31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson:

Ég hafði búizt við, þar sem þetta frv. má skoða sem stjfrv., flutt af fors.- og fjmrh., að nokkur orð hefðu fylgt því frá hans hálfu með grg. fyrir því, hvers mætti vænta ríkissjóði til handa af þessari löggjöf og hvaða rök væru færð fyrir henni að öðru leyti. En hæstv. ráðh. var ekki viðstaddur, þegar umr. um málið byrjuðu, og til þess að málið gengi ekki umræðulaust til atkv., kvaddi ég mér hljóðs, þó að mitt hlutverk sé ekki það að rökstyðja þetta frv. eða mæla með því, því að það get ég ekki með neinu móti.

Ég þykist vita, að ástæðan fyrir þessu frv. sé sú, að fjmrh. telji, að ríkissjóður þarfnist aukinna tekna. Um það mál hefir líka verið rætt meðal stuðningsmanna samsteypustj. úr Sjálfstfl., og við höfum fyrir löngu síðan bent á, hvaða leið við

álitum færa, eftir því sem nú er ástatt, til þess að afla ríkissjóði þess tekjuauka, sem þætti óhjákvæmilega nauðsynlegur. Mér er kunnugt um, að hæstv. ráðh. hafði borizt vitneskja frá fulltrúa Sjálfstfl. í landsstj. um, hver sé hans skoðun um þetta, sem auðvitað fellur saman við skoðun flokksins. Hæstv. ráðh. hefir ekki talið rétt að fara inn á þá leið, a. m. k. ekki á þeim tíma, þegar frv. kom fram. Ég vil því gera nokkra grein fyrir því, vegna hvers ég tel með öllu ókleift að afla ríkissjóði tekna á þann hátt, sem farið er fram á í þessu frv.

Eins og kunnugt er, skiptast byrðar hinnar opinberu starfrækslu hér á landi eins og annarsstaðar á tvo aðila, ríki og sveitarfélög. Ríkið hefir hér á landi tekið til sinna afnota flesta eða allt að því alla þá skattstofna, sem nú tíðkast meðal siðaðra þjóða, en sveitarfélögunum hefir verið sniðinn stakkurinn miklu þrengri, því að það er nálega aðeins einn tekjustofn, sem þeim er ætlaður. Það eru útsvörin, sem í raun og veru eru tekju- og eignarskattur. Það má vera hverjum manni ljóst, að sú kreppa, sem gengur yfir atvinnuvegina nú, lendir ekki eingöngu á ríkinu, heldur líka á sveitarfélögunum. Fátækraframfærslan hvílir á þeim nálega að öllu leyti, og hún vex auðvitað, þegar svona gengur fyrir atvinnulífinu. Forsjá atvinnulausa fólksins í þéttbýlinu við sjóinn hvílir einnig að mestu leyti á sveitarfélögunum, þó að það sé skylt að viðurkenna, að ríkissjóður hefir hér rétt dálitla hjálparhönd upp á síðkastið. Til þess að standast hin vaxandi útgjöld auk hinna venjulegu hafa sveitarfélögin ekki til annars tekjustofns að grípa heldur en hins sama tekjustofns, sem hér er farið fram á að nota til þess að afla ríkissjóði tekjuauka. Til þess nú að færa rök fyrir þessari staðhæfingu minni, að ekki sé fært að fara þessa leið, þá vil ég fyrst gera ofurlitla grein fyrir vissum grundvallaratriðum í eðli þessa tekju- og eignarskatts, sem hér um ræðir.

Það er þá fyrst það, að þó að slíkum skatti sé skipt í tvennt, nefnilega tekjuskatt og eignarskatt, þá er það vitað og enda viðurkennt af öllum fræðimönnum, sem hér um fjalla, að í raun og veru er hér gjaldstofninn aðeins einn, sem sé tekjur manna. Hitt gæti ekki gengið, a. m. k. ekki til lengdar, að taka skatt af eign án þess að tekjur séu fyrir hendi til að greiða skattinn með. Það má vel finna þessu fræðileg rök, en ég ætla heldur að vísa bara á einstakar staðreyndir úr nútímalífi hér í kringum okkur.

Þegar svo ber undir, sem því miður er allt of algengt hér í Rvík, að það koma fyrir gjaldendur - þeir skipta hér árlega mörgum hundruðum og jafnvel þúsundum -, þar sem tekjurnar eru ekki fyrir hendi til þess að greiða þessi beinu gjöld, er gert fjárnám, teknar með valdi eignir til greiðslu á gjöldunum og hinir lögteknu munir settir á uppboð. Niðurstaðan verður nálega ávallt sú, að fyrir þær eignir, sem þannig eru teknar upp í opinber gjöld, fæst sama sem ekki neitt. Ég skal ekki þreyta menn með því að taka mörg dæmi um þetta, en aðeins geta þess, að nýlega voru tekin af einum manni hér í Rvík hlutabréf í Útvegsbankanum að nafnverði 2000 kr. og sett á uppboð, og seldust fyrir 20 kr. Þetta er rétt dæmi upp á það, hvernig fer, þegar taka á eignir manna upp í opinber gjöld, þar sem tekjur eru ekki fyrir hendi. Ég slæ því þess vegna föstu, að það er eðli eignarskattsins eins og tekjuskattsins, að það verða að vera fyrir hendi tekjur til þess að greiða hann af, tekjur af þeirri eign, sem skattlögð er, ef um hreinan eignarskatt er að ræða.

Þessi skattur er nú á tímum alstaðar hafður stighækkandi, en það hafa verið mismunandi skoðanir um það á ýmsum tímum, hve mikil stighækkunin mætti vera. Ég skal ekki dæma um það, en vil aðeins benda á eina staðreynd í þessu efni, sem er viðurkennd af öllum. Hún er sú, að skattstiginn má aldrei verða svo hár, að ef tekjurnar vaxa fram yfir eitthvert visst mark, þá vaxi skatturinn á því bili meira en tekjurnar. M. ö. o., að ef skattstiginn af einhverjum orsökum stígur svo hátt, að hann taki 100% eða allt, sem þar er fram yfir af tekjunum, þá er hann kominn upp í það mark, sem a. m. k. verður ekki farið fram yfir. Og það er af þeirri ástæðu, að það eru yfirleitt skynsemi gæddar verur, sem eiga að greiða þennan skatt, og það gerir enginn að afla tekna umfram visst mark, ef sú tekjuaukning þýðir það, að skatturinn vex þá meir en aukningunni nemur. M. ö. o., skattstiginn má aldrei fara fram úr 100%.

Nú er sveitarstjórnarlöggjöfinni þannig háttað hér á landi, að ekki er unnt að gera grein fyrir því, hvernig skattstiginn er fyrir þann hlutann af gjaldstofninum, sem gengur til sveitarþarfa almennt. En þar er ein undantekning, sem er höfuðstaðurinn. Hér er svo komið, að niðurjöfnun útsvara fer fram að talsverðu leyti eftir samsvarandi reglum og álagning tekju- og eignarskatts, og niðurjöfnunarnefndin hefir birt þær reglur, sem hún fer eftir í þessu efni. Það eru þess vegna nokkrir möguleikar að gera athugun um það hér í Rvík, hvernig þessari tekju- og eignarskattsskömmtun er háttað.

Nú hefi ég gert athugun á þessu, og mér hefir orðið það ljóst, að það væri þreytandi fyrir hv. þdm., ef ég færi að þylja yfir þeim tölur, og þess vegna hefi ég tekið það ráð að draga upp myndir af þessum skattstiga á blað, sem mér hafa sýnzt vera sæmilega aðgengileg til yfirlits. Og ég ætla að leggja þau fram hér og lofa þeim að ganga á milli þeirra þdm., sem hirða um að kynna sér þetta mál efnislega.

Ég hefi þá fyrst að athuga skattstigana fyrir hreinar atvinnutekjur hjá einstakling, sem á engar eignir og lendir þess vegna ekki í neinum eignarskatti. Hér birtist þá fyrst skattstiginn fyrir tekjuskatt til ríkissjóðs samkv. gildandi skattalöggjöf frá 1921 og 1923. Myndin sýnir skattstigann fyrir skattskyldar tekjur frá 0 og upp í 36 þús. kr., og það má sjá, að hann er lögulegur útlits, og ekki svo hár neinstaðar, og ekki nálægt því svo hár, að hann nái upp í það loft, sem stiginn má ekki reka sig upp undir, en það er 100%.

Þessu næst er myndin af skattstiganum fyrir sömu tekjur, sem niðurjöfnunarnefnd Rvíkur auglýsir, að hún hafi notað við niðurjöfnun útsvara árið 1933. Það er strax áberandi um þann stiga, að hann er ekki líkt því eins vel smíðaður eins og sá fyrri, því að þrepin eru bæði mishá og mislöng, og það mundi enginn fá sveinsbréf fyrir að smíða slíkan stiga.

Hann sýnir, að þegar er komið upp í 24 þús. kr. tekjur, þá er álagningin orðin 46% af tekjunum, og heldur svo áfram að vera það fyrir það, sem þar er yfir.

Þá hefi ég í 3. lagi gert skattstiga, sem sýnir þessa 2 skatta samanlagða eins og þeir eru nú hér í Rvík. Og sá stigi sýnir það, að þegar komið er upp í 36 þús. kr., þá er álagningin komin upp í 68% af þeim tekjum og því, sem næst er þar fram yfir. Ef stiganum væri svo haldið áfram, þá mundi þetta fara nokkuð hærra, en þó ekki mjög mikið.

Ég hefi að gamni mínu til samanburðar teiknað skattstigann fyrir tilsvarandi 2 skatta samanlagða eins og þeir eru eftir núgildandi lögum í Kaupmannahöfn. Þessi stigi er dreginn með punktalínum á blaðinu, og þar er þetta samanlagt komið upp í 26% á sama stigi og það er hér komið upp í 68% af tekjum.

Nú er í þessu frv. farið fram á, að því er snertir hreinar atvinnutekjur án eigna, að innheimta ríkisskattinn með 40% til 100% álagi. Það er ekki svo frá þessu gengið í frv., að mögulegt sé að draga upp alveg ákveðinn skattstiga, því að hann verður mismunandi eftir því, hvernig á stendur. Þ. e. a. s. eftir því, hvað langt tekjur gjaldandans halda áfram. Munurinn er þó ekki mjög mikill, og ég hefi dregið þessa skatta samanlagða, með þeim viðauka, sem felst í frv. eins og það nú liggur fyrir, á fjórðu myndina, og til samanburðar hefi ég teiknað skattstigann fyrir Kaupmannahafnarbúa, sem hann á við að búa undir núv. kreppuráðstöfunum, þar sem löggjafarvaldið þar hefir ákveðið fyrir eitt ár að innheimta tekju- og eignarskattinn til ríkisins með 40% álagi. Sjálfur skattstiginn af þessum tekjum eftir frv. er við 36 þús. kr. tekjur kominn upp í 90%, og þýðir það, að tekið er 90 af hundraði af þeim tekjum, sem eru á milli 35 og 36 þús. kr. og 90% eða meir af því, sem þar er fram yfir. Tilsvarandi kreppuskattgjald í Khöfn er komið upp í 30%.

Þessi 4 blöð, sem ég nú hefi sýnt, lýsa skatti þess manns, sem á ekki neinar eignir. Næst tek ég þá skattstigann fyrir hreinar eignartekjur, þ. e. a. s. skattstiga þess manns, sem ekki hefir neinar atvinnutekjur, en á eign og hefir tekjur af henni. Til þess að geta gert þetta, verður nú að gera áætlun um, hvaða ávöxtun eignin gefi af sér, því að það gerir dálítinn mun, hvort eignin gefur háan eða lágan arð. Ég hefi reiknað með því, að eignin gefi af sér 5% á ári. Að ég geri ekki ráð fyrir meiru, stafar af því, að talsvert af þeim eignum, sem koma til framtals, gefa ekki neitt af sér, því að þær, sem engan arð gefa, eru skattskyldar eins og þær, sem gefa arð. Ég tel þess vegna ekki ósanngjarnt, til þess að sýna, hvernig eignarskatturinn kemur niður á tekjur af eignum, að gera ráð fyrir, að þær gefi af sér 5%.

Ég legg þá fyrst fram skattstigann eftir núgildandi skattalöggjöf til ríkisins (5. mynd). Það er að segja um þann stiga eins og þann fyrri, að hann er lögulegur útlits og fer ekki hærra en það, að á 35-36 þús. kr. tekjum er hann kominn upp í 36%. Næst kemur svo skattstigi niðurjöfnunarnefndarinnar í Rvík fyrir slíkar tekjur (G. mynd), og hann er nú nokkru ólögulegri útlits, þrepin mishá og misbreið og ekki sérlega lögulega smíðuð. Það, sem telja má merkilegast við þennan skattstiga, er það, að þegar komið er upp í 24 þús. kr. tekjur - og allt þar yfir -, þá er skattstiginn kominn upp í 973/4%, eða næstum 98% af tekjunum. Þetta er nú niðurjöfnunarnefndin ein, eftir þeim reglum, sem hún fer eftir. Þessu næst tek ég skattstigann fyrir þessar tekjur eftir núgildandi lögum og reglum í heild, þ. e. til ríkis og bæjar samanlagt (7. mynd). Þá kemur nú að því, að fyrir slíkar tekjur rekur skattstiginn sig upp undir, eins og nærri má geta, þegar lagt er saman það, sem ríkið heimtar, og það, sem niðurjöfnunarnefndin tekur. Myndin sýnir, að þegar komið er upp í 17 þús. kr. tekjur, þá fer stiginn upp yfir 100%, og af öllu því, sem þar er fram yfir, heimtar hið opinbera nú af Reykvíkingum meira heldur en allan tekjuaukann. - Nú læt ég til samanburðar fylgja á sama blaði tilsvarandi skattstiga fyrir mann, sem býr í Khöfn, og hann kemst í næsta þrepinu upp í 51%. Það er samanlagður tekju- og eignarskattur af eignartekjum til ríkis og bæjarfélags. Loks kemur svo skattstiginn fyrir þessar tekjur eins og hann mundi verða eftir þessu frv., sem fyrir liggur, og núgildandi lögum (8. mynd). Þessi skattstigi rekur sig upp undir, þegar komið er upp í 10 þús. kr. tekjur. En ég hafði ekki pláss á blaðinu til þess að ná mynd af hæð hans lengra en upp í 18 þús. kr. tekjur, og þá er skatturinn kominn upp í 130%. Það getur vel verið, að til séu einhverjir menn, sem finnist það býsna mikið að hafa 10 þús. kr. tekjur af eign, og þá sé ekki merkilegt, þó að einhver ósköp komi fyrir, þegar tekjurnar eru komnar svo hátt. En ég vil minna menn á dæmi hér í Rvík um borgara, sem býr í góðu meðalíbúðarhúsi, sem þótti svona við betri borgara hæfi fyrir 20 árum, þegar það var byggt. Ég veit til þess, að slíkum manni hefir verið gerð hér í Rvík til skatts húsaleiga af sinni eigin íbúð 6 þús. kr., og það eru náttúrlega hreinar eignartekjur, ef maðurinn á húsið skuldlaust, en slíkar eignartekjur gefa mönnum ekki mikið í vasann til þess að borga með upp í opinber gjöld. Ef þessi maður skyldi vera svo lánsamur eða ólánsamur að hafa af einhverju öðru 6 þús. kr. tekjur, þá er hann kominn undir þann skattstiga, sem rekur sig upp undir, þ. e. a. s. fer upp í meira en 100%. Menn geta nú haft mismunandi skoðanir um það, hvað rétt sé að fara hátt með tekju- og eignarskattstigann, en um hitt verður ekki deilt, að eins og ástandið er í Rvík a. m. k., þá eru þessir skattstigar orðnir svo háir fyrir, að bað er alls ekki forsvaranlegt að bæta neinu við þá, og þessir skattar eru hjá okkur margfalt þyngri en fært mundi þykja annarsstaðar.

* hér vantar ljósmyndir af töflum

Ég má til með að gera grein fyrir því með nokkrum orðum, vegna hvers það er ekki fært að fara svo hátt í þessari álagningu, að allt, sem mönnum aflast fram yfir eitthvert visst mark, sé af þeim tekið í skatt, eða jafnvel meira. Það eru ýms atriði, sem eru þess valdandi, að þetta er alls ekki hægt. Það er nú fyrst, að öll þessi löggjöf um tekju¬ og eignarskatt getur því aðeins orðið heilbrigð, að hún yfirleitt sé byggð á því, að menn telji rétt fram tekjur og eignir. Þetta var nú þeim mönnum nokkurnveginn ljóst, sem bjuggu út löggjöfina um tekju- og eignarskatt til ríkisins árið 1921. Þeim var það ljóst, að það mátti ekki fara svo geist af stað í þessu efni, að menn yrðu hræddir og fengjust ekki til að telja rétt fram. Það varð að ala menn upp í því að skoða þetta sem eðlilegan þátt í gjöldum til ríkissjóðs, en ekki eins og eltingaleik, þar sem verið væri að beita þá ósanngirni af hálfu hins opinbera. Þegar þessir skattar fara úr hófi, eins og nú eru horf¬ur á að verði hér, þá er óhjákvæmilegt, að úr þessum skatti verði það, sem Englendingar kalla skatt á ráðvendni, þ. e. a. s, að skattleggja þá eina, sem ekki vilja hafa sig til þess að draga undan. En þegar beitt er svo hörðum tökum, að öllum finnst ósanngjarnt, þá hverfur hjá öllum tilfinningin fyrir því, að menn eigi að virða löggjafarvaldið og telja rétt fram tekjur og eignir. Menn þurfa ekki einu sinni að brjóta lögin til þess að koma tekjum og eignum undan skatti; það eru til þess mörg ráð, og til þeirra verður náttúrlega gripið.

Annað atriði vil ég líka nefna. Hver sá, sem lítur yfir niðurjöfnunarskrá Rvíkur, hlýtur að sannfærast um það, að ef stóru gjaldendurnir væru þurrkaðir út, þá mundu koma svo há gjöld á allan almenning, sem hefir meðaltekjur og lágar tekjur, að við það gætu þeir ekki búið. Það er m. ö. o. svo með þennan tekjustofn, að sveitarfélögin a. m. k., og ríkið raunar líka, geta ekki náð inn háum upphæðum, nema því aðeins, að menn með nokkuð háum tekjum haldi áfram að vera til. Ef þannig er að farið, að þegar tekjurnar eru komnar upp í nokkuð hátt mark, og þó ekkert sérlega hátt, þá sé allt tekið, sem umfram er, eða jafnvel meira til, þá hætta þær tekjur að verða til, og þá fer um þennan skattstofn nokkuð líkt eins og fyrir bóndanum, sem langaði svo mikið í kjöt, að hann slátraði mjólkurkúnni sinni og varð eftir stuttan tíma bjargarlausari en áður.

Það er ekki við því að búast, eins og þjóðfélagið er orðið nú, að neinn maður vilji sýna háu gjaldendunum hlífð vegna þeirra sjálfra, en þess ætti að mega vænta, sérstaklega af þeim flokki manna, sem heldur því fram, að tekjur og eignir séu yfir höfuð æskilegasti skattstofninn, að þeir líti á þetta mál með þeirri skynsemi frá sínu sjónarmiði, að þeir skilji, að þetta getur það aðeins orðið, að nokkuð háar tekjur haldi áfram að vera til, til þess að sú stighækkun á tekjuskattinum, sem almennt er viðurkennd og lögleidd, haldi áfram að koma að gagni. Ef farið er svo hátt með álagninguna, að girt er fyrir hátekjur, sem hér eru kallaðar, þá er þar með girt fyrir það, að ríkið og bæjarfélögin geti byggt sínar tekjur á þessum skattstofni, því að það mun reynast ókleift að velta allri núv. byrði af þessum skatti, hvað þá heldur aukinni byrði, yfir á meðaltekjur og lágtekjur. Frá skattateknisku sjónarmiði get ég því ekki séð neina skynsemi í þessu frv. eins og það er flutt og liggur fyrir. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh., sem hefir flutt frv., hafi ekki verið þetta fyllilega ljóst, og hann hefir fyrir því þær afsakanir, að stóri bróðirinn á þessu sviði, sem er niðurjöfnunarnefndin í Rvík, fer ekki eftir neinum lagaákvæðum eða reglum, sem hægt er að finna í stjórnartíðindum eða annarsstaðar. Það mun hafa verið í fyrsta skipti í fyrra, sem skattstigi niðurjöfnunarn. Rvíkur var birtur, og þá af einum nefndarmanni í óþökk meiri hluta nefndarinnar. En í ár hefir nefndin sjálf birt skattstiga sinn, þó ekki fyrr en eftir að þetta frv. kom fram. Í því hefir hæstv. ráðh. sína afsökun fyrir að hafa stungið upp á þessu.

Ég ætla ekki við þessa umr. málsins að ræða hina pólitísku hlið þess. En náttúrlega er þetta frv. rækilegt og stórt hnefahögg á stefnu þess flokks, sem vill styðja sjálfsbjargarviðleitni einstaklingsins. Hvötin til efnalegs sjálfstæðis hverfur vitanlega við það, ef menn eiga það yfir höfði sér, að von sé á uppástungum hvenær sem er og úr hvaða átt sem er um skattalöggjöf, sem gerir alla þeirra sjálfsbjargarviðleitni að engu.