07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (3134)

52. mál, friðun fugla og eggja

Bjarni Ásgeirsson:

Það kom ekki eitt einasta atriði fram hjá hv. frsm. meiri hl. n. um það, að nauðsynlegt væri að friða álftina. Það eru heldur ekki til rök fyrir slíku. Því hefir aldrei verið haldið fram, að það eigi að útrýma svönunum. Það er gaman að hafa fjölbreytt dýra- og fuglalíf. En við eigum ekki að láta fuglamergðina vaga okkur svo yfir höfuð, að við gerum landið að fugla- eða kríuskeri.

Ég lít svo á málið, að við eigum að sitja fyrir fuglunum í því að hafa afnot af landinu og gæðum þess.

Hv. þm. var að gera einkennilegan samanburð. Hann sagði, að ef Dýraverndunarfélagið færi að skipta sér af sauðfénu í þá átt að vernda það með fækkun tegundarinnar, eftir þeirri verndunarstefnu, sem fylgt væri í frv. viðvíkjandi svönunum, þá vildi hann segja, að það ætti að stuðla að því, að hver sem væri mætti slátra sauðfénu á haustin, og það fyrir hverjum, sem í hlut ætti. Þetta er vitanlega samanburður, sem nær engri átt. En það á reyndar að slátra nægilega miklu af búfénu á haustin, til þess að það, sem eftir er, hafi nóg fóður, þó hart verði. Ef Dýraverndunarfélagið tæki upp sömu stefnu gagnvart sauðfénu, sem það hefir nú gagnvart álftinni, þá ætti það auðvitað að banna að slátra sauðfé, eins og það vill banna að drepa fuglana. En eina sanna dýraverndunin, bæði gagnvart fénaði og fuglum, er sú, að sjá um, að ekki sé meira til af hverri tegund en það, sem getur lifað í harðindum vegna skorts.

Það skyldi sannast, að enda þótt þetta frv. yrði að l., þá yrði þó alltaf nægilega mikið til af svönum til að syngja fyrir þá, sem á það vildu hlusta, og synda fyrir þá, sem á það vildu horfa. En færri svanir mundu þá deyja þeim kvalafulla dauða, sem hlutskipti þeirra er í hörðum vetrum.

Ég held, að ég geti látið niður falla að ræða þetta meira, því að ég hefi nú tekið fram aðalatriði málsins. Þau atriði, sem ég tók fram áðan, tók ég ekki fram mínu máli til stuðnings út af fyrir sig, heldur aðallega til að sýna fram á, hve „hysteriskt“ það er, sem fært hefir verið fram á móti frv., því að í því hefir engin heil brú verið.