06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (3105)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég er sammála þeim andmælendum frv. þessa, sem hér hafa talað, að haftalaus innflutningur eins og nú standa sakir sé hættulegur, því að á því er enginn vafi, að ef höftunum yrði aflétt, þá myndi innflutningurinn aukast að miklum mun. Hinsvegar er ég líka á sama máli og hv. frsm. minni hl., að þau innflutningshöft, sem við eigum nú við að búa, séu mesti gallagripur. Þau eru ekki aðeins til þess að skapa óþægindi, heldur og líka til þess að hækka verð á ýmsum vörutegundum. En á því á stjórnin sökina, þar sem hún hefir ekki sett neitt hámarksverð á vörur, sem hætta er á, að hækkaðar verði um of í verði vegna haftanna. Að þessu leyti get ég verið sammála báðum. Ég hygg nú, að hvort sem menn eru með höftum eða á móti, þá geti allir verið á einu máli um það, að þau geti verið tvíeggjað vopn, sérstaklega með tilliti til erlendra viðskiptaþjóða. Þar verður að gæta allrar varúðar.

Þau innflutningshöft, sem við höfum nú, koma t. d. alls ekkert við sumar viðskiptaþjóðir okkar, en aftur koma þau allmjög niður á öðrum. Það er því ekki víst, hversu lengi þær þegja við þessu misrétti. Ég tel því alveg óforsvaranlegt að láta reka á reiðanum um þessa hluti. Þau höft, sem við höfum nú, eru eins og ég þegar hefi tekið fram, mjög lítils virði, þar sem líka svo hagar til í heiminum eins og nú, að allar þjóðir keppast um að selja sem mest, m. a. með því að láta vörur í vöruskiptum. Kaupa aðeins frá þeim þjóðum, sem aftur kaupa af þeim. Í þessu efni höfum við Íslendingar góða aðstöðu í flestum viðskiptalöndum okkar, sem næst liggja, svo sem Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Englandi. Við kaupum meira af þeim heldur en við getum selt þeim. Þessa góðu aðstöðu má að sjálfsögðu nota í viðskiptasamningum á milli ríkjanna. Öðru máli gegnir um aðstöðu okkar gagnvart Miðjarðarhafslöndunum, Ítalíu, Spáni og Portúgal. Þar erum við miklir seljendur, en litlir kaupendur. Mig furðar því, að ekki skuli hafa verið minnzt á hættu, sem yfir okkur getur vofað í viðskiptunum við þessi lönd. Eins og kunnugt er, þótti ekki fært að hafa verzlunarviðskiptin við útlönd í höndum einstaklinga meðan á stríðinu stóð og fyrst eftir að stríðinu lauk. Var öll verzlun landsmanna þá í höndum Landsverzlunarinnar og fór vel úr hendi. Ég er því í engum vafa um, að bezt færi á því, að öll kaup og öll sala á nauðsynjum landsmanna færi fram undir stjórn hins opinbera. Þá væri hægt að haga innkaupunum þannig, að viðskiptin yrðu gróðasöm. Með því yrði líka komizt hjá að hafa innflutningsnefnd. Þá hyrfu og öll höft og gjaldeyrisnefnd úr sögunni.

Annars er vert að athuga það í þessu sambandi, að í viðskiptum þjóða á milli ríkja nú tvær stefnur: Kvótastefna og tollastefna. Það er samið um á milli landanna, að þau fái að flytja inn hvort til annars ákveðið magn af vörum, og hvort sem miðað er við þessa kvótastefnu eða tollastefnu, þá er mikið undir því komið, að það hlutfall raskist ekki, sem á er byggt.

Mér þótti rétt, úr því að mál þetta var til umr., að skýra afstöðu mína til þess. Ég tel innflutninghöft þau, sem við búum við nú, kák eitt, sem óvíst er, hvort gera meira gagn en ógagn, en ég tel ekki rétt að opna allt upp á gátt fyrir nýjum innflutningi, heldur beri að taka alla verzlun undir eina stjórn, svo hægt sé að njóta hinnar beztu aðstöðu og komast hjá kvótaákvæðunum. Frá mínum bæjardyrum séð yrði kaup á nauðsynjavörunum að sitja fyrir öllu. Hitt færi svo eftir afkomu landsmanna, hvað flutt væri til landsins af öðrum vörum á hverjum tíma.