24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2052 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

166. mál, bráðabirgðaverðtollur

Guðrún Lárusdóttir:

Ég ætla nú ekki að fara að halda því fram, að það, sem talið er í frv. í 1. línu a-liðs, sé beint þarfar vörur, svo sem andlitssmyrsl, and­litsduft, ilmsmyrsl og aðrar kosmetisk­ar vörur. Það er langt frá því. En ég vil benda á það, að þessar vörur eru að nokkru leyti varningur til iðnaðar. Hér í Rvík og víðar í kaupstöðum landsins munu vera fleiri og færri hárgreiðslu­stofur og andlitsfegrunarstofur, sem nota þessi efni við atvinnurekstur sinn. Ef tollur á þessum vörum yrði hækkaður til mikilla muna, eins og hér er farið fram á, yrði afleiðingin sú, að fólk, sem hefir at­vinnu af þessum störfum, yrði að draga saman seglin, eða þá hætta þessari at­vinnu alveg. Atvinna þessa fólks er auð­vitað annað mál en þörfin á atvinnu­grein þessari yfirleitt fyrir þjóðarbúskap­inn. En ég hygg, að svo sé nú komið mál­um hér á landi, að þetta sé orðinn nokk­urnveginn fastur liður í atvinnurekstri tilheyrandi daglegu lífi. Hér í bænum munu vera um 20 slíkar stofur, sem hver um sig hefir 5–10 manns í þjónustu sinni. Má ef til vill segja, að þetta sé smáatriði. En ég hygg samt, að óráðlegt sé að leggja þá hátolla á vörur, sem munu verða til þess að rýra atvinnu á þeim tímum, þegar atvinna er stopul sem nú.

Sama má segja um þurrkaðar plöntur. Þær eru óþarfar í sjálfu sér. En bæði hér og víðar á landinu er þó fólk, sem talsvert hefir að atvinnu að hnýta blóm­sveiga á líkkistur. Ég vil beina því til hv. n., hvort hún sjái ekki ástæðu til athuga þessa hlið málsins.

Viðvíkjandi eggjunum þarf ég engu við það að bæta, sem 2 hv. þm. hafa þegar tekið fram við þessa umr. Ég tel viðsjár­vert að hækka mikið toll á eggjum, þar sem þau eru svo holl fæða fyrir heil­brigða jafnt og sjúka, þegar það er sýnt og sannað, að langa tíma ársins er alls ekki hægt að fá innlend egg, hvað sem í boði er. Gífurlegur tollur á þeim mundi halda þeim í okurverði, sem mundi útiloka, að fátæklingar gætu notið þeirra.