09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (3080)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þykir aðeins eitt að þessum ræðum um innflutningshöft og gjaldeyrisskömmtun, sem hér hafa farið fram um stund, það, að enginn þm. hefir nefnt á nafn þýðingarmikinn aðila þessa máls, sem sé þá, sem leggja gjaldeyrinn til. Það er verið að deila um það, hvernig eigi að ráðstafa þessum gjaldeyri, sem umfram er árlega, en menn gleyma um leið því, að sá aðili, sem leggur gjaldeyrinn upp í hendurnar á þeim til þess að greiða með innflutninginn, er að hordeyja á þessu ári undan öllum þessum ráðstöfunum.

Eins og málum er háttað hjá okkur, höfum við ekki gulltryggða mynt, og þess vegna þarf að koma til opinberra ráðstafana um þessa hluti, sem ekki er þörf á, þegar gullið er látið lagfæra örðugleika viðskiptalífsins.

Nú er það svo, að þegar röskun á jafnvægi í viðskiptalífinu á sér stað vegna opinberra aðgerða, stjórnarfars, fyrir náttúruviðburði, eða hvað það nú er, og eðlileg lögmál þurfa að taka til starfa til þess að rétta hag framleiðendanna, þá verður sú lagfæring af sjálfu sér, ef myntin er gulltryggð. En eins og nú er ástatt með pappírinn hjá okkur, þá kemur ekki til mála slík leiðrétting fyrir framleiðendurna. Þá koma aftur á móti innflutningshöftin og gjaldeyrisskömmtunin, sem forða þeim atburðum frá að gerast, sem gætu gert framleiðendum fært að lifa. Þá er hugsað um þá eina, sem þurfa að halda á þeim erlenda gjaldeyri til að eyða, sem þessi aðili hefir aflað. Því er alveg gleymt, að öflun þessarar erlendu myntar er undir því komin, hvernig búið er að framleiðslunni. Hún hefir minnkað ár frá ári, og enginn veit nema hún haldi áfram að minnka, svo að þarflaust verði að deila um það, hver eigi að fá það lítilræði, sem þá verður til að skammta. Þess vegna vii ég beina því til þeirrar n., sem fer með þetta mál, að hún líti dálítið í þessa átt líka, til bændanna í landinu og til sjávarútvegsmanna, þegar hún tekur ákvörðun um það, hvað hún telur rétt að leggja fyrir d. í þessu efni.

Mér fannst, að málið mætti ekki fara til 2. umr. án þess að sá langstærsti aðili málsins væri nefndur. Því að ef allt það fer í rústir, sem framleiðslan byggist á í þessu landi, þá verður að endingu ekkert til að skammta, og þá gæti svo farið, að með núv. aðstöðu til framleiðslunnar yrði þarflaust að tala um innflutningshöft og gjaldeyrisskömmtun, þegar enginn gjaldeyrir er lengur til.