31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (3285)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 1. landsk. undraðist það, að ég skyldi ekki hafa leitað samkomulags við Sjálfstfl. um skattafrumvörpin. Skattafrv. hafa verið borin fram eins og stjórnarskrárfrv. og önnur frv. stj. án þess að þau væru fyrirfram borin undir nokkra einstaka flokka. Þegar þetta frv. var fyrir hv. fjhn. Nd., ræddi ég um það við fulltrúa sjálfstæðismanna í n., en þar var ekki gefinn kostur á neinu samkomulagi um frv. Auðvitað höfum við, ég og meðráðh. minni úr Sjálfstfl., athugað möguleikana til samkomulags um þetta mál, en við höfum ekki eygt neina möguleika, sem mér hafi þótt aðgengilegir. Hér er ekki um það eitt að ræða, hvað ríkissjóður þarf að fá, og síðan að leita samkomulags um þær leiðir, sem ekki væru allt af þungbærar, eins og hv. 1. landsk. talar um. Það þýðir ekki að vera að breiða yfir það, að hér er og um að ræða mismunandi skoðanir á því, hvernig eigi að leggja skatta á borgarana, og hér verða hv. sjálfstæðismenn að teygja sig lengra en þeir vilja fara eða þeim er geðfellt; í raun og veru verða allir að gera það. Ráðstafanir þingsins heimta, að meira sé lagt á landslýðinn en nemur venjulegum þörfum ríkisrekstrarins. Ég álít, að þurfa muni hálfa aðra millj. kr. í auknum tekjum, til þess að sæmilega sé séð fyrir þörfum ríkissjóðs. Um þetta er ekki hægt að segja nákvæmlega, en ekki má mikið á vanta, ef ekki á að fara illa. Áætlun er alltaf áætlun, og margt kemur til greina, svo sem árferði, sem hefir áhrif á afkomu ríkissjóðs. Stj. hefir jafnan haft þá aðferð, að hvor ráðherranna hefir talað við sinn flokk, og síðan hafa farið fram samkomulagstilraunir í stjórninni. Í þessu máli hafa þær tilraunir ekki tekizt, hvort sem þær takast hér í hv. d. eða ekki. Hv. 1. landsk. talar um, að kreppan megi ekki þyngja byrðar þær, sem ríkissjóður leggur á borgara þjóðfélagsins. Þó viðurkennir hann, að ríkissjóður verði að fá auknar tekjur til kreppuráðstafana og að hann megi ekki safna skuldum, en þá kemur að því, hverjir eiga að bera þessar auknu byrðar. Okkur kemur saman um það, að hinir aðþrengdu atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, megi sízt við að þola slíkar álögur, a. m. k. beint. Landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn eiga að sleppa bezt allra atvinnuvega, því það er hættulegast af öllu að taka fyrir kverkarnar á þeim mönnum, sem ausa af auðlindum náttúrunnar. Það verður því að sneiða sem mest hjá þessum atvinnuvegum, og það er ekki hægt á annan hátt en þann, að leitast við að leggja meira á óþarfa neyzlu og öruggar tekjur. Sá skattur, sem hér á að leggja á tekjur síðastl. árs, kemur ekki á þessa atvinnuvegi. Landbúnaðurinn hafði engar tekjur á því ári, og um sjávarútveginn er hið sama að segja; þó að vélbátaútgerðin hafi tommað, þá gekk illa fyrir stórútgerðinni, svo yfirleitt er ekki að tala um skatta á útgerðinni síðastl. ár. En svo eru allmargir menn í landinu, sem hafa góðar og öruggar tekjur, svo sem af verðbréfum og innstæðum, húsum og lóðum, tekjur, sem miklu minna hefir gengið á heldur en eignir og tæki annara manna, sem framleiðslu stunda. Að þessum mönnum verður að víkja um framlög; ég hefði ætlað, að slíkum mönnum yrði ekki óljúft að verða við slíkri beiðni, sem ekki er eingöngu hjálp fyrir bæjarfélagið, heldur fyrir ríkið. Það er einmitt vegna aðalatvinnuveganna, sem nú er farið fram á að skattleggja meira en áður hefir verið gert óþarfa og öruggar tekjur. Ég nefndi áðan tilfærslu á eignum í landinu. Hv. 1. landsk. sagði það réttilega, að engin rannsókn hefði farið fram í þeim efnum. Það væri vitanlega æskilegt, að svo hefði getað orðið, en ég hygg, að sú rannsókn yrði erfið eins og hagar til um okkar hagskýrslur, en það þarf enga rannsókn til þess að skilja það, að 60% verðfall á framleiðsluvörum landbúnaðarins veldur mikilli eignarýrnun hjá bændum. Þetta geysimikla verðfall afurðanna þýðir stórkostleg töp fyrir framleiðendur. En það þýðir ekki tap fyrir alla. Það eru til menn, sem græða á því. Þeir, sem halda sínum launum föstum, þeir, sem eiga verðbréf og aðrar eignir, sem halda áfram að gefa af sér öruggan arð, þeir græða á verðfallinu. En þetta misræmi má jafna að nokkru með því að hafa tekjuskatt hærri á slíkum árum, þegar miklar tilfærslur verða á kaupgetu frá framleiðendum til eignamanna, en í annan tíma. Það eru merkilegir tímar, sem við lifum á, og margt hefir skeð á tveim síðastl. árum, sem hefir orðið orsök í stórfelldum og óvenjulegum ráðstöfunum í nágrannalöndum okkar. Það þarf því engan að undra, þó að, einnig hér á landi þurfi að gera ýmsar þær ráðstafanir, sem ekki geta kallazt venjulegar og ekki eru æskilegar frekar en það kreppuástand sjálft, sem er orsök alls. Það eru að vísu ekkert óvenjulegar ráðstafanir, þó að reynt sé að hjálpa stétt manna, sem hefir að ósekju orðið fyrir barðinu á verðfallinu, og ekki er hægt að segja slíkt frekar um hina hlið þess máls, tekjuöflun í þessu skyni. En hvað skyldi hafa verið sagt, ef ég hefði borið fram stórfelldar till. um tollahækkanir á nauðsynjavörum, eða mikil álög á framleiðsluvörur landsmanna?

Það hefði verið högg í andlitið á sjálfsbjargarviðleitni manna, en að segja slíkt um þetta frv. er hin mesta fjarstæða. Nei, þessar ráðstafanir, er ég nú nefndi, vildi ég forðast, og því vildi ég frekar taka visst gjald af tekjum þeirra manna, sem síðustu árin hafa grætt á vandræðum annara, án þess þó að vera valdir að þeim.

Ég skal ekki nú fara út í það, að gera upp á milli ríkisins og Reykjavíkurbæjar, en ég held því fast fram, að ríkið geti ekki sleppt öllum hækkunarrétti á beinum sköttum gagnvart bæjarfélaginu. En sé það rétt, að nú sé tekið á annað hundrað prósent af tekjum borgaranna áður en þær komast yfir 17000 kr., þá virðist Reykjavík einfær um að hrinda fyrir ætternisstapa þeim, sem hér búa.

Hv. 1. landsk. fann að þeim þremur dæmum, sem ég tók, og taldi, að ég hefði viljað villa mönnum sýn með því að miða við brúttótekjur, en ekki skattskyldar tekjur. Ég taldi mér skylt að miða í dæmum mínum við brúttótekjur, því að sá misskilningur er algengur, þegar miðað er við skattskyldar tekjur, að menn draga tekju- og eignarskatt, útsvar og önnur opinber gjöld tvisvar frá. Ég skal taka dæmi. Segjum svo, að maður hafi 27000 kr. í árstekjur. Hann greiðir til bæjar og ríkis 7600 kr. samtals í skatt af þessum tekjum. Hann hefir þá til eigin umráða tæpar 20000 kr. Ef nú hefði líka verið dregið frá skattur og útsvar þessa manns frá fyrra ári, 6000-7000 kr., mundu flestir fá þá hugmynd, að þessi maður hefði ekki annað eftir til þess að lifa af en 14000 kr. Þessi villa kemur oft fyrir, ef skattskyldar tekjur eru lagðar til grundvallar dæmum, sem tekin eru.

En þegar skatturinn í ár er dreginn frá, er auðvitað gert ráð fyrir því, að skatturinn í fyrra sé dreginn frá tekjum undanfarandi árs, og svo koll af kolli.

Dæmi mín eru raunveruleg dæmi úr bæjarlífinu og hvorki snúin né skæld til að vekja rangar hugmyndir eða geigvænlegt hugboð um skattpyndingar, sem engan stað eiga sér í tillögum mínum.