07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

52. mál, friðun fugla og eggja

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Ég vil frábiðja mér þann heiður, sem hv. flm. vildi beina til mín, að ég væri flm. Hinsvegar hefi ég reynt að hlusta eftir því, hvað bak við lægi hjá hv. flm. Kom það þá í ljós, að hann vildi fyrst og fremst hafa þetta mál að mælikvarða á það, hverjir væru hysteriskir, sálsjúkir eða móðursjúkir. Ef hann hefir ætlazt til, að aðrir hefðu málið líka að mælikvarða á þetta, þá hefir hann hlaupið á sig. Hv. flm. talaði hér sjálfur um allt milli himins og jarðar, og kom flest heldur lítið við fuglafriðun: Skurðgoðadýrkun, heilagar verur, rímur og söng. Virðist mörgum, sem hér sé um að ræða skrípaleik eða loddaraleik, sem ekki á að eyða tíma þingsins i. Taldi hv. þm. það eina ástæðuna til útrýmingar svönunum, að ekki hefði verið kveðið sæmilegt kvæði um þá síðan 1913, er þeir voru friðaðir. Sagði hann, að þeir gætu bara gargað, og ætti því að koma í veg fyrir það, að þeir syngju svona illa og að mennirnir kvæðu svona illa um þá. Er það einkennileg dýravernd, sem hér er á ferðinni. Til þess að svanirnir drepist ekki úr hungri í hörðum vetrum, á að elta þá uppi með byssum í góðærum. Hvað myndi hv. flm. segja, ef Dýraverndunarfélagið kæmi með þá till., að bændur færu nú að skera niður fé sitt ótakmarkað á hverju hausti, til þess að koma í vel fyrir, að það horfélli?

Þá hélt hv. flm. því fram, að enda þótt uglan væri sjaldgæfur fugl, þá væri hún samt mesti skaðræðisgripur. Getur það varla verið, að sá fugl sé hér skaðræðisgripur, sem varla nokkurn tíma sést. Mætti þá eins hætta við friðun á örnum, ef nú á að fara að útrýma uglunum að fullu. Ef hér ætti strax og einhver fugl sést að fara að hefja eltingaleik á hann, þá yrði það varla til þess að gera fuglalíf fjölbreyttara hér á landi.

Það, sem máli skiptir hér, er það, hvort við höfum vit á því að efla fjölskrúðugt og skemmtilegt fuglalíf, eða hvort við erum svo miklir rányrkjumenn í eðli okkar, að við getum ekki séð af þeim smávægilega hagnaði, sem því fylgir að veiða fugla, og vinnum því að útrýmingar- og eyðingarstefnu í fuglalífi landsins. Ég er sannfærður um, að ekki þarf lengi að deila um það, hvor þessara stefna á meiri ítök í hugum hv. þm.