28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi ekki getað verið með í flutningi þessa frv. í fjhn., af því að ég tel, að með því sé of langt farið. Það er síður en svo, að þessir skattar, sem hér um ræðir, séu þeir einu skattar, sem teknir eru með beinum persónuútgjöldum. Það er nefnilega líka tekin ekki smáræðis upphæð af landsmönnum til bæjar- og sveitarsjóða. Og ég er hræddur um það, að fari ríkissjóður að ganga svona nærri mönnum, verði lítið eftir handa bæjar- og sveitarsjóðum. Hv. frsm. sagði, að féð yrði að taka þar, sem það væri til. En mér er kunnugt um það, að í mörgum tilfellum er fé alls ekki til, þó að tekjur hafi orðið svo háar, að gjaldandi þurfi að borga tekju- og eignarskatt. Gjaldþegn getur verið svo skuldugur, t. d. geta bankar ekki látið sér nægja í góðu árunum, að ekki séu greiddir nema vextir af lánum. En fari allt aflafé góðáranna í gjöld til ríkissjóðs og bæjarsjóðs, verður ekkert eftir til afborgunar af bankalánum. Og ég get ekki láð bönkunum það, þótt þeir sjái sér ekki fært að lána fé í vondu árunum, ef ekkert er greitt af því þegar betri tímar koma. Með þessháttar skipulagi væri stefnt inn á hættulega braut. Nú er ætlazt til, að öðrum aðalatvinnuvegi landsins verði veittar allt að 12 millj. króna til viðreisnar, og að því er mér hefir skilizt, er meiningin sú, að hinn aðalatvinnuvegurinn borgi brúsann. Ég veit, að hvað síðasta ár snertir, kemur þessi viðbótartekjuskattur ekkert við hina stærri útgerð, af þeirri einföldu ástæðu, að á henni varð enginn gróði. En ég held, að það mundi draga talsvert úr hvöt manna til þess að afla sér tekna, ef tekjuskatturinn yrði færður svo upp sem hér er farið fram á. Sú hefir raunin orðið annarsstaðar, og ég er sannfærður um, að svo yrði það líka hér. Ég mun greiða frv. atkvæði til 2. umr. í þeirri von, að samkomulag muni nást um annan skattstiga en hér er gert ráð fyrir. En náist það ekki, get ég ekki fylgt þessu frv. framar.