10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

1. mál, fjárlög 1934

Ingvar Pálmason:

Eftir að brtt. á þskj. 624 var útbýtt hér í þd. í dag, finn ég ástæðu til að fara um III. till. nokkrum orðum sérstaklega. Ég get lýst því yfir, að ég er nú þegar ákveðinn í að flytja brtt. við hana. Þessi brtt. á þskj. 624 fer fram á það, að stj. verði veitt heimild til að ábyrgjast allt að 350 þús. kr. lán til að reisa síldarbræðslustöð á Seyðisfirði. Hv. 1. landsk. hafði aðallega orð fyrir flm. till. og mælti af miklum vinarhug til Austfjarða eða Austfirðinga. Í niðurlagi ræðu sinnar gat hann þess, að með þessari till. væri komið inn á rétta leið til þess að bæta úr ástandinu á Austurlandi, vegna núverandi atvinnukreppu. Ég skal ekki bera brigður á, að þetta kunni að vera sannfæring hv. 1. landsk., og að hann flytji þessa till. í góðum tilgangi, þeim tilgangi að bæta hag Austfirðinga. En ég tel rétt að gefa frekari upplýsingar um þetta mál, áður en umr. er lengra komið. Hér er ekki um nýja uppástungu að ræða, eins og kunnugt er. Í ágústmán. síðastl. sumar var haldinn á Nesi í Norðfirði fundur um atvinnu- og afkomuhorfur á Austurlandi og þ. á. m. útvegsmál. Á fundinn voru boðaðir fulltrúar úr stærstu verstöðvum á Austfjörðum, frá Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði og Fáskrúðsfirði. Á fundinum voru rædd ýms vandamál Austfjarða, og m. a. var þar tekið fyrir síldarbræðslumálið. Niðurstaðan af þessum umr. var sú, að fara fram á það við Alþingi annaðhvort að veitt yrði fjárveiting á fjárl. eða ábyrgð ríkissjóðs til þess að reisa Síldarbræðsluverksmiðju á Austfjörðum. Ég hygg, að það hafi einnig verið samþ. á fundinum að senda stjórnarráðinu ályktun um þetta, og mun stjórninni því vera kunnugt um, að þetta er rétt. Nú virðist svo sem hv. þdm. ætli sig dómbærari um þetta mál en fulltrúar bæjarfélaga og útvegsmanna heima í héraði. En ég ætla, að það sé nokkur vandi að ráða fram úr því, ekki sízt vegna þess, að það verður að stofna til þessara framkvæmda með fullri gætni og samtökum. Öllum kunnugum mönnum ber saman um það, sem reynslan hefir sýnt, að síðastl. 30 ár í röð hefir engin veruleg síldveiði verið fyrir Austurlandi um aðalsíldveiðitímann. Og þess ber líka að gæta, að tvö undanfarin ár hefir síldin aðallega veiðzt fyrri hluta vetrar á Austfjörðum. En á þeim tíma árs er síldin mögrust eins og kunnugt er. Þetta er líka mikilsvert atriði í málinu. Á margt fleira mætti benda. Og þá tel ég mér skylt að gefa hv. þd. upplýsingar um það, að til eru aðrir möguleikar fyrir því að stofna síldarbræðslustöð á Austfjörðum á annan hátt en um getur í brtt. á þskj. 624, og sem yrði að líkindum helmingi ódýrari, það er mér óhætt að fullyrða. Á þessa möguleika vil ég benda, af því ég tel sjálfsagt, að þeir verði rannsakaðir. En það er, að síldarbræðsluverksmiðjan verði reist í sambandi við beinamjölsverksmiðjuna á Nesi í Norðfirði. Nú dettur mér að vísu ekki í hug að flytja um þetta till. hér á Alþingi, þó að ég telji mig fullt svo kunnugan þessu máli eins og þá, sem talað hafa fyrir brtt. á þskj. 624, og þess vegna ætla ég ekki að fullyrða, að þetta sé réttasta lausnin á málinu. Til þess þarf enn að athuga ýmislegt, áður en ég vil ganga svo langt; en að því er snertir síldveiðina á Austfjörðum og þann velvilja, sem ég vil meina, að hv. Alþingi beri til Austfjarða um að rétta þeim hjálparhönd til þess að rétta eitthvað hag þeirra, vildi ég benda á aðra leið, sem lítinn byr hefir fengið enn hér á Alþ., og það er að styrkja að einhverju leyti tilraunir um að flytja út síld ísvarða. Ég held, að það megi segja, að með styrkveitingu í þá átt sé ekki síður farið inn á rétta braut en með því að ákveða, að það skuli byggð síldarbræðslustöð á Seyðisfirði. Ég skal nefna, að síðastl. vetur voru gerðar mjög ófullkomnar tilraunir til að senda út síld frá Austfjörðum ísvarða, og þær tilraunir sýndu, að með sæmilegum útbúnaði má koma síldinni í mjög góðu ástandi og markaðshæfri til neytendanna. Ég skal nefna eina sendingu, sem send var frá Norðfirði. Hún fór með skipi, sem fór til Rvíkur og tók þar það sem á vantaði af farminum og fór síðan til Englands. Þegar skipið kom til Englands var síldin búin að vera 19 daga á leiðinni, samt sem áður seldist þessi síld fyrir það verð, að fiskimennirnir fengu milli 4 og 5 kr. fyrir kassann, sem er því sem næst hálft mál síldar. Ég skal ekki leiða neinum getum að því, hve síldarbræðslustöð á Austurlandi gæti gefið mikið verð fyrir hráefnin, en mér er það ljóst, að það verð getur ekki verið líkt því verði, sem hægt er að fá fyrir síldina, ef hægt er að koma henni á markað ísvarinni. Ég hygg, að það þurfi að rannsaka þetta mál betur, en vil ekki tefja það um of. Ég hefi reynt að draga fram í skýrum dráttum aðalatriðin, sem ég tel mæla á móti því að fastbinda þessa verksmiðjubyggingu við Seyðisfjörð; og ætla að láta við það sitja. Ég hefi flutt brtt. á þskj. 636, þar sem lagt er til að þessari till. þeirra þremenninganna verði breytt þannig, að í staðinn fyrir „Seyðisfirði“ komi á Austfjörðum og í staðinn fyrir „Seyðisfjarðarkaupstaðar“ komi viðkomandi bæjar- eða sýslufélag. Þessi brtt. fellur alveg inn í till. þeirra 1. og 2. landsk., og með því móti tel ég, að Alþingi sýndi fullan vilja á því að rétta Austfjörðum nauðsynlega hjálparhönd. Ég skal taka það fram, að verði þessi brtt. mín við till. samþ., þá er nauðsynlegt að breyta fyrirsögn till., því að fyrirsögnin gerir ráð fyrir að fella niður ábyrgðarheimildina, sem er í fjárlagafrv. til samvinnufél. á Seyðisfirði til skipakaupa. Mér virðist, að hv. flm. líti svo á, að ef síldarbræðslustöð yrði byggð á Seyðisfirði, þá sé Seyðfirðingum borgið og þá þurfi þeir ekki neinn skipastól. Ég gæti náttúrlega talað langt mál um þetta, en ætla að sleppa því. Ég vil bera það undir hv. dm., hvort þeir geti ekki ímyndað sér, að það þurfi einhvern ofurlítinn skipakost til þess að afla síldarinnar handa þessari verksmiðju. Þó að þessi verksmiðja kynni að veita allmörgum mönnum atvinnu, hygg ég, að þröngt verði fyrir dyrum, ef það á að vera aðalbjargræðisvegur þar að vinna við þessa bræðslustöð. Það má vel vera, að Seyðfirðingar kynnu að sætta sig við þessi skipti, en ég hygg, að hér sé farið inn á lakari braut en þá, sem hv. Nd. fór inn á, að veita ábyrgð á lánum til fiskiskipakaupa. Ég hefi miklu meiri trú á því að styðja menn til þess að afla sér framleiðslutækja en þó að menn fái atvinnu, sem í reyndinni getur orðið stopul. Ég vil taka það skýrt fram, að með þessari brtt. er ég ekki á neinn hátt að setja fótinn fyrir þá ábyrgðarheimild, sem er í fjárl. Ég vil aðeins, ef þessi brtt. þeirra 1. og 2. landsk. á að ganga fram, að þá sé hún sett í það horf, sem ég tel, að hagkvæmast verði fyrir Austfirði. Ég ætla að segja það, með allri virðingu fyrir þeim kunnugleika, sem þessir menn hafa um ástandið á Austfjörðum og hvaða leiðir skuli farnar til þess að bæta úr því, að ég tel, að ég hafi a. m. k. ekki lakari skilyrði en þeir til að dæma um þetta mál, eftir að hafa stundað sjávarútveg á Austfjörðum í 43 ár. Ég vona, að þessi brtt. mín sýni, að hér er ekki um neina hreppapólitík að ræða, heldur aðeins, að þessi till., ef samþ. verður, sé færð í það horf, að ekki sé útilokaður neinn möguleiki til að framkvæmdin gæti orðið sem heilbrigðust fyrir þann landsfjórðung, sem hér á hlut að máli. Ég vil benda á það út af því sem kom fram í ræðu hv. 1. landsk., að síldarbræðslustöð á Seyðisfirði getur ekki orðið nema til þess að bæta úr ástandinu þar. Á Eskifirði yrði að fara hina leiðina, að styrkja menn til skipakaupa, og ég hygg, að sú leið sé líka sú hentugasta fyrir Seyðisfjörð, með því að það er viðurkennt, að Seyðisfjörður liggur miklu betur við til þorskveiða en Eskifjörður. Þess vegna mætti miklu frekar til sanns vegar færa, að síldarbræðslustöð gæti bjargað Eskifirði, af því að það er einn af síldarsælustu fjörðum á Austfjörðum og þar er minni fólksfjöldi og minna um þorskveiðasókn en á Seyðisfirði. Ég hefi gert tilraun til þess að lagfæra þetta mál, en hvernig þeirri tilraun verður tekið, verður að fara eins og verkast vill; en ég vil minna hv. dm. á, hvort þeir hafi nægan kunnugleika til þess að ákveða, að síldarbræðslustöð skuli reisa á Seyðisfirði.