28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Af þeim tekjuaukafrv., sem hæstv. stj. hefir lagt fyrir þetta þing, er hér að ræða um það eina, sem ég get litið með velvilja. En þó þykir mér mikið á vanta til að þetta frv. sé vel úr garði gert. Ég vil minna á það, að við Alþflþm. höfum flutt hér frv., sem fer fram á það, að tekjuskattur skuli innheimtur með 100% viðauka, þegar komið er yfir visst lágmark skattskyldra tekna, og auk þess um það bil þrefalda eignarskattinn. Í þessu frv. er gengið skemmra. Engin áætlun er látin fylgja því um, hvað miklar tekjur muni fást af þessu. En sé miðað við tekjuskattinn síðan árið 1928, yrði tekjuaukinn sennilega um 600 þús. kr. En eftir frv. okkar Alþflm. var tekjuaukinn áætlaður 1 millj. kr. Og eins og árar nú, tel ég enga vanþörf á því að ná inn þeirri upphæð til kreppuráðstafana. En aðalgalli þessa frv. er í mínum augum sá, að þessi tekjuauki er látinn renna beint í ríkissjóð og engin skilyrði sett um það, hvernig honum skuli varið. Ég tel víst, að þessi skattauki muni aðallega koma niður á mönnum í kaupstöðum og kauptúnum, og því álít ég, að sjálfsagt sé að verja fénu fyrst og fremst til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum. Ég geri ráð fyrir, að við Alþflm. berum fram brtt. við frv. þetta, þess efnis, að fénu verði varið á þessa leið. Annars vil ég lýsa yfir ánægju minni yfir því, að hæstv. stj. skuli nú hafa séð þessa leið til tekjuauka, og vona ég, að það sé fyrirboði þess, að hún sé að komast inn á heilbrigðari veg í tekjuöflunum en áður. En ég vii aðeins skýra nokkru nánar afstöðu mína til þess, hvernig fénu skuli varið. Ég geri ekki ráð fyrir því, að upp í fjárlfrv. verði tekinn sem áætlunarliður auknar tekjur af þessum sköttum. Þetta fé yrði þá alveg óbundið fyrir stj., og ekkert því til fyrirstöðu, að hún gæti notað það t. d. til ríkislögreglu. Og með slíkum forsendum gæti ég auðvitað ekki verið með frv.