09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég geri ráð fyrir því, að þetta frv. fari til nefndar, og óska ekki eftir, að það verði fellt við þessa umr., þótt ég muni vitanlega beita mér gegn því, eins og þegar er komið í ljós.

Mér þótti gott, að hv. þm. Seyðf. minntist á þetta viðfangsefni, hvort þörf væri á lögum til ráðstöfunar gegn óeðlilegri verðhækkun í tilefni af gildandi innflutningshöftum. Eftir að upp var tekin gjaldeyrisskömmtun og innflutningshöftin sett, er sterlingspundið féll haustið 1931, setti ég nefnd 3 manna til þess að fylgjast með um verðlag á öllum nauðsynlegustu vörutegundum. Þessa n., sem hagstofustjóri var formaður fyrir, lét ég starfa eitt ár. En þar sem ekki varð vart við neina óeðlilega breyt. á vöruverði þeirra helztu nauðsynja, sem menn geta ekki komizt af án, þá var n. látin hætta störfum. Það sáust jafnan greinilegar og skýrar erlendar orsakir fyrir öllum breyt., sem urðu á verðlagi á þessum vörum. Hinu hefir minna verið sinnt, hverjar breyt. orðið hafa á verðlagi á luksusvörum. Mér hefir ekki þótt það ósanngjarnt, þó kaupmenn hefðu meira upp úr slíkum vörum en áður, enda er almenningi það í sjálfsvald sett, hve mikið er keypt af slíkum vörum. Ég er því samþykkur, að n., sem þessu frv. verður vísað til, athugi þessa hlið málsins í samráði við hagstofustjóra og þá menn aðra, sem þessum málum eru kunnugir.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði búizt við, að ég sem fjmrh. mundi óska eftir, að verzlunin yrði sem fyrst gefin frjáls, og það geri ég sannarlega. Ég óska eftir því, að það ástand skapist sem fyrst, að verzlunin geti orðið fullkomlega frjáls. En meðan slíkt ástand er ekki til, get ég vitanlega ekki óskað eftir öðru en að gerðar verði þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru út frá þessum gefnu forsendum.

Innflutningsnefndin og gjaldeyrisnefndin starfa ekki þannig, að allt standi stíft við stíflugarð, sem aldrei hreyfist. Þær starfa þannig, að þær gera sér grein fyrir því, hve miklum gjaldeyri sé yfir að ráða, og fara svo með gjaldeyrissöluna eftir því, hve mikinn gjaldeyri þær hafa til að ráðstafa. Á þennan hátt er vitanlega starfað. Og náttúrlega hefi ég sagt við þessa starfsmenn, að það sé ósk fjmrn., að það sé flutt inn eins mikið af tollvörum eins og almennar ástæður leyfa og eins mikið og gjaldeyrisforðinn frekast leyfir.

Það hefir alltaf, fram á það síðasta, verið látið mjög illa yfir þessu, af því að gjaldeyrisforðinn sé fullnægjandi, en ég veit, að n. hefir ekki farið lengra í að banna innflutning og sölu en nauðsyn hefir borið til. Við sjáum það á greiðslujöfnuðinum við útlönd á síðasta ári, að þá hefir hagur bankanna batnað um 1 millj. kr., út á við að vísu. En hann varð að batna, því að um áramótin þar næst áður voru lausaskuldir bankanna gífurlega miklar erlendis. Og bankarnir, sem við skiptum við, krefjast þess, að þær fari lækkandi. Við skulum hugsa okkur, að engin innflutningshöft hefðu verið, og að í staðinn fyrir það, að greiðslujöfnuðurinn varð 1 millj. kr. betri en árið áður, hefði hann orðið 2-3 millj. kr. lakari en þá. Hvar hefðum við þá staðið? Það er þetta, sem gerir muninn. Það er þessi kúfur, hvort eitthvað er upp fyrir það, sem við höfum til að eyða, sem þarf ekki að vera mikill, til þess að hann geti valdið stórtjóni. Það er þessi kúfur, sem þarf að taka af, til þess að við getum verið öruggir í viðskiptum við útlönd á þessum tímum.

Fjmrh. hefir sannarlega ástæðu til að óska, að ástandið verði sem fyrst þannig, að hægt verði að gefa verzlunina alveg frjálsa. En eins og nú er ástatt, er ekki ástæða til að óska þess, að sú aðferð sé höfð um okkar erlendu viðskipti, sem gæti skapað þá hættu, að enginn erl. gjaldeyrir væri til, þegar bankarnir og ríkið þurfa að borga vexti og afborganir af erlendum skuldum. Það þarf að tryggja það, að slíkar greiðslur falli ekki niður, þegar nauðsynlega þarf að lúka þeim. Það er ástæðan fyrir því, að við verðum að skammta gjaldeyrinn, að við verðum að sjá um, að greiðslur þessar verði framkvæmdar. Á ófriðarárunum, þegar ekki fluttist eins mikið inn af sykri og ýmissi kornvörur eins og vanalega, var þetta ráð tekið, að skammta matinn, skipta honum milli fólksins, svo að eitthvað gæti orðið handa öllum og enginn yrði alveg afskiptur. Nú er aftur á móti svo ástatt, að allir geta ekki fengið eins mikið og þeir vilja af erlenda gjaldeyrinum. Til þess er hann ekki nógu mikill. Og höftin eru bara nauðsynleg viðbótarráðstöfun við gjaldeyrisskömmtunina, sem ekki verður hjá komizt.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði ráð fyrir því, að ef svo væri komið í flestum löndum, að ríkið gæti ekki fengið lán, þá mundu líka vera þrot á lánstrausti kaupmanna, svo að ekki væri hætta á því, að kaupmenn flyttu of mikið inn af vörum. En þetta er einmitt öfugt. Því að þau bönd, sem gilda í mörgum ríkjum gegn útflutningi á peningum, eru gerð vegna gjald- eyrisástandsins. En þessi sömu lönd gera allt, sem þau þora, til þess að styðja að því, að útflutningur á vörum geti verið frjáls, og lána og lána, þangað til þau reka sig á hvað eftir annað. Einmitt það gjaldeyrisástand, sem er í heiminum, orsakar það, að það er hægt að fá meiri vörulán nú en áður hefir verið. En það er eftir því verra að fá peningalán, sem meira flyzt út úr landinu af gjaldeyri og greiðslujöfnuðurinn er óhagstæðari.

Hv. þm. kvartaði mikið yfir og fannst ekki rétt reglugerð sú, sem nú er gildandi um heimildina fyrir að setja innflutningshöft. En menn hafa fullan rétt til að nota gjaldeyrinn til eigin þarfa. Þetta gera auðvitað allir atvinnurekendur, sem flytja út vörur og þurfa að kaupa vörur erlendis. Þeir nota það af sínum erlenda gjaldeyri sjálfir, sem þeir þurfa til að greiða með vörur og annað erlendis. En gjaldeyrir, sem þá verður afgangs, kemur aðeins til ráðstöfunar. Ég býst við, að Samb. ísl. samvinnufél. hafi t. d. nógan erlendan gjaldeyri til að kaupa fyrir erlendar vörur. Það væri mjög hart að þurfa að afnema þennan rétt, að hver notaði sinn erlenda gjaldeyri eftir þörfum til vörukaupa. En ef innflutningshöftin yrðu afnumin, yrði að svipta einstaklinga og fyrirtæki þessum rétti. En þá vil ég heldur hafa höftin.

Ég skal sízt bera það til baka, að margir eigi erfitt vegna innflutningshaftanna. Það eiga margir erfitt vegna þeirra og vegna atvinnuleysis og vegna þess að lágt verð er á afurðunum, sem framleiddar eru í landinu. Þetta er allt böl, sem ekki er gott að hjálpa við. Og höftin eru slík ráðstöfun til alþjóðarheilla, að það verður að sætta sig við það, að einstöku menn verði fyrir barðinu á þeim. Það mundi koma þyngra niður á kaupmönnum, hvað þá heldur á almenningi, ef höftunum væri sleppt.

Ég vil benda hv. þm. á það, að slíkar hömlur sem þessar hafa verið settar í öllum hinum smærri ríkjum. Stóru ríkin beita meira hátollaálögum og öðrum tollum og takmörkunum. Við erum í tölu þeirra mörgu ríkja, sem verða að gera þessar ráðstafanir, og er það eftirtektarverð staðreynd, að ekki ein einasta kvörtun hefir komið fram til stjórna þessara ríkja út af slíkum hömlum, sem við höfum gert hér. Svo sjálfsagðar þykja þær.

Hv. þm. spurði, hvort ég teldi, að innflutningshöftin ættu alltaf að standa. Ég hefi áður gefið það í skyn, að mín skoðun er sú, að innflutningshöftum eigi að- eins að halda uppi, þegar erlendur gjaldeyrir er að öðrum kosti ekki nægilega mikill fyrir hendi til þess að fullnægja eftirspurn. Þá spurði hann um það, hvenær mér finnist, að létta beri höftunum af verzluninni. Það er vitanlega ekki hægt að segja um það upp á dag. Það er einungis hægt að segja það, að þeim eigi að létta af, þegar gjaldeyrisskorturinn er úr sögunni. Ég býst við því, að það fari svo um höftin, að þeim verði smátt og smátt létt af, eftir því sem gjaldeyrir fæst, þangað til ríkisstj. og bankarnir álíta rétt að sleppa þeim alveg. Þá vildi ég, að tollar á óþarfavörum væru hærri en nú er, til þess að tefja fyrir innflutningi á þeim og ennfremur til þess að ná meiri tekjum í ríkissjóð.

Hv. þm. býður mér ekki gull og græna skóga með því að bjóða mér frjálsa verzlun nú á þessum tímum. En hann getur boðið mér annað, og það er það, að styðja að því, að ég verði fjmrh. þangað til það ástand er skapað, að létta má af innflutningshöftunum, því að þá verða góðir tímar fyrir hvern fjmrh., sem þá verður. Sumt af því, sem ríkið verður að gera á þessum tímum, er þess eðlis, að það safnast saman í aukna innflutningsþörf, sem verður fullnægt á sínum tíma. Og þá koma peningarnir í stríðum straumum inn í ríkissjóðinn, til ánægju og vegsemdar þeim ráðherra, sem þá verður. En

mitt hlutskipti er að hafa óþægindin af þeim ráðstöfunum, sem þessir tímar krefjast - vera til þess skuldbundinn. En þó að menn verði nú að þola ýms óþægindi, þá bæta slíkar ráðstafanir aðstöðu ríkisins og þar með einstaklinganna margfalt sem því nemur.