06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3101)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Jóhann Jósefsson:

Ég vildi taka undir með þeim mönnum, sem leita vilja að lausn á þessu máli, svo að sem minnst vandræði hljótist af, því eins og kunnugt er, hafa innflutningshöftin þegar valdið fjölda manna atvinnumissi og þar af leiðandi ýmsum vandræðum. Ennfremur hafa þau þær verkanir, að verzlanir hafa minna vöruúrval en þegar frjáls innflutningur er, og jafnframt, að varan er seld dýrari. Það þarf heldur ekki annað en líta í verzlanir hér til þess að sjá þetta. Ferðamenn, sem koma hingað frá útlöndum, segja líka, að verð á erlendum varningi hér haldist alls ekki í hendur við verðfall hans erlendis. Þetta ástand er að miklu leyti innflutningshöftunum að kenna. Þau hindra hið frjálsa framboð varanna, sem leiðir aftur til verðhækkunar.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara að gera að umtalsefni, hvernig þessi haftapólitík hefir verið og er útfærð. Það væri efni í langa ræðu, ef ég nennti að fara að segja frá öllum þeim mistökum á framkvæmd þeirra, sem mér beinlínis eru kunn. Menn muna t. d. eflaust eftir uppþotinu, sem varð í vetur, þegar einum manni var leyft að flytja inn þurrkaða ávexti. Þá má t. d. minna á innflutningsleyfin fyrir vefnaðarvörum. Þar eru allir dúkar, hverju nafni sem nefnast, undir einum og sama hatti. Það er hægt að flytja inn undir heitinu „vefnaðarvöru“ jafnt dýrasta crepe de chine, sem er efni í ballkjóla, sem allra nauðsynlegasta íverufatnað. Það verður því tæplega um það deilt, að svo mikil vandræði stafa af þessum innflutningshöftum, að mjög væri nauðsynlegt, ef fengizt gæti einhver lagfæring þeirra mála.

Þá væri og fróðlegt að fá að vita, hver væri kostnaður af innflutnings- og gjaldeyrisnefndinni. Ég hefi heyrt, að hann væri allmikill.

Þau einu höft, sem ég held, að komið gætu til greina, væri aðeins gjaldeyrisskömmtun. Það væri miklu betra en hindra innflutning á fjölda vörutegunda.

Með því væri mönnum þó ekki meinað að nota lánstraust sitt erlendis, en afleiðingin af því er, eins og tekið hefir verið fram, fábreyttari vörur og hærra vöruverð.

Þá er eitt atriði enn, að sé svo, sem heyrzt hefir, að innflutningsleyfunum sé úthlutað mjög misjafnlega, þá gerir það aðstöðu kaupmanna mjög ójafna. Sumir fá miklu betri aðstöðu til þess að reka viðskipti sín en aðrir. En slíkt er ekki rétt. Það þurfa allir að hafa sem jafnasta aðstöðu að ná vörunni inn í landið. Það væri því mjög æskilegt, ef meiri hl. fjhn. tæki höndum saman við minni hl. um að kippa þessu máli í lag. En fari svo, að það verði ofan á, að innflutningshöftunum verði beitt áfram, þá tel ég nauðsynlegt, að þingið geri ráðstafanir til þess, að reglugerð sú, sem nú er beitt, verði nákvæmlega endurskoðuð. Það má þó ekki minna vera en þar sé kippt burt mestu meinlokunum.