28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3191)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal játa það, að hér er gengið lengra en áður hefir verið lagt til um beina skatta til ríkissjóðs. Ástæðan til þess er sú, hvað erfiða tíma við eigum nú að stríða við. Það sérstaka ástand, sem nú er yfir öllu framkvæmdalífi þjóðarinnar. krefst alveg sérstakra ráðstafana af hendi ríkisvaldsins. Það er einstakt ástand, sem veldur því, að slíkt frv. sem þetta verði að koma fram. En eins og nú er komið, verður að horfast í augu við veruleikann og taka peninga til kreppuráðstafana þar, sem þeir eru til. Ég tel víst, að þær kreppuráðstafanir, sem þetta þing kemur til með að gera, muni svara svo sem 1 millj. kr. kostnaði á ári næstu árin. - Hv. þm. Seyðf. kvartaði undan því, að engin tekjuáætlun fylgdi þessu frv. Það er sökum þess, að slík áætlun, ef nákvæm væri, kostaði gífurlega mikið starf.

Hefði tekjuskatturinn allur verið hækkaður um sömu hundraðstölu, hefði verið hægurinn hjá að láta áætlun fylgja. En rétt þótti að láta skattaukninguna fara stighækkandi, og þá er miklu örðugra að gera fastar áætlanir. En varlegt mun að telja, að þessi skattauki muni nema frá 500-600 þús. kr. á ári. - Hv. þm. Seyðf. kvartaði ennfremur undan því, að í frv. væru engin ákvæði um það, hvernig fé þessu skyldi varið. Sú aðferð hefir verið höfð um þau kreppuráðstafanafrv., sem lögð hafa verið fram af öðrum en þm. jafnaðarmanna, að leggja þann kostnað, er af þeim leiðir, á ríkissjóð. Og þá verða auðvitað þeir tekjuaukar, sem ætlazt er til, að mæti þessum útgjöldum, að renna beint í ríkissjóð. Hina aðferðina má auðvitað hafa líka, að taka fram í tekjuöflunarfrv., að fé það, er með þeim næst, skuli renna til ákveðinna framkvæmda. En þá þyrfti að breyta bæði tekjuöflunarfrv. og líka kreppuráðstafanafrv. En falli útgjaldaaukningin beint á ríkissjóð, verður tekjuaukinn auðvitað að renna þangað líka skilyrðislaust. En ég held, að það sé ekki holl regla að láta mikið fara framhjá ríkissjóði. Hv. þm. taldi, að þetta fé yrði óþarflega laust í höndum stj., og óttaðist, að hún mundi verja því mestmegnis í herskap! En verði lagðar á ríkissjóðinn Í millj. kr. útgjöld vegna kreppuráðstafana, þá er engin hætta á því, að ríkisstj. hafi svo sérstaklega frjálsar hendur til að ráðstafa því fé, sem hún kann að hafa undir höndum. En hvað ríkislögreglunni viðvíkur, þá vona ég, að á þessu þingi verði sett föst ákvæði um hana, sem segi m. a. fyrir um fjárveitingar til hennar. En annars er algerlega ástæðulaust að tala um ríkislögreglu í sambandi við þetta frv.

Hv. þm. N.-Ísf. lét í ljós ótta sinn við það, að frv. þetta mundi draga úr hvöt manna til þess að afla sér verulegra tekna, ef það yrði að 1. Sú röksemd er almenn í þessu sambandi, en ég held, að hún sé ekki sterk, ef ekki er farið freklegar í álögur en hér er gert. Ég þekki engan mann, sem vildi heldur hafa 6000 kr. í skattskyldar tekjur á ári, og þurfa ekki að borga nema 97 kr. í skattauka, en að hafa 14000 kr. í tekjur, þó að hann þyrfti þá að greiða 922 kr. í skattauka. - Ýmsar af þeim mótbátum, sem fram hafa komið gegn frv. þessu, eru þannig lagaðar, að þær eiga alls ekki við, nema þessar ráðstafanir væru ætlaðar til frambúðar. - Það er rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að bankarnir geta ekki sætt sig við það, að í góðærum sé tekið meginið af tekjum manna í tekju- og eignarskatt, en bankarnir látnir bera hallann í vondu árunum. En þetta kemur ekki til greina sem röksemd gegn þessu frv., af því að það á ekki að gilda til langframa, heldur aðeins til eins árs.

Á síðastl. ári munu engar verulegar tekjur hafa orðið af atvinnurekstri til lands og sjávar. Skattaukinn kemur því ekki til að snerta útgerð eða landbúnað að nokkru ráði. Þessi skattauki mundi því fyrst og fremst lenda á þeim, sem öruggastar hafa tekjurnar og eru ósnortnastir af kreppunni. Það er þetta, sem gefur mér ástæðu til þess að biðja fjhn. að leggja slíkt frv. fyrir. En mér er það ljóst hvað snertir framhald skattauka í þessu skyni, að taka verður tillit til tapsára og góðæris. Yfirleitt er það svo, að viðvíkjandi tekju- og eignarskatti, sem gilda á til lengri tíma, verður að taka tillit til tapsins á vondu árunum og gróðans í góðu árferði. En slíkt verður ekki framkvæmt nema í sambandi við gagngerða breyt. á tekju- og eignarskattsl. Ég er því fylgjandi, að sú breyt. komist á á næstu þingum, en um leið og með þessu yrði tryggt, að skatturinn kæmi sem réttlátast niður, yrði að hækka hann að mun frá því, sem nú er. - Ýmsum hefir blöskrað þær till., sem bornar eru fram með þessu frv., þar sem farið er fram á 40-100% hækkun á tekjuskatti og 15% hækkun á eignarskatti. Ég held, að mönnum mundi ekki vaxa þessi álagning eins í augum, ef athugað er, hverju viðbótin nemur á tilteknar tekjur. Hv. frsm. n. minntist á þetta, og skal ég koma nokkru nánar inn á það. Skattaukinn yrði sem hér segir:

Af 2000 kr. skattskyldum tekjum 8 kr.

- 4000 - - - 35 -

- 6000 - - - 97 -

- 8000 - - - 204 -

- 10000 - - - 370 -

- 14000 - - - 922 -

Dæmið verður enn skýrara, ef það er sett svo upp, að lögð séu til grundvallar raunveruleg laun. Þá eru taldir með skattar allir og útsvar, heimiliskostnaður og annað slíkt, sem annars kemur til frádráttar. Reiknað er með 5 manna fjölskyldu, sem mun vera meðaltal. Sé miðað við útsvar, tekjuskatt og annan frádrátt, sem gilt hefir í Reykjavík síðustu 3 árin, þá verður skattaukinn:

á 15000 kr. laun 450 kr.

- 12000 - - 232 -

- 10000 - - 127 -

- 8000 - - 58 -

- 5000 - - 12 -

- 3000 - - enginn.

Ég trúi ekki öðru en að margir láti huggast, er þeir heyra þessa skýrslu. Þetta er ekki svo óbærileg álagning, og þó segja megi, að þarna éti bæjarsjóðir og ríkissjóður úr sömu jötunni, er áreiðanlegt, að ríkissjóður getur ekki látið bæjar- eða sveitarfélögunum hana eina eftir.