27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (3232)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það er svo um skatta þá, sem renna í ríkissjóð, að það er aldrei hugsað um, hvar á landinu þeir eru innheimtir. Þegar um tekju- og eignarskatt er að ræða; þá er það vitanlegt, að hann er aðallega innheimtur í kaupstöðum, en þar fyrir á strjálbýlið sinn drjúga þátt í að mynda þær tekjur og eignir, sem skatturinn er goldinn af, og auðvitað jafnan rétt um að njóta þeirra hlunninda, sem tekjurnar gera ríkisvaldinu mögulegt að dreifa meðal þegnanna.

Það eru býst ég við rangar forsendur hjá hv. þm., að það eigi að verja skattinum þar, sem hann er innheimtur. Auk þess er ósamræmi milli till. og fjárl., þar sem hér er talað um jafna upphæð frá bæjar- og sveitarfélögum til að leggja á móti, og þar sem talað er um í 16. gr. fjárl., að bæjar- og sveitarfélögin leggi fram 2 hluta, en ríkið 1 hluta.