27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (3242)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Af því hér er um að ræða tekjur fyrir ríkissjóð, þá vil ég minna á, að eitt af því, sem dregur úr tekjum ríkissjóðs, eru innflutningshöftin. Og í sambandi við það vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvað hann ætli fyrir sér í því máli? Um þetta var spurt af mér og hv. þm. Vestm. fyrir mánuði eða meira. En eftir svari hefir ekki verið gengið fyrir þá sök, að virðast mátti sem frv. það um verðtoll, sem legið hefir fyrir þinginu, benti til afnáms eða rýmkunar innflutningshaftanna. Nú vildi ég þó helzt óska, að þessu verði svarað. Annars verð ég að biðja hæstv. forseta að láta þáltill. okkar koma á dagskrá. Hefði ég þó helzt kosið, að þessu væri svarað án mikilla orðalenginga og án þess að ég þurfi að tefja þingið með skýrslum þeim og skrám, sem ég hefi um þetta mál og eru æðifyrirferðarmiklar.