28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (3193)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Ég þykist vita, að það sé engan veginn sársaukalaust fyrir hæstv. fjmrh. að bera fram frv. eins og þetta, sem kemur svo mjög í bága við yfirlýstar skoðanir hans sjálfs fyrr á tímum. En hinsvegar kannast allir við og viðurkenna, að gera þarf ráðstafanir, sem hafa í för með sér mikil fjárútlát, landbúnaðinum til hjálpar. Einhversstaðar að þarf að taka þetta fé. Þetta mál hefði þurft að koma fyrr fram á þinginu, svo að tími hefði gefizt til rólegrar yfirvegunar og samvinnu milli flokkanna, til þess að viturleg lausn hefði fengizt á þessu merkilega vandamáli. Koma svo tímanlega fram, að ekki yrði hrapað að neinu, sem vandræðum gæti valdið. En sú raunin mun verða á, ef það verður samþ. eins og það nú liggur fyrir. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta væri nú ekki hár skattur, og enginn á lægstu tekjunum. En hann veit það eins vel og við hinir, að það er ekki eingöngu þessi skattur, sem um er að ræða. Hann veit, að alstaðar á landinu eru menn, sem gjalda nú hærri beina skatta en hingað til. Til þessa þarf að taka tillit, þegar menn virða fyrir sér, hvað viðbótarskattur megi fara hátt. Það fer einkarvel á því að tala um, að þetta sé allt saman bráðabirgðahækkun og bráðabirgðafyrirkomulag. En við þekkjum vel af reynslunni, hvað það þýðir, þegar talað er um bráðabirgðahækkun. Ég býst við, að við hæstv. ráðh. séum sammála um, að ekki er útlit fyrir annað en að þessi tillaga eða frv. þurfi að ganga aftur á næsta þingi og næsta þingi eftir það. Þetta stendur í beinu sambandi við það, sem sagt hefir verið um fjárútlát vegna kreppuráðstafana. Mér finnst meiri ástæða til að óttast, að svona síhækkandi skattar dragi úr einstaklingsframtakinu, heldur en hæstv. ráðh. vill kannast við. Framtakssamir menn draga sig í hlé, þegar þeir eiga ávallt hið opinbera yfir höfði sér með nýjar og nýjar álögur. Það er ekki nema eðlilegt, að þeir láti bugast, þegar sífellt er hert á skattaskrúfunni, sífellt er vegið í sama knérunn. Ég hefi bent á það áður, fyrir nokkrum árum, að þessi skattapólitík mundi verka þannig á unga menn, að þeir legðu kapp á að komast á ríkisjötuna heldur en að hætta fé sínu í atvinnurekstur. En það, sem heldur uppi gjaldþoli þjóðarinnar, er sá hópur manna, sem leggur fé sitt og krafta í arðberandi og atvinnuskapandi fyrirtæki. Nú þarf meira þrek og þor til þess að breyta svona en á venjulegum tímum. Ég segi þetta til hæstv. ráðh., sem talaði um, að nú væru „ónormalir“ tímar.

Löggjafarvaldið á öllu fremur að sneiða hjá því að ganga í lið með kreppunni og hinum lamandi áhrifum hennar. En það gerir það með því að haga þannig skattalöggjöfinni, að þeir menn, sem afla sér og öðrum fjár, séu verst leiknir, fældir og hræddir frá að taka á sig áhættuna, svo hraktir, að þeir neyðizt til þess að nota alla króka, öll brögð til þess að koma fé sínu undan skattaokri ríkisins, eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram áður. Hæstv. ráðh. talaði meira um tekjur en eignir. En margar eignir eru til, sem engan arð færa eigendum, og fer þá svo, að menn eru látnir borga skatta af óarðberandi eignum sínum. Þetta er ekki vel fallið til að hvetja menn til að eiga fasteignir.

Ég veit vel, að það er ekki þakklátt verk fyrir stj. að finna leiðir til fjáröflunar, og drap ég á það í gær við umr. um bráðabirgðaverðtollinn, að mér fyndist stj. ekki hafa látið hendur standa fram úr ermum með að færa niður útgjöldin á þeim sviðum, sem ríkissjóður þyldi það vel. Svaraði hæstv. dómsmrh. mér svo um þetta, að ég væri meir en lítið vanþakklátur, því að stj. hefði sparað á landhelgisgæzlunni o. fl. Ég get þó ekki tekið mikið aftur af því, sem ég sagði. Eða hvað hugsar stj. sér t. d. með því að halda við stofnunum eins og skipaútgerð ríkisins? Hvað gefur sú stofnun af sér? Væri ekki réttara að færa þetta aftur undir Eimskipafélagið, þar sem það áður var? Og það má benda á fleiri stofnanir, sem ýmist má leggja alveg niður eða a. m. k. færa kostnaðinn við þær stórkostlega niður. Slíkar tekjuöflunarleiðir eru skiljanlega miklu geðþekkari landsmönnum en að alltaf sé verið að hækka skattana. Og hvað kostar stjórn peningamálanna hér í okkar peningalausa landi? Nei, það er áreiðanlega ofætlun að stefna áfram svo sem hér er stefnt. Ég þykist að vísu vita, að hæstv. forsrh. gangi út frá því, að hann verði að gefa mikinn afslátt á þessu frv. og að hann stýri skattaskútu stj. yfir flauminn þann veg, að hann komi stafni ofar við bakkann hinumegin en hann ætlar sér landtöku, því straumþunginn er svo mikill, að hæstv. ráðh. mun vart gera sér í hugarlund, að hann lendi bátnum þar, sem hann stefnir honum með þessu frv., og fer hæstv. ráðh. í þessu að hætti góðra skipstjórnarmanna, sem beita bát sínum meira ástreymis, ef við mikinn straum er að stríða. Það er satt, að ástandið er slæmt, en engu að síður er þó ástandið að mörgu leyti eðlilegt, og við megum ekki lengja tímabil þessa slæma ástands með óviturlegum ráðstöfunum eins og þeim, sem hér liggja fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. drap hér á till., sem annar vitur maður hefir sett fram í opinberu blaði. Hann kannaðist við það, að nauðsynlegt væri að afla ríkissjóði meira fjár, en benti jafnframt á það, að heppilegasta fjáröflunin væru skattarnir, ef þeir væru á sem flestum liðum, en sem minnst á hverjum um sig. Finnst mér slík till. aðgengilegri en þær róttæku till., sem hér liggja fyrir á einu sviði.

Ég vona, að hæstv. ráðh. og hv. fjhn. taki það til athugunar, sem ég hefi bent á, þótt nú sé að vísu langt liðið á þingtímann og betra væri, að umr. og deilur um slíkt mál eins og þetta hefðu meiri tíma fyrir sér en ætla má, að eftir sé af þinginu. Verður að athuga, hvort ekki má með svipuðum árangri til hagsbóta fyrir ríkissjóð jafna skattahækkuninni niður á fleiri svið en hér er gert. Og í því trausti, að þetta verði vandlega íhugað, mun ég greiða málinu atkv. til 2. umr. Ég ber það traust til fjhn., sem tók að sér flutning frv., að n. líti með skynsemi og velvild á þær till. til umbóta, sem fram hafa komið frá okkur, sem bent höfum á galla frv.