06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í C-deild Alþingistíðinda. (3092)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Eins og sést á nál. meiri hl. fjhn., leggur meiri hl. n. til, að frv. þetta verði fellt.

Í grg. frv. eru færðar fram helztu ástæðurnar fyrir þessu frv., og hefir minni hl. fjhn. tekið þær upp í nál. sitt, en jafnframt aukið nýjum við. Þessar helztu ástæður eru í stuttu máli þær, að innflutningshöftin séu til óþurftar fyrir þjóðfélagið, tekjur ríkissjóðs minnki, með því að ríkissjóður missi innflutningstoll af þeim vörum, sem innflutningur er bannaður á, auk þess sem höftin dragi úr tekjum ríkis og bæjarfélaga með því að lama atvinnumöguleika og gjaldþol manna, eins og þetta er orðið í nál. minni hl. á þskj. 302.

Lítur það óneitanlega hálfeinkennilega út, að því minna, sem keypt er af ónauðsynlegum vörum, því minni skuli greiðslugetan vera, því að manni sýnist sem þetta ætti að vera öfugt, að kaupgetan hljóti að vera því meiri, sem minna er keypt. Það er að vísu satt, að þeir menn, sem hafa atvinnu af sölu ónauðsynlegs varnings, missa atvinnumöguleika sína og tapa þannig við þetta fyrirkomulag, en þó ekki nema að nokkru leyti, því að það er viðurkennt bæði af formælendum og andmælendum þessa frv., að allmikil verðhækkun varð á þessum varningi, sem þegar var til í landinu, er reglugerðin um innflutninghöft var sett.

Meiri hl. telur að vísu, að komið geti til mála að lina á höftunum, en vill í því sambandi leggja áherzlu á það, að þetta verði ekki gert nema samhliða því, sem sett verði ný tollalöggjöf, er takmarki mjög innflutning þessara vörutegunda, sem gera má ráð fyrir, að verði mjög mikill, ef engar skorður eru við reistar, vegna þess, að þessar vörutegundir munu vera gengnar mjög til þurrðar vegna innflutningshaftanna. Ættu að vera nægar hömlur í þessu efni, að tollurinn væri hafður svo hár, að menn gætu ekki haft tilhneigingu til að flytja meira inn en góðu hófi gegnir, og mætti haga þessu svo, að hafa tollinn svo háan á meðan jöfnuður er að komast á innflutninginn. Að ástæðurnar fyrir hömlum á innflutningi ónauðsynlegs varnings séu fallnar burt, get ég ekki fallizt á. Verzlunarjöfnuðurinn við útlönd var að vísu hagstæður síðasta ár, en þetta mun aðallega stafa af því, að ógreiddar eru venju fleiri upphæðir við útlönd, sem færast yfir á árið 1933, svo að þrátt fyrir hinn góða verzlunarjöfnuð, mun ekki mikið fram yfir það, sem nauðsynlegt er á hverjum tíma, til þess að þjóðin geti staðið undir greiðslum sínum til útlanda.

Ef menn keyptu nú vörur fyrir þessa peninga, sem þeir annars myndu kaupa óþarfavarning fyrir, þá ætti þetta ekki að geta orðið, sem bent er á hér í grg. frv. Sem sagt, allur málflutningur um nauðsyn þess að aflétta innflutningshöftunum virðist mér vera í svo lausu lofti, að ég sé ekki, að vert sé að taka hann alvarlega. Hvort eitthvað ofurlítið kunni að vaxa innkaup á öðrum vörum, vil ég ekki fullyrða um. En ég hefi heyrt stuðningsmenn þessara frjálsu viðskipta tala um það, að þetta mundi nema 200-300 þús. kr. tapi fyrir ríkissjóð, og mun þá byggt á, að innflutningurinn næmi 1 milljón. Ég sé ekki, að við séum færir um það nú að játa erlendan gjaldeyri fyrir alóþarfar vörur, þó að ekki sé nema 1 millj. kr. Hæstv. fjmrh. hefir litið svo á, og ég hygg óhætt að fullyrða, að hann líti svo á, að ekki megi slaka til á þessu sviði enn sem komið er. Í því efni er vitanlega skylda þingsins að taka mikið tillit til till. hans, því að gera verður ráð fyrir, að honum sé kunnugra en öðrum, hver áhrif afnám innflutningshaftanna yrðu fyrir þjóðfélagið í heild sinni, bæði ríkissjóð og einstaklinga.

Ég sé svo ekki ástæðu að svo komnu máli að segja fleira, en meiri hl. n. leggur eindregið á móti því, að frv. verði samþ., sem og sagt er í nál.