10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Jónsson:

Ég hefi flutt hér brtt. við 14. gr. um örlitla fjárveitingu til fransks sendikennara við Háskóla Íslands. Brtt. þessi er flutt eftir tilmælum rektors háskólans með hliðsjón af því, að sett hefir verið inn í fjárl. fjárveiting til sendikennara frá annari þjóð. Ef þessi till. væri felld, væri því gert upp á milli þessara tveggja þjóða á óviðurkvæmilegan hátt. Háskólanum þykir eðlilega þakkarvert að fá menn fyrir svona lítið fé, en vitanlega tekur enginn að sér slíkt starf, nema styrkur komi til annarsstaðar frá. Hér hefir verið franskur sendikennari í vetur, er hefir haft um 80 nemendur, og mun marga fýsa að halda því námi áfram. Vona ég því, að þingið taki þessu góða, ódýra máli vel.

Þá hefi ég flutt aðra brtt. við 14. gr., um að hækka styrkinn til sundlauga upp í 10000 kr., og gangi þar af 5000 kr. til sundlaugar í Vestmannaeyjum. Þessi brtt. er flutt að tilmælum hv. þm. Vestm. og fleiri manna þar. Vestmannaeyingar ætla nú að byggja sundlaug, sem ætlað er að kosti 35 þús. kr. og hita með miðstöð. Þetta er nýjung, sem aðeins hefir verið reynd á einum stað áður, í Bolungavík, gefizt þar vel og ekki orðið þorpinu ofviða fjárhagslega. Þarf ekki að eyða að því orðum, hve sundkunnátta er nauðsynleg á slíkum stöðum, þar sem sjómennska er aðalstarf flestra.

Þá flyt ég við sömu gr. brtt. um 2000 kr. styrk til skíðamannaskýlis sunnan Vífilsfells fyrir nemendur ríkisskólanna í Rvík. Þessi upphæð er ekki há, a. m. k. ekki þegar litið er á, hve miklu ríkið ver til kennaraskólans, menntaskólans og háskólans í Rvík. Áhugi fyrir skíðaíþróttinni er mikill og vaxandi í þessum skólum, en skíðafæri oft óhentugt, vegna þess að skýli vantar á góðum stað. En einn af íþróttafrömuðum landsins, Guðmundur Einarsson listamaður frá Miðdal, segir svo frá, að í Lönguhlíðum á bak við Vífilsfell sé samfelldur snjór, sem hægt sé að nota í sjö mánuði.

Þá á ég brtt. við 15. gr. Fer hún fram á að Íslandsdeild Norræna félagsins sé veittur 1200 kr. styrkur. Félag þetta nær yfir Norðurlönd, og er mark þess að auka kynningu meðal norrænna þjóða. Ísland hefir verið í félaginu í nokkur ár, en sá er munur á, að íslenzka deildin er fátæk, en hinar ríkar. Þannig hefir t. d. forsætisráðh. norski, Mowinckel, gefið félaginu 100 þús. kr. og hefir fyrir það fé verið keypt höll á Fjóni, þar sem Svíar, Danir og Norðmenn koma saman. En við stöndum ver að vígi vegna fjarlægðar. Íslenzka vikan, sem haldin var í haust í Stokkhólmi, var haldin fyrir tilstilli þessa félags. Ísland hefir aldrei fengið betri auglýsingu í Svíþjóð. Það er því mjög óþægilegt fyrir íslenzku deildina að vera alveg peningalaus, enda viðurkenndi stjórnin það með því að setja dálitla upphæð í fjárl. í þessu skyni.

Þá flyt ég brtt. við 16. gr., um 500 kr. til rannsókna á lífsskilyrðum silungs í helztu veiðivötnum. Brtt. þessi er flutt eftir tilmælum ýmissa áhugamanna, sem óska eftir, að slík skilyrði verði rannsökuð í helztu veiðivötnum landsins, svo sem Þingvallavatni, Mývatni, vötnum á Arnarvatnsheiði o. fl. Ungur og efnilegur maður, sonur Guðmundar skálds á Sandi, hefir kynnt sér þetta efni ýtarlega og getur því komið til greina til að vinna verkið.