28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram af meiri hl. fjhn. samkv. tilmælum frá hæstv. forsrh. Eins og sjá má á frv., fer það fram á allmikla hækkun til bráðabirgða á tekju- og eignarskatti, eða nánar til tekið á tekjuskatti frá 40 til 100%, en á eignarskatti nemur hækkunin 150%.

Ég býst við, að ekki fari hjá því, að ýmsum finnist nærri sér höggið með þessu frv. Það er náttúrlega hægt að skilja þær tilfinningar, sem þar koma til greina, en á það er að líta í þessu sambandi, að þessi hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, kemur ekki niður á brýnustu þurftartekjum. Ef miðað er við heimilisfóður fimm manna fjölskyldu, en við það er nú vant að miða í þessu efni, þá kemur þessi bráðabirgðaskattur fyrst til greina af tekjum, sem nema 4500 kr., og á þeim tekjum verður þessi viðbótarskattur mjög lítilfjörlegur. Ef maður heldur sér við þetta lágmark í frv., þá verður tekjuskatturinn á slíkum manni ekki nema tæpar 9 kr. Þessi skattauki munar fyrst nokkru verulegu, þegar er að ræða um hærri tekjur eða miklar eignir; hann leggst því fyrst og fremst á þá, sem eru eða ættu að vera aflögufærir.

Það kom greinilega fram í gær, þegar rætt var um frv. um kreppulánasjóð, að allir eru sammála um það, að á þessu þingi verði að gera róttækar ráðstafanir til þess að rétta þeim hluta þjóðarinnar hjálparhönd, sem lakast er settur. En það ættu menn að skilja, að slíkar ráðstafanir verða ekki gerðar án þess að það kosti mikið fé, og það fé verður að fá einhversstaðar að. Það getur auðvitað alltaf verið álitamál, hvernig eigi að afla þeirra tekna, sem þarf til þess að standa straum af venjulegum útgjöldum ríkissjóðs, hvað þá heldur nú, þegar þarf að ná inn stórfé til þess að mæta útgjöldum vegna kreppuráðstafana. En hvernig sem á það er litið, er þó ekki hægt að deila um það, að féð verður að taka þar, sem það er til. Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar. Eins og ég sagði strax, er það borið fram af n.hluta hér í d. að tilhlutun hæstv. forsrh. Ég geri ráð fyrir því, að hann gefi þær skýringar á frv., er hann telur með þurfa. En sá hluti fjhn., sem flytur frv., áskilur sér rétt til þess að bera fram brtt. við síðari umr., og mun þá nánar gerð grein fyrir afstöðu n.