02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (3309)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Mér þykir undarlegt að heyra það af vörum hæstv. ráðh., sem búinn er að vera fjmrh. þó nokkuð lengi, að skattaprósentan miðist við brúttótekjur, en ekki skattskyldar tekjur. Hér á landi hefir það alltaf verið svo, að miðað hefir verið við skattskyldar tekjur, en ekki brúttótekjur. Þetta verður og að gera. Ef hæstv. ráðh. heldur, að skattaprósentuna eigi að miða við brúttótekjur, þá verður hann að búa út nýjar reglur fyrir þessa grein skattalöggjafarinnar, og mun ég ekki taka þessi ummæli hans gild, fyrr en búið er að fá slík l. samþ. En ég er þó hræddur um, að hann mundi reka sig einhversstaðar upp undir, ef hann ætlar sér það.

Þá sagði hæstv. ráðh., að öll dæmi sýndu það, að framhaldandi tekjuöflun gæfi alltaf nokkurn afgang. Ég hefi ekki haft fyrir því að taka nein slík dæmi, en ég held, að treysta megi því, að þegar skattstiginn er kominn það hátt, að fyrir hverja 1000 kr. tekjuaukningu vex skatturinn um meira en 1000 kr., þá muni líka útreiknuð dæmi sýna þetta. En það fer svo, ef rétt er reiknað, þegar skattstiginn er kominn upp í 100%. Held ég því, að hæstv. ráðh. þurfi að athuga þetta mál betur, ef það hefir ekki verið meining hans að lögleiða hér þá aukningu á sköttum, sem á vissum punkti valdi stöðvun á tekjuöflun þeirra manna, sem reikna kunna og bera saman tekjur og skatta.