02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (3306)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., ef ekki annað verra, að útreikningar mínir séu miðaðir við það, að tvisvar séu dregin frá tekjunum útsvör og tekjuskattur. Getur hann lesið um þetta í þar að lútandi 1. Við ákvörðun skattskyldra tekna er eins árs tekju- og eignarskattur og útsvar dregið frá tekjunum. Síðan er skatturinn lagður á eftir skattstiganum, eins og l. tilgreina, og hefi ég dregið upp réttar myndir af þessu. Misskilningur hæstv. ráðh. stafar e. t. v. af því, að hann hefir ekki gert sér grein fyrir því, hvernig álagðir skattar eftir stiganum nema vissri hundraðstölu af öllum tekjunum, eða, eins og ég hefi minnzt á, að skattstiginn verður á vissum punkti svo hár, að sá skattauki, sem stafar af tekjuöflun þar umfram, verður meiri en tekjuaukinn, svo að gjaldandi tapar á því að afla sér þessa tekjuauka. Hinu hefi ég ekki haldið fram, að skatturinn taki allar brúttótekjurnar. Ég hefi bent á það, þeim til fróðleiks, sem þetta vilja athuga, að flatarmálið milli stigans og 100%-línunnar á línuritinu sýnir, hverju gjaldandi heldur eftir af tekjum sínum, en flatarmálið milli stigans og 0-línunnar sýnir, hve , mikið hann hefir goldið í skatt. En það stendur jafnfast, að þegar skattstiginn er kominn upp í 100%, þá hættir að borga sig fyrir gjaldanda að afla meiri tekna. Sá flötur, sem verður milli 100%-línunnar og þess hluta stigans, sem upp úr henni stendur, sýnir, hverju skatturinn nemur umfram tekjurnar.

Ég held því fram, að sérhver skattamálastj. verði að reikna með því, að gjaldendur séu svo skynsamir, að þeir láti tekjuaukningu sína hætta, þegar ekki er lengur vinningur, heldur tap að henni, en það verður, þegar skattstiginn er kominn upp í 100%-línuna. Annars skil ég ekki, hvernig hæstv. ráðh. hefir fengið þann misskilning inn í sig, að tveggja ára skattur og útsvör séu dregin frá tekjunum í mínum útreikningi.