29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (3218)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þau óhljóð, sem þetta frv. mundi vekja, ef að lögum yrði, mundu bráðlega færast út til alþýðumanna. Ég óska helzt eftir, að engin óhljóð verði, og þau hafa ekki verið í deildinni, þó að skiptar séu skoðanir.

En í sambandi við þetta frv. til eins árs er ekki hægt að tala um óhljóð, sem færist út til þeirra, sem atvinnu þurfa með, af þeirri einföldu ástæðu, að þetta kemur ekki við atvinnurekendurna til lands og sjávar. Það, sem græðist á sjávarútveginum og landbúnaðinum á þessu ári, mun ganga beint til styrktar þessum atvinnuvegum. Þess vegna er engin ástæða til að ætla það, að slíkur hátekjuskattur sem þessi komi hart niður á atvinnuvegunum. En hitt er annað mál, sem ég og hv. frsm. höfum margtekið fram, að við erum ekki fylgjandi því að hafa tekjuskattinn þannig, að hann leggi allt í rústir. En við höfum út frá ákveðnu ástandi að ganga og vitum, að slíkur skattur kemur ekki illa við eins og afkomu var háttað á síðasta ári. Ef svo er, að allir aðrir skattar dreifist út og lendi á endanum hjá atvinnurekendunum, hvernig stendur þá á því, að hv. þm. vill ekki fara beina leið til atvinnurekendanna og taka allt hjá þeim með tekjuskatti? Það er í sjálfu sér skiljanlegt. Það er vegna þess, að þeir, sem hafa háar tekjur, græða meðan þessi jöfnuður er að komast á, og það tekur langan tíma. Skatturinn verkar sterkast fyrst, en svo dregur úr því með tímanum, að skattanna verði verulega vart. Hv. þm. tók dæmi af Englending, sem vildi leggja skatt á ræktaða landið, til þess að rækta það óræktaða. Þetta hygg ég, að sé góð aðferð, þegar ræktaða landið getur greitt skatt. Það má segja, að þessi aðferð sé nokkuð notuð hér á landi. En ég minnist þess að hafa lesið ummæli eftir Lloyd George, hvernig hann lítur á þetta með ræktaða og óræktaða landið. Hann fer fyrst framhjá óræktuðu landflæmi og hugsar sér, að þetta þurfi að rækta. En þegar hann fer framhjá ræktaða landinu, þá hugsar hann sér, að þessir menn, sem það eiga, geti borgað. En þegar hann fer að rannsaka það betur, kemur það í ljós, að það er smáfólkið, sem hefir ræktað ræktaða landið, en það eru stórburgeisarnir, sem eiga það óræktaða og hafa efni á að halda því óræktuðu. Niðurstaða hans í þessu efni varð svo sú, að það ætti að auka skattinn á þessum ríku mönnum, svo þeir hefðu ekki efni á því að halda þessu landi óræktuðu.

Þetta dæmi er lærdómsríkt fyrir Englendinga, þó að það eigi ekki við hjá okkur.

Það er ekkert ósamræmi í því, að ég hafi ekki treyst mér að ganga lengra fyrir einu ári en að heimta 25% álag, því að nú verður að ná inn meiru fé en á síðasta ári vegna kreppuráðstafana, og það hefir valdið því, að nú verður að grípa til nýrra ráðstafana og ónotaðra möguleika.

Það er skylda hverrar stj. að ganga ekki lengra en nauðsyn hvers tíma krefur, og það er rétt fyrir hverja stj. að leita að þeim möguleikum, sem bezt eiga við.