29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (3217)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Það her vitni um gott hjartalag hjá hæstv. ráðh., að hann skuli heldur vilja heyra heldri menn hljóða en alþýðumenn. Ég er honum reyndar alveg sammála í því. En þegar það er heimfært til þessa máls, þá ber þess að gæta, að hljóð efnamanna út af ósanngjörnum sköttum færast fljótt út til alþýðunnar. Það eru ekki skattarnir, sem valda bágindum alþýðunnar, heldur atvinnuleysið, og það stafar aftur af því, að athafnamennirnir eru lamaðir, m. a. með of háum sköttum. Afleiðingin af þessu er atvinnuleysið og það, að meira verður hljóðað. Menn segja, að ekki sé sanngjarnt að skattleggja neyzlu fátæklinga, en sá skattur kemur þó í rauninni ekki niður á þeim nema í bráð, heldur verða aðrir að bera hann. Hann dreifist sem sé yfir á þá, sem borga verða kaup. Ef hér hefði aldrei verið skattur á nauðsynjum, þá væri heldur ekki kaupið jafnhátt og nú er. Verkamenn bera það sama úr býtum og vera myndi, ef ekki væri sá skattur, sem nú er kallað, að þeir beri. Ég vil, að engir þurfi að hljóða út af sköttunum, hvorki ríkir né fátækir. Franskir fjármálamenn hafa sett fram þá grófu reglu um skattaálagningar, að úr því að plokka þyrfti gæsina, þá bæri að gera það þannig, að hún skrækti sem minnst. Ef athuguð er okkar skattakerfi, þá sést, að það er miðað við mestan skatt af þeim vörum, sem ekki eru nauðsynlegar. En tekjuskatt verða sparsamir menn og ósparsamir að borga jafnt, hvort sem þeir vilja eða ekki. Sé skatturinn aftur á móti miðaður við eyðslu, þá geta menn ráðið honum sjálfir.

Það er auðvitað rétt, að skattar eru engin refsing í sjálfu sér, en þeir koma niður sem refsing, eins og t. d. peningasektir. Menn borga ekki skatta fremur en peningasektir með ánægjubros á vörunum.

Það er mjög sláandi saga, sem einn Englendingur sagði, og sýnir vel, hvernig sköttum er hagað bæði hér og í Englandi. Hann var á ferð úti í sveit og sá stórt landflæmi, sem var alveg óræktað. Hann hugsaði sem svo, að þessi maður, sem ætti þetta land, yrði að fá styrk til þess að koma því í rækt. Þá gengur hann lengra áfram og sér annað landflæmi, sem er í góðri rækt. Hann hugsar þá, að á eiganda þessa lands þyrfti endilega að leggja drjúgan skatt. Þeir, sem eru athafnamenn og eitthvað framkvæma, finnst þeim vera refsað fyrir það, refsað fyrir að vera athafnamenn, fyrir það að afla einhvers.

Mér finnst hæstv. ráðh. alls ekki komast út af því með kosningarréttinn og skattana. Það væri kannske rétt, ef kosningarrétturinn væri misskiptur og hinsvegar ef skattamálin væru sett í samband við kosningarréttinn. En það mundi jafnast af þeirri einföldu ástæðu, að þeir, sem mestan kosningarrétt hefðu, yrðu að greiða mest gjöld.

En nú eru þessi mál ekki í neinu sambandi hvort við annað, og virðist því ekki í þessu tilfelli þurfa að blanda þeim neitt saman. Hinsvegar sé ég ekki, að jöfnun kosningarréttarins þurfi í þessu tilfelli að færa með sér nokkra breyt. á skattamálunum. Það eru tvö mál, sem eru algerlega óháð hvort öðru. Skattamálunum hefir verið hagað þannig, sem heilbrigðast hefir þótt og heppilegast, og alveg óviðkomandi því, hvernig kosningarrétturinn hefir færzt til.