ég nefndi. Eins og sjá má af frv., þá hefi ég ekki lagt það til, að gjaldeyrishöftin yrðu afnumin. Ég get fallizt á, að eigi sé annað fært en að gjaldeyrisnefnd starfi áfram og hafi aðalumráð á gjaldeyri landsmanna á meðan eigi ræðst betur fram úr örðugleikunum. En ég sé enga þörf á því að láta innflutningshöft og gjaldeyrisráðstafanir fylgjast að. Við verðum alltaf að játa okkur nægja þann gjaldeyri, sem fæst fyrir innlenda framleiðslu. Hæstv. forsrh. sagði, að einstakir menn gætu keypt innlendar vörur, selt þær til útlanda og keypt erlendar vörur í staðinn, ef innflutningshöftin væru afnumin. En ég held, að þetta sé ekki hægt. Ég veit ekki betur en að þau lagafyrirmæli séu enn í gildi, sem skylda hvern þann, sem umráð hefir á erlendum gjaldeyri, að afhenda hann bönkunum til umráða. Samkv. þeim fyrirmælum mun einstaklingum vera óheimilt að verzla með erlendan gjaldeyri, og held ég, að það sé réttmætt, af þeirri ástæðu, að þessi gjaldeyrir er svo takmarkaður.

Ég skal fúslega játa, að ef innflutningshöftin væru afnumin, þá er það vitanlega rétt, að það er nokkur hætta á, að verzlunarskuldir safnist erlendis. En ef svo er komið í heiminum, að ríkin sjálf geta ekki fengið lán til sinna brýnustu þarfa erlendis, má þá ekki búast við, að einstakir kaupmenn muni eiga mjög erfitt með að fá þar vörulán? Þó gæti þar verið um undantekningar að ræða, t. d. að því er snertir skranvörur og ýmsan óþarfan varning. Þetta mundi í frjálsri verzlun koma hart niður á mönnum í einstökum tilfellum, en á þjóðarbúskapinn hefir það engin áhrif. Öll stærri verzlunarhús, sem mesta þýðingu hafa þjóðhagslega séð, mundu vitanlega tryggja sér greiðslumöguleika erlendis. Og þegar á allt er litið, tel ég það fremur til góðs, að einstakir kaupmenn útvegi sér lánstraust erlendis, því að það léttir mikið á bönkunum, enda hefir það ekki þótt vinsælt hér á Alþingi, að verzlunarstéttin valsaði með fé bankanna. En innflutningshöftin hafa mjög spillt fyrir kaupmönnum um að fá rekstrarlán erlendis.

Hæstv. ráðh. talaði um vandræði yfirstandandi tíma og spurði, hvort afnám innflutningshaftanna mundi verða til þess að bæta úr þeim og skapa hagstæðan verzlunarjöfnuð. Ef kaupgeta er lítil, þá bætist verzlunarjöfnuðurinn; kaupgetuleysið skapar hann beinlínis. Menn geta ekki keypt. Árin 1922 til 1923 var kreppa, sem orsakaði nokkurskonar innflutningshöft, sem kom fyrst niður á óþarfa vörum. Frakkar fundu fyrst kreppuna á því, að silfurvörur, silki og dýrar vefnaðarvörur og allskonar tízkuvörur yfirleitt fóru að seljast illa. Menn hætta fyrst að kaupa glingurvörur. Og menn færa sig svo meira og meira niður eftir óþarfavarningnum og kaupa síðast aðeins nauðsynlegustu og ódýrustu vörurnar. Kreppan verkar því eins og viturlega sett innflutningshöft í aðalatriðum. Ég álít, að þeir menn, sem reka verzlun með óþarfa varning og hafa gert það í skjóli landslaga og með löglegum hætti, megi ekki við því, að ofan á það, að kreppan bitnar hvað mest á þeim, sé því bætt, að setja slík innflutningshöft, sem verða til þess að murka alveg úr þeim líftóruna.

Árið 1921 var skipuð nefnd til að rannsaka, hve mikið væri í raun og veru flutt inn af óþarfa vörum árlega, í því skyni, að bannaður yrði innflutningur á öllum slíkum vörum. Og n. komst að þeirri niðurstöðu, að aðeins 1% af innfluttum vörum í meðalári væri í raun og veru óþarfur. Það er allt og sumt.

Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að vörubirgðir eru nokkurskonar gjaldeyrir. Ég sagði í byrjun ræðu minnar, að ég gæti gengið inn á það, eða a. m. k. skyldi ekki óskapast mikið út af því, þótt gripið væri til þessara ráðstafana snöggvast. En þær þurfa að vera háðar vissum takmörkunum. Hér eru ekki þeir auðmenn, eða öllu heldur svo heimskir menn í kaupmannastétt, að þeir hrúgi inn vörum til margra ára. Hér er ekki flutt inn nema það, sem þarf rétt í svipinn. Og þegar höftin eru búin að standa eitt ár, þá er þessi gjaldeyrir, vörubirgðirnar, búinn. Það er ekki hægt að halda uppi fyrirtækinu með nokkru móti á minni viðskiptum en þessir kaupmenn hafa haft til skamms tíma. Enda hefir innflutningsnefnd viðurkennt þetta og reynt að játa þá hafa leyfi til að hafa talsverðan hluta af þeim viðskiptum, sem þeir hafa haft til skamms tíma. Annars væri vöruafgangurinn nokkurskonar þrotabúsvara, sem mætti setja á uppboð og selja hæstbjóðanda einn góðan veðurdag. Innflutningshöftin eru nú búin að standa helzt til lengi, lengur en þessi gjaldeyrir hefir enzt.

Ég skal annars ekki fara út í ýms atriði í ræðu hæstv. ráðh., sem meira eru á útborðinu heldur en meginatriði, t. d. það, að veröldinni mætti út af núverandi ástandi líkja við vitlausraspítala, þar sem menn væru í spennitreyju. En ég held, að menn megi gera vitlausa með því að láta þá vera í spennitreyju. Það eru sjálfar hömlur innflutningshaftanna, sem hafa gert veröldina og mennina svona. Það er ekki það, sem Lloyd George á við, að veröldin hafi fyrst orðið vitlaus og svo verið sett í spennitreyju, heldur öfugt, eins og ég tók fram áðan.

Ég er hræddur um, að innflutningshöft og verzlunarhömlur, hvort sem það eru tollaálögur eða hvað sem það annars er, sé oft eins mikil orsök eins og afleiðing þess erfiða ástands, sem nú er í heiminum.

Loks vildi ég beina einni spurningu til hæstv. fjmrh., og það er, hvort hann geti hugsað sér að halda innflutningshöftunum áfram sem áframhaldandi ástandi, og hvort það sé hans skoðun, að þjóðin hafi bezt af því að hoppa æfinlega í hafti. En ef svo er ekki, þá hvenær hann telji kominn hentugan tíma til að afnema höftin. Ég er nú þeirrar skoðunar, að það geti ekki komið til mála að láta þetta haftaástand halda áfram. Og ég álít einmitt ástand yfirstandandi tíma þannig, að bezt sé að afnema höftin nú þegar. Ef það er dregið þangað til kaupgeta fer að aukast aftur, þá væri mikil hætta á því, að mikið vöruflóð færi yfir landið allt í einu.