10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1934

Einar Árnason:

Ég á eina litla brtt. við frv. á þskj. 624, þess efnis, að Halldóri Kr. Jónssyni verði veittar 300 kr. til dýralækninga. Í gildandi fjárl. er samskonar styrkveiting til þessa manns, sem samþ. var hér í d. í fyrra, og í stjfrv. var þessum manni einnig ætlaður samskonar styrkur, en Nd. felldi þetta niður. Ég gerði grein fyrir ástæðum fyrir því, að þessi maður fengi þennan styrk, á síðasta þingi, og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, enda vænti ég, að hv. d. sé enn þeirrar skoðunar, að rétt sé að veita þennan styrk. Það er viðurkennt, að þessi maður gerir mikið gagn, en hann er bláfátækur og hefir ofan af fyrir sér með lítilfjörlegum búskap, sem hann þó ekki hefir tíma til að sinna, vegna þess, hve mikið hann er sóttur, og er honum því hin mesta þörf á þessum styrk, því að eins og hv. dm. er kunnugt. eru slíkar lækningaferðir lítið borgaðar.

Einnig flyt ég 3 brtt. á þskj. 609. Sú fyrsta, IV, fjallar um það, að veittar verði 50 þús. kr. til öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, fyrsta greiðsla af fjórum, en hinar tvær, XXIV, fjalla um það, að stj. verði heimilað að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. lán fyrir hafnarsjóð Siglufjarðarkaupstaðar, til þess að leggja fram á móti ríkisframlaginu til öldubrjótsins, og ennfremur að ábyrgjast allt að 70 þús. kr. rekstrarlán fyrir Tunnuverksmiðju Siglufjarðar s/f. Ég mun þó ekki gera grein fyrir þessum till. nú, þar sem ég hefi ákveðið í samráði við n. að taka þær aftur til 3. umr., en þá býst ég við að flytja till. aftur óbreyttar eða a. m. k. í svipuðu formi, og mun ég þá gera frekari grein fyrir þeim.