29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (3202)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jóhann Jósefsson:

Í sambandi við það, sem ég hafði sagt viðvíkjandi því, að þessi viðbótar-tekju- og eignarskattur kynni að verða framlengdur síðar, ef hann yrði samþ. á þessu þingi, komst hv. frsm. þannig að orði, að þessi viðbótarskattur yrði ekki framlengdur, nema eitthvað ófyrirséð og óvænt bæri að höndum. Ég vil að óreyndu ekki efast um það, að hann haldi hér fram því, sem hann álítur sannast og réttast í þessu efni En mér er það hinsvegar ráðgáta, hvernig það getur gengið, ef þessi leið verður farin nú til þess sérstaklega að mæta útgjöldum ríkissjóðs af kreppuráðstöfunum vegna bænda, - mér er það ráðgáta, hvernig ríkissjóður á að halda slíkum útgjöldum áfram á næstu 4-5 árum til kreppulánasjóðs, ef hv. flm. hugsar sér, að þessi tekjuöflunarleið verði yfirgefin eða felld niður þegar á næsta ári. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé því samþykkur, að þessi leið verði farin; það er síður en svo. Sízt af öllu, að það sé gengið eins langt í skattaálagningunni eins og hér er farið fram á í frv. En mér virðist, að hér verði að fara aðra leið, og hún er sú, sem komið hefir fram hjá hæstv. fjmrh., að gera þá breyt. á tekju- og eignarskattslögunum, sem geti verið til frambúðar. Hæstv. ráðh. telur, að það séu engin tök á að undirbúa hana nú á þessu þingi, en ef það á að gerast, þá virðist mér réttara að fara þá leið strax, heldur en að leggja út í þessa ófæru, sem hér er stefnt að með frv. Hæstv. fjmrh. talaði hér langt mál í gær um þessa skattahækkun, og virtist hann ætla, að ég væri að vorkenna einhverjum gjaldþegnum, sem helzt yrðu fyrir barðinu á þessum skattalögum. En það var alls ekki tilgangur minn. Ég geri ráð fyrir, að ef þetta frv. verður að lög- um og þau lög verða framkvæmd síðar, þá verði hægt að vorkenna þeirri stj. og þeim löggjöfum, sem að því standa. Ég þarf ekki að rökstyðja það nú, hvers vegna ætti að vorkenna þeim; það gerði ég í minni fyrri ræðu. Hæstv. fjmrh. virtist halda því fram, að þar sem við sjálfstæðismenn hefðum samþ. 25% tekjuskattsviðaukann á síðasta þingi - og virtist hann beina því til mín -, þá taldi hann, að mér bæri sem sjálfstæðismanni að taka vel þeim viðbótarskatti, sem hér er farið fram á. En af því að það vill nú svo vel til, að hæstv. fjmrh. þarf sjálfur að gerast talsmaður þessarar skattastefnu, sem hann hefir andmælt áður hér á Alþingi, og af því að það er vitanlegt, að hér er um grundvallarstefnumun að ræða á milli flokka í þinginu, þá vil ég minna hann á, að þó að við sjálfstæðismenn höfum orðið að ganga nokkuð inn á þessa leið og jafnvel samþ. álagningu beinna skatta til tekjuöflunar ríkissjóði, þá stafar það einungis af því, að við játum, að það verði að fara fleiri en eina leið til tekjuöflunar; það verði bæði að viðhafa beina og óbeina skatta.

Ég vil ennfremur minna hæstv. ráðh. á það, að sjálfstæðismenn hafa ávallt haldið því fram, að hinir beinu skattar mættu ekki ná lengra en að vissu takmarki, og að um innheimtu tekju- og eignarskatts í ríkissjóð yrði að viðhafa alla varúð, því að þanþol slíkra skatta væri ekki ótakmarkað. Enda mun flestum vera það ljóst, að þegar komið er yfir ákveðið eða hæfilegt takmark, þá hefir þessi skattaálagning mjög hindrandi áhrif á framtak atvinnurekenda til framkvæmda í landinu. Þarna skilja leiðir um stefnur í skattamálum á milli sjálfstæðismanna annarsvegar og vinstri flokka þingsins hinsvegar. Þeir virðast hafa tröllatrú á beinum sköttum. Þetta vil ég minna hæstv. ráðh. á, að stefnumunurinn er jafnaugljós í þessum málum enn þann dag í dag eins og hann hefir verið á undanförnum þingum. Þess vegna getur hann tæplega búizt við öðru en að það hljóti að koma fram ákveðin mótmæli frá sjálfstæðismönnum, þegar um er að ræða svo gífurlega hækkun á tekju- og eignarskattinum. Það er ákaflega eðlilegt, jafnvel þó að þau beinist gegn þeirri stj„ sem nú situr að völdum með stuðningi þeirra.

Ég ætla ekki að lengja umr. meira í þetta sinn. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að aths. mínar út af þessu frv. hafa verið meira almenns eðlis, en engir útreikningar um útkomu skattsins í einstökum atriðum samkv. fyrirmælum frv. Slíkir útreikningar hafa fremur litla þýðingu. Hér er aðeins um að ræða viðbótarskatt, eða hækkun á þeim tekju- og eignarskatti, sem nú hefir verið á lagður, og þau dæmi, sem hæstv. ráðh. hefir tilgreint um það, hvað þessi viðbót nemur miklu í einstökum tilfellum, sýnir aðeins skattaukann. En hæstv. ráðh. hefir ekki tekið heildarútkomuna eins og hún verður, þegar allt er samanlagt, bæði þeir skattar, sem nú gilda, og svo þessi skattaviðbót. Hæstv. ráðh. hefir talað miklu meira um tekjuskattshækkunina heldur en um hækkunina á eignarskattinum, sem mér finnst vera langt úr hófi fram. Við andmælendur frv. höfum sérstaklega hent á það, hversu hér væri langt gengið í álagningarkröfunum, og skil ég ekki annað en að hæstv. ráðh. hljóti að viðurkenna, að þær ástæður verði að taka til athugunar og að þær séu þess verðar, að við nánari meðferð málsins í fjhn. verði að koma fram miklar tilslakanir á ákveðum frv., eða þó helzt yfirgefa þessa leið og auka tekjurnar með jafnari viðbót á alla skatta og tolla, sem nú eru í gildi.