29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (3216)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun ekki verða fjölorður að þessu sinni. - Hv. 3. þm. Reykv. gerir mikið úr því, að ég hafi tekið á mig óþægindi mikil með því að fara þessa leið í stað þess að velja aðra leið, sem mæta myndi minni óvinsældum, minni óróa og minni óhljóðum. Það er eins og hv. þm. haldi, að almenningur, sem ber neyzlutollana, kunni ekki að hljóða. Getur verið, að það beri minna á óhljóðunum úr þeirri átt en hinni. En ef einhverjir verða að hljóða, þá kýs ég heldur að heyra hljóð þeirra, sem gnægðir hafa, en hinna, sem hljóða af hungri og vesöld. Mun stj. ekki láta það skjóta sér skelk í bringu, þótt sagt sé, að þeir, sem mestar hafa tekjur, séu svo óróasamir, að engri stj. sé fært að koma nálægt þeim. Hefi ég ekki heldur þá trú, að bent verði á leiðir til þess að afla fjár án þess að nokkur finni til. Skattur þessi verður auðvitað að koma einhversstaðar niður, og er þá óánægjan bærilegust þeim, sem mestu hafa af að láta. Ég er sammála hv. þm. um það, að skattur eigi ekki að vera nein refsing, að ekki beri að refsa mönnum fyrir að hafa miklar tekjur, enda er hér ekki um slíkt að ræða. Hitt er rangt, að þeir eigi íhlutunarlaust hvern eyri, er þeir hafa haft aðstöðu til að afla sér, og að við því megi ekki snerta. Auðvitað á ekki að refsa mönnum fyrir að hafa tekjur. En ef hv. þm. vill fyrir hvern mun kalla þetta refsingu, þá er betra að refsa fáum mönnum en öllum landslýð með nauðsynjasköttum.

Hv. þm. sagði, að hér ættust við tvær stefnur, og væri önnur í því fólgin að skattleggja tekjur manna, en hin eyðsluna. Þetta virðist í fljótu bragði vera nógu sennilegt, en þarf þó frekari sundurliðunar við. Í frv. stj. er einmitt áætlaður skattur af eyðslu, en nauðsynlegar neyzluvörur eru þar undanskildar. Hér liggur fyrir að leggja skatt á eyðslu, skemmtanir o. fl., og er það í sjálfu sér gott og blessað. En þessi eyðsla getur ekki gefið allt; háu tekjurnar verða líka að gefa nokkuð. Ef hv. þm. vill halda því fram, að ekki eigi að taka peningana þar, sem þeir eru til, þá hlýtur hann að halda hinu fram, að taka beri þá þar, sem þeir eru ekki til. Ef hann heldur því fram, að taka eigi þá með tollum, þá hlýtur hann hinsvegar að álíta, að þeir séu þar til og að þar beri því að taka þá, sem til eru.

Skoðanamunur sá, sem hér er um að ræða, er í því fólginn, að við álítum, að víða sé hjá mörgu fólki lítið til af peningum umfram allra brýnustu þarfir, og hjá sumum jafnvel minna en brýnustu þarfir heimta. En þegar um það er að ræða, að taka skatta af hátekjumönnum, þá hljóta allir að viðurkenna, að þar eru peningarnir til. Hafi það verið forsvaranlegt áður að hafa tekjuskatt eins háan og hann er nú, þá hlýtur það að vera forsvaranlegt í því árferði, sem nú er, að hækka hann. Sé það ekki forsvaranlegt að hækka hann nú, þá hefir hann áður verið of hár.

Tekjuskattar hafa áreiðanlega engan þátt átt í kreppunni, enda hafa þeir í öllum löndum verið hækkaðir eftir að kreppan skall á, og því meira, sem kreppan harðnaði meir. Þetta er afleiðing, en ekki orsök. Væri það líka undarlegt, ef svo væri ekki, að Englendingar, sem haft hafa tekjuskatt nærri hálfa aðra öld, hafa aldrei gert þá uppgötvun, að kreppurnar stöfuðu af tekjuskattinum.

Þá vil ég minnast á sambandið milli jafnaðarins, sem hægt er að koma á í stjórnarskrármálinu, og þess jafnaðar, sem koma má á með hátekjusköttum. Sá, sem ekki berst fyrir jöfnuði að því er kemur til tekjuskatta, ætti heldur ekki að berjast fyrir jöfnuði á kosningarrétti manna. Afleiðing af jafnara kosningarrétti verður óhjákvæmilega jafnari þjóðfélagsleg aðstaða og aukinn jöfnuður um tekjur og aðbúð. Pólitískur jöfnuður er skilyrði fyrir „ökónómiskum“ jöfnuði. Þeir, sem ekki vilja þola hækkaðan tekjuskatt, ættu ekki að hafa aðra stefnu í kosningamálum en þá, að menn hefðu atkvæðamagn eftir því, hvað þeir greiða háan tekjuskatt. Þetta samband er hér á milli, og er það eðlilegast, að hver einstaklingur heimti hvortveggja jöfnuðinn.