06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (3098)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Mig langar til að byrja á því að leggja spurningu fyrir hv. flm. þessa frv., hvernig hann getur samræmt það, sem í grg. frv. stendur, að höftin spilli lánstrausti þjóðarinnar, en jafnhliða batni verzlunarjöfnuðurinn, og skuldirnar við útlönd minnki. Mér finnst, að út frá þessu ætti lánstraustið að aukast, en ekki spillast.

Annars skal ég játa það, eins og ég sagði hér áður, að ég gæti vel gengið nokkuð á móti hv. flm. þessa máls, ef málið væri undirbúið á þann hátt, sem ég teldi nauðsynlegt, af fjármálastj.landsins. En það liggur ekkert fyrir um það nú, og ég hygg, að hæstv. fjmrh. leggi til svipað fyrirkomulag á þessum hlutum nú fyrst um sinn eins og verið hefir.

Í grg. frv. og nál. hv. minni hl. er framsetning, sem mér þykir a. m. k. talsvert varhugaverð. Mér skilst, að þar sé haldið fram, að innflutningshöftin auki framfærsluþörf hins opinbera. Ég verð að segja, að mér virðist vera farið að seilast helzt til langt og nota flest, þegar þetta er borið fram sem rök.

Hv. 3. þm. Reykv. hélt fram, að árferði takmarkaði innflutninginn nægilega við þörf og getu þjóðarinnar. Þetta fer nú ekki alveg eftir árferði í atvinnuvegunum, því að þessi kaup eru nokkuð jöfn hjá launastéttunum í landinu. Hann benti á, að ef heftur væri innflutningur á þeim vörum, sem annars eru keyptar til gjafa, þá mundi fólkið gefa bara annað, og hann nefndi klukkur og dýran fatnað. Þetta sýnist alveg rétt hjá hv. þm. í fljótu bragði. En ef menn gefa klukkur eða aðra nauðsynlega hluti, þá er fullnægt þörf viðtakanda gjafarinnar, svo að hann þarf ekki að kaupa sér klukku. Það væri þá mjög heppilegt, ef þessar ráðstafanir kenndu mönnum að gefa gagnlega hluti, ef þeir annars vilja gefa, en ekki það, sem ekkert gagn er að.

Viðvíkjandi till. hv. frsm. minni hl. um gjaldeyrisúthlutun, þá er engin breyt. í henni frá því, sem nú er.

Ég vil henda á það viðvíkjandi innflutningnum og afnámi haftanna, að því hefir verið haldið fram, og með talsverðum rökum, að menn hafi orðið fyrir talsverðum óþægindum fyrir að hafa ekki haft þessar vörutegundir í búðum sínum. Vitanlega myndu þeir hinir sömu menn hafa úti allar klær til að ná sér í þær vörutegundir, ef höftunum yrði af létt, til þess að vinna upp nokkuð af því, sem þeir töpuðu undanfarið vegna haftanna. Menn flyttu inn það, sem þeir hefðu nokkra möguleika til að koma út meðal fólksins. Menn ættu að muna eftir, hvernig innflutningur tóbaks var eftir að tóbakseinkasalan var lögð niður. Sá geysimikli innflutningur stafaði af því, að þeir, sem ætluðu að hafa atvinnu af tóbakssölu, lögðu kapp á að umsetja sem allra mest og sem allra fyrst. Alveg sama yrði nú uppi á teningnum, ef höftunum væri kippt burt nú.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta öllu meir. Málið liggur svo ljóst fyrir öllum. Það, sem vantar til þess að geta sannfært alla, er ekki hægt að draga fram nú. Það er ekki hægt að segja um, hvernig þetta myndi verka. Reynslan ein sýnir það; nú er ekki hægt að dæma um málið nema eftir líkum.