09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í C-deild Alþingistíðinda. (3083)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Flm. (Magnús Jónsson):

Í fyrirspurn hv. þm. Seyðf. til hæstv. ráðh. kom fram eitt atriði í þessu máli, sem er talsvert eftirtektarvert, en það er það, að þegar byrjað er á svona ráðstöfunum, er einkanlega erfitt að stanza. Á þar við þessi gamli talsháttur, að sá, sem segir A, verði að segja B. Af þessum höftum á eðlilegri rás viðskiptalífsins leiðir, að það kemur út annar sjúkdómur í staðinn fyrir þann, sem verið er að lækna, og þá kemur B-glasið. Þegar búið er að nota B-glasið, þá kemur þriðji sjúkdómurinn fram, og þá þarf að fara að skammta, gefa út seðla út á sykur eða hvað það nú er, og þá kemur C-glasið. Þetta er einn meginókosturinn við opinberar ráðstafanir, sem eru látnar grípa truflandi inn i. - Það má vera satt, að verðlag á vörum hafi hækkað. En hv. þm. Seyðf. verður að hafa það í huga, að verðlag verður að hækka og hlýtur að hækka, þegar svona höft eru sett. Ef fyrirtækin eiga að komast áfram með helmingi eða ferfalt minni umsetningu, þá er óhjákvæmilegt, að verðlag verði að hækka, því að flestir útgjaldaliðirnir eru óbreyttir. Það er erfitt að meta það nákvæmlega, hvenær verðið er orðið óeðlilega hátt, og skal ekkert um það dæmt. Eina ráðið við þessu er nú það, að taka ekki upp A-glasið, ef ekki er nauðsyn á því. Ég hefi haldið, að afstaða Alþfl. til þessara ráðstafana hefði verið sú, að þær hefðu ekki verið nauðsynlegar, og gæti hann því verið með því að samþ. þetta frv. og leyft eðlilegum viðskiptum að falla í sinn farveg aftur.

Það var sagt, að höftin hefðu orðið til stórgróða fyrir vefnaðarvöruverzlanirnar, af því að þær hefðu getað selt meira af sínum birgðum. Þar hefir sannarlega verið gefið með annari hendinni það, sem var tekið með hinni. Um leið og þær fá þessi fríðindi, þá hafa þeirra viðskipti verið lömuð með því að meina þeim að flytja inn þær vörur, sem þeim er mestur hagur í að flytja inn, og það eru nýju vörurnar. Verzlun byggð á frjálsum grundvelli hlýtur að gera ráð fyrir því, að eitthvað af vörum verði afstands, og á eðlilegum tímum verða verzlanirnar að setja þær niður til þess að geta komið þeim út á svokölluðum útsölum. Nú munu þær hafa getað selt mest af þeim fyrir talsvert meira en vant er. Ég trúi ekki, að vefnaðarvörukaupmenn, skókaupmenn eða kaupmenn yfirleitt væru svona á móti innflutningshöftunum, ef þeir græddu á þeim.

Hæstv. ráðh. dró nú fram þær ástæður, sem hann hefði til að halda höftunum. Ég tók að vísu eftir þessum ástæðum í hans fyrri ræðu. Hann sagði eitthvað á þá leið, að ef verzlunarjöfnuðurinn í stað 1 millj. kr. fram yfir hefði orðið 2-3 millj. kr. undir t. d. þetta síðasta ár. hvernig hefði þá farið. Þarna finnst mér nú hæstv. ráðh. byggja á því, sem á að sanna. Það á að sanna, að innflutningshöftin hafi valdið þessu.

Ég held, að það hafi svo ekki verið fleira. Mér þykir eðlileg sú ósk hans, að ég vilji skapa honum aðstöðu til að vera fjmrh. þangað til batnar um. Ég er að því með þessu, og ég óska, að hann vilji styðja mig í því að stiga þessi fyrstu spor, sem ég álít, að þurfi að stíga til að úr rætist. Ég er að bjóða honum miklar tekjur í ríkissjóðinn og þá miklu skemmtun, sem verður að því að vera þá fjmrh., og vandræðin verða eitthvað minni.