27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Mér þykir leitt, að hæstv. forsrh. skuli taka svo í brtt. okkar sem raun er á orðin. Ég verð að segja, að mér finnst í alla staði sanngjarnt og eðlileg, að það fé, sem tekið er með þessum skatti, sem allir vita, að kemur mest úr kaupstöðunum, að því sé einmitt varið til þess að bæta úr atvinnuleysinu þar. Fyrst búið er að gera svo stórfelldar ráðstafanir til hjálpar bændum, eða verða gerðar, þá tel ég alls ekki sæmilegt að gera ekki samhliða því ráðstafanir, sem eitthvað munar um, til hjálpar þeim, sem engu betur eru staddir í kaupstöðunum.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að nú er komin inn í fjárlagafrv. till. frá stj., sem var samþ. í Ed., um 300 þús. kr. til atvinnubóta. Þó að þessi brtt. okkar verði samþ., þá breytir það engu um það. Því að það er alveg á valdi stj. að telja þessa fjárveitingu með þeirri fjárveitingu, sem er í fjárl., og kemur þá til viðbótar það, sem inn kemur samkv. þessu frv., 200 eða 300 þús. kr.

Ég vil ennfremur segja það, að mér finnst svo mikil sanngirni mæla með þessu, að einmitt íbúar þeirra staða, þar sem þetta fé kemur mest frá, njóti þess. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hv. d. fallist ekki á þessa brtt.