10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

1. mál, fjárlög 1934

Guðrún Lárusdóttir:

Ég á aðeins fáar brtt. við fjárlfrv. Þær eru líka bæði einfaldar og óbrotnar, svo að ég þarf ekki að hafa langt mál um þær. Það má vera, að það þyki bæði sparðatíningur og smámunir að vera að krukka í það sama ár eftir ár hér í þinginu, eins og t. d. risnufé forsrh. En það má líka segja, að allt sé nú svo smátt hjá okkur Íslendingum, og að við höfum sáralitlum efnum yfir að ráða, og verðum því að sníða okkur stakk eftir vexti. Það má náttúrlega segja, að skemmtilegast hefði verið að þurfa ekki að klípa af neinum fjárveitingum, t. d. til listamanna og skálda. En af því að við erum fátæklingar, þá verðum við að klípa af greiðslum, til þess að útgjöld og tekjur standist á. Okkur fer líkt og fátækum bónda, sem kemur í kaupstað með vöruna sína, hún er af svo skornum skammti, en þarfirnar eru margar. Það má vel vera, að þessi styrkur til hæstv. forsrh. til þess að halda uppi risnu sé nauðsynlegur, en ég tel, að það fari illa á því að veita fé úr ríkissjóði til veizluhalda, þegar fjöldi fólks í landinu veit varla, hvað leggja skal sér til munns dag hvern. Það er hart á þessum tímum að eyða miklu fé til risnu. En ég þykist þó fara hóflega í sakirnar, þar sem ég legg til, að risnufé verði aðeins lækkað um 1000 kr., eða úr 6000 kr. í 5000 kr. Fyrir fáum missirum var risnufé ráðh. 8000 kr., en svo lækkaði stj. það sjálf niður í 6000 kr., og gefur það grun um, að það megi að skaðlausu færa það úr 6000 niður í 5000 kr., eins og ég hefi gert að till. minni. Næsta brtt., sem ég flyt á þskj. 609, er við brtt. á þskj. 565, um hækkun á styrk til frú Bjargar C. Þorláksson. Hv. fjvn. leggur til, að hún fái 1000 kr., en samkv. brtt. minni er upphæðin færð upp í 1500 kr. Frú Björg hefir samkv. fjárl. þessa árs 2000 kr. En í fjárlfrv. stj. fyrir 1934 var það fært niður í. 1000 kr., Nd. felldi svo þessa upphæð alveg niður. Hv. fjvn. þessarar d. hefir nú gert það sómastrik að taka aftur upp sömu fjárhæð og var í frv., sem ég hefi leyft mér að leggja til, að verði hækkuð. Hér á í hlut mjög mikilhæf kona og stórmenntuð, eina vísindakonan, sem við Íslendingar eigum, sem hefir í ræðum og ritum og öðrum störfum unnið þjóð sinni stórgagn. Ég vil t. d. nefna hið mikla starf hennar við íslenzk-dönsku orðabókina, sem allir þekkja. Ég efast mjög um, að bókin hefði komið svo fljótt út eða orðið eins nákvæm og raun varð á, ef frú Bjargar hefði ekki notið þar við. Enda tekur aðalhöfundur bókarinnar það fram í formálanum fyrir henni, að frú Björg hafi verið sannarleg hjálparhella við það mikla starf. Hér er ekki um neitt meðalverk að ræða, heldur þrekvirki, sem verðugt er, að munað sé. En hvað skeður svo, þegar kemur til kasta fjárveitingavaldsins? Fyrst lætur stj. í frv. sínu lækka styrkinn til frú Bjargar um helming, síðan er lagt til, að hann sé alveg felldur niður í Nd. Því næst leggur hv. fjvn. þessarar d. til, að henni verði veittur helmingur þess styrks, sem hún nýtur nú, og þó að ég kunni hv. n. þakkir fyrir þá till., þá legg ég nú til, að styrkurinn verði hækkaður í 1500 kr. Vona ég, að hv. þdm. geti með beztu samvizku greitt því atkv. Hér er um sannarlegt menningaratriði að ræða, þegar í hlut á svo merk kona sem frú Björg er, sem hefir starfað landi og lýð til gagns, heilla og sóma. Ég get ekki stillt mig um að bera þessa framkomu gagnvart henni saman við þá meðferð, sem sumir hinna ungu rithöfunda þjóðarinnar hafa átt að mæta hjá Alþingi og öðrum stjórnarvöldum í landinu. En næsta brtt. mín á þskj. 609 lýtur að einum þessara rithöf., H. K. Laxness. Hann hafði í fyrra 1600 kr., en hefir nú verið hækkaður upp í 2500 kr. Ég sé ekki ástæðu til að gera slíkan mun á honum og þeirri konu, er ég talaði um áðan. Ég veit að vísu, að karlmenn eru vanir að bera meira úr býtum fyrir störf sín en kvenfólk. En störf þessara tveggja rithöfunda, H. K. Laxness og frú Bjargar, hafa verið næsta ólík. Það er heldur meira, sem eftir hana liggur af því, sem gagnlegt má teljast; er þar ólíku saman að jafna. Ég sé því ekki betur en að það verði a. m. k. að færa þessa liði til samræmis, og lækka rithöf. styrk H. K. Laxness niður í 1500 kr. Ég hefi áður rætt um verðleika þessa höf. og fer ekki lengra út í það nú. Ég hefi einnig áður látið mér það um munn fara, að ég vildi engan greinarmun gera á H. K. L. og Þórbergi Þórðarsyni rithöf., ég vil gera þá jafna og legg því til, að þeir fái 1500 kr. hvor. Þess má líka geta, að annar þessara rithöf., H. K. L., hefir getað selt menntamálaráðinu handrit sín fyrir hátt verð. Og það er líka mikill kostur fyrir hann, að geta orðið af með hin andlegu fóstur sín fyrir góða borgun.

Þá ber ég fram við 16. gr. XXVI. brtt. á þskj. 609, og er það nýr liður, 1500 kr., til landsfundar kvenna. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá fer félagslíf kvenna hér á landi vaxandi með hverju ári. Félög þeirra og félagasambönd starfa hvert á sínu sviði. Kvenréttindafélag Íslands hefir gengizt fyrir landsfundum kvenna öðru hverju, þar sem konur af öllu landinu hafa komið saman til að kynnast hver annari, ræða áhugamál sín og auka sitt andlega útsýni. Ég tel þetta mjög heppilegt fyrirkomulag, enda tíðkast það mjög meðal karlmannanna, svo sem kunnugt er. Þess er skemmst að minnast, að bændur af öllu landinu höfðu hér fjölmennar samkomur í Reykjavík til að ræðast við um áhugamál sín, þar sem nýlega eru um garð gengin flokksþing Frsfl. og Sjstfl. Ég þarf naumast að taka það fram, að efnahagur kvenfélaganna er ekki góður, og Kvenréttindafél. Ísl. treystir sér ekki til þess að stofna til landsfundar, nema það fái til þess svipaðan styrk og 1930, eða um 1500 kr. Ætlun fél. er að nota þennan styrk til þess að gera konum, sem koma utan af landi, ánægjulega dvölina í höfuðstaðnum. Ég get ekki hugsað mér, að nokkur hv. þdm. geti verið á móti þessum styrk. Mér finnst réttmætt, að konur fái að njóta slíkrar viðurkenningar fyrir sín félagsstörf. Ég hygg, að þessi till. sé á fullum rökum byggð og óska, að hv. þdm. samþ. frekar hærri upphæðina. En til vara hefi ég flutt till. um 1200 kr. styrk til landsfundar kvenna, ef hin fyndi ekki náð fyrir augum hv. þdm., sem ég þó vona.

Þá á ég enn brtt. XXIX. á sama þskj., við 17. gr. 25, nýr liður, til byggingar fávitahælis. Ég þarf ekki að fjölyrða um þörfina fyrir slíka stofnun. Nýlega hefir verið lögð fram bók hér í þd., sem er samin eftir skýrslum frá læknum landsins. Þar er getið um, hversu margir fávitar séu í landinu, og vantar þó skýrslur um það frá ýmsum stöðum. En tölurnar sýna þó, að það er mikil þörf á þessu hæli. Ég geri ráð fyrir, að allir viðurkenni, að fávitarnir eru þung byrði á einstökum heimilum, og að fjöldi mæðra og húsmæðra stynja undir því erfiði að annast um fávitana. Á síðasta þingi var flutt þáltill. um að skora á stj. að undirbúa lausn þessa máls, stofnun fávitahælis. En hún bar ekki mikinn árangur. Saga þessa máls er sorgleg, en út í hana vil ég ekki fara nú. Hitt vil ég fullyrða, að sumum málum hefir verið flýtt til framkvæmda, sem ekki hefir legið meira á en þessu máli. Nú stendur svo á, að ung og efnileg stúlka hefir tekið að sér að stofna og starfrækja fávitahæli í Hverakoti í Grímsnesi. Ég veit, að allir þeir, sem þekkja til, hvernig henni hefir tekizt að grundvalla barnahælið, sem hún rekur þar fyrir vanþroska börn, muni mér sammála um, að það hafi lánazt vel. Þetta er mjög góður staður fyrir börn, sem þurfa að njóta sérstakra vaxtarskilyrða. Þessi stúlka hefir kynnt sér meðferð á fávitum á tveimur fávitahælum í Þýzkalandi, sérstaklega fávita barna, bæði að því er snertir mataræði þeirra og aðra meðferð. Og hygg ég, að nú sem stendur eigum við ekki völ á öðrum, sem séu betur færir til þess en Sesselja Sigmundsdóttir, að gegna þessu hlutverki. Hún hefir sótt um 5000 kr. styrk til þess að stofna hæli fyrir fávita börn í Hverakoti í Grímsnesi. Nú stendur svo á, að hjá henni eru 4 fávitar, sem Reykjavíkurbær hefir ráðstafað þangað. Þeir eru á mismunandi þroskastigum, en þeir þurfa að vera alveg út af fyrir sig. Forstöðukonan telur sig ekki geta unað við þá aðstöðu til frambúðar, sem hún hefir nú. Það sé erfitt að hafa fávitana með öðrum börnum í sama húsi. Þá fávita, sem þar eru nú, hefir hún í kjallarastofum. En þegar þeir eru úti við, þá er erfitt að gæta þeirra, af því að stór barnahópur verður að hafast við á sömu stöðvum. Þess vegna hefir hún nú hugsað sér að reisa þetta hús í dalverpi skammt frá barnahælinu, og byggja háa steingirðingu umhverfis fávitahælið, þar sem fávitabörnin geti haft gott svigrúm til leika út af fyrir sig, án þess að koma saman við önnur börn og trufla leiki þeirra. En til þess að geta komið þessu í framkvæmd þarf hún fé til styrktar, og sækir því um 5000 kr., sem hún telur sig geta komið húsinu upp fyrir í sumar, með lántökuaðstoð og viðbótarstyrk annarsstaðar að. Hún vill byrja að starfrækja þetta heimili næstkomandi vetur. Ég sé, að hv. fjvn. hefir ekki getað fallizt á að veita styrk til hjálpar einum fávita, sem komizt hafði inn í fjárlfrv. í Nd., og látið strika hann út. Þar er eitt neyðarópið, sem berst til hins háa Alþingis frá þessum ósjálfbjarga vesalingum. Þess vegna finnst mér það vera öflug hvöt til þingsins um að veita styrk til stofnunar fyrir slíka aumingja, svo að ekki þurfi að senda fávitana út úr landinu til dvalar á hælum erlendis. Sesselja Sigmundsdóttir er svo dugleg og athafnasöm, að fyrst hún er byrjuð á þessu fyrirtæki, þá hættir hún ekki fyrr en markinu er náð. Ég vænti, að hv. þdm. geri sitt til þess, að henni takist það, og veiti henni umbeðinn styrk til þess að ljúka þessu verki sem fyrst. Ég lít svo á, að hér sé um hlutverk að ræða, sem þjóðfélaginu í heild beri að sjá um. Það á að sjá fávitabörnunum fyrir griðastað, þessum vesalingum, sem fara á mis við dýrmætustu gjöf þessa lífs, ljós skynseminnar. Ég veit, að í þessari hv. þd. eru svo miklir alvörumenn, sem hafa bæði skynsemi og lífsreynslu til að skilja þá miklu þörf, sem hér er fyrir hendi, og bera fullan vilja til að bæta úr henni. — Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þessa till. En mig langar til að segja nokkur orð í sambandi við brtt. við 16. gr. 41, á þskj. 565, frá hv. fjvn., um að styrkur til Sigrúnar Kjartansdóttur, til að vinna úr íslenzkum skinnum, falli niður. Mér er vel kunnugt um, að S. Kj. ætlar að nota þennan styrk til þess að kaupa vélar til að sauma hanzka, töskur og fleira úr íslenzku efni. Þessari fjárveitingu var komið inn í frv. í Nd., og hygg ég, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða. Sigrúnu Kjartansdóttur hefir verið fundið það til foráttu, að hún notaði að mestu leyti útlent efni til þessa iðnaðar, en ekki innlent. Það má vera, að eitthvað sé til í því, af því að sútun á íslenzkum skinnum er ekki komin í það horf hér á landi, sem nauðsynlegt er. Þó er mér kunnugt um, að hún hefir keypt talsvert af íslenzku efni bæði frá Samb. ísl. samvinnufél. og Jóni Brynjólfssyni leðursala hér í Rvík; og hún hefir tjáð mér, að svo framarlega sem kostur væri á því að fá innlent efni, þá mundi hún frekar nota það. Annars finnst mér, að það þurfi að leggja áherzlu á, að íslenzk skinn verði gerð hæf til þess, að unnar verði úr þeim þær iðnaðarvörur, sem þessi stúlka ætlar sér að framleiða, og ýmislegt fleira. Þess vegna tel ég það illa farið, ef hún getur ekki haldið þessum styrk, og ef þessi liður verður felldur hér, sem Nd. hefir samþ.

Að lokum vil ég með örfáum orðum minnast á brtt. mína á þskj. 624, við liðinn til vinnumiðstöðvar kvenna, þess efnis, að fyrir orðin í aths. við liðinn: „gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að, allt að“, komi: gegn að minnsta kosti jafnmiklu framlági annarsstaðar að.

Af því ég heyrði það af vörum hv. frsm. fjvn., að hann taldi þessa vinnumiðstöð kvenna aðeins starfandi fyrir Reykjavík, þá vil ég segja honum, að hún vinnur fyrir allt landið. Þangað leita konur af öllu landinu og spyrja um atvinnumöguleika, en ekki eingöngu héðan úr Reykjavík. Og einstök heimili úti um land njóta ekki sjaldan góðs af starfsetni stöðvarinnar.