27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (3250)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Það er algerlega rangt hjá hæstv. forsrh., að þm. vilji ekki veita stj. það fé, sem þarf til þeirra ráðstafana, sem samkomulag hefir orðið um að gera. Þetta eru hrein og bein ósannindi. Þegar ég ræddi um tekju- og eignarskattinn við fyrri umr., þá benti ég beinlínis á leið til að útvega handa ríkissjóði a. m. k. eins miklar tekjur og farið er fram á nú, að útvegaðar verði með tekju- og eignarskatti. Það var með því að leggja lága hækkun á sem allra flesta af tekjustofnum ríkisins. Þetta væri miklu öruggari leið til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðinn og miklu minna tilfinnanleg. Það er því algerlega óviðeigandi að vera að hreyta því að þm., að þeir vilji ekki veifa stj. það fé, sem þarf til þeirra ráðstafana, sem nauðsyn ber til að gera. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, þótt þm. hafi komið saman um að verja milljón króna til þessara ráðstafana, að þeim standi alveg á sama um, hvernig þess fjár er aflað.

Svar hæstv. ráðh. um innflutningshöftin er mjög ófullnægjandi. Hann segir eins og áður, að það sé reynt að framkvæma þau mildilega. En það er alls ekki nóg. Þar verður einnig að gæta sanngirni og skilnings. Allmikið er kvartað undan rangsleitni í framkvæmd þeirra. Sérstaklega er kvartað undan einum manni, Svafari Guðmundssyni, að hann sýni mikla rangsleitni í úrskurðum um það, hverjum skuli leyfður innflutningur og hverjum ekki. - Við umr. um till. verður kannske tækifæri til að draga fram dæmi um það, hvernig innflutningsnefndin starfar.