27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (3229)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Hannes Jónsson:

Ég hefi flutt þessar brtt. á þskj. 816. Þær fara fram á, að breytt verði 2 atriðum í frv. Fyrri breyt. er sú, að í staðinn fyrir „150% álagi“ í síðari málsgr. 2. gr. komi: 100% álagi. Það er eignarskatturinn, sem farið er fram á að lækka nokkuð. Ég álít, að þetta sé sanngjörn ósk og að hækkun eignarskattsins sé nokkuð meiri heldur en eðlilegt mætti teljast með tilliti til hækkunar á tekjuskattinum. Hin breyt. er um tekjuskattinn, og er þar farið fram á, að félögum, sem nú greiða yfirleitt hærri skatt heldur en einstaklingar með sömu tekjur, og fara verr út úr þeim skattaálögum, sé ekki reiknaður hærri uppbótarskattur en svo, að skatturinn sjálfur samkv. gildandi lögum um tekju- og eignarskatt og viðbótarskatturinn samkv. þessu frv. verði aldrei hærri á félögum heldur en mundi verða á einstaklingum með tilsvarandi tekjur. Ég tel, að þetta muni vera réttmætt, og hefi því leyft mér að bera fram þessar brtt. við frv. Um leið og ég tel þetta vera sanngjarnt, þá tel ég meiri líkur til þess, að samkomulag fáist um framgang þessa máls, sem ég tel nauðsynlegt fyrir ríkissjóðinn að fái fram að ganga, til þess að einhverju leyti, þó ekki verði að öllu leyti, að jafna þann greiðsluhalla, sem fyrirsjáanlegur er á fjárlögunum. -Ég þarf svo ekki, a. m. k. að svo komnu, að segja fleira um þetta. Ég býst við, að þetta skýri sig sjálft, enda hefir verið um þetta rætt utan þingfunda. Ég geri því ráð fyrir, að hv. þd. geti fallizt á þessa brtt.