03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er aðeins stutt aths. til þess að bera af mér sakir, og ég vildi óska að fá til þess tækifæri áður en málið er tekið af dagskrá. Hæstv. fjmrh. vildi ennþá í síðustu ræðu sinni halda því fram, að það væri ekki rétt, sem ég hefði farið með í þessu máli og sýnt með línuriti, að það kæmi að því á vissu stigi tekna, að meira yrði tekið til opinberra þarfa en sem nemur tekjuaukanum sjálfum, og hann las upp útreikning á tveimur dæmum, sem hann taldi sanna þetta mál sitt. En þessi dæmi, sem hann nefndi, sönnuðu alls ekki það, sem hann vildi vera láta. Ég vil leyfa mér vegna þeirra, sem treysta betur talnareikningi en línuriti, að fara hér með útreikning, sem sýnir það, að niðurstöður þær, sem ég hefi skýrt frá, eru réttar.

Ég tek dæmið í samræmi við þann af skattstigunum, sem fer upp í 100% á 10 þús. kr. skattskyldum tekjum, og ég ber saman afkomu þessa gjaldanda eftir því, hvort hann hefir þær 10 þús. kr. skattskyldar tekjur eða aflar sér samskonar tekna í viðbót, svo að hann hefir 15 þús. kr., og það, sem ég hefi staðhæft, er það, að skattálagningin eftir þessu frv. og gildandi l. og reglum niðurjöfnunarnefndar er orðin svo, að fyrir þennan gjaldanda er það beint tap að afla sér þessa 5 þús. kr. tekjuviðbótar.

Ég tek fyrst skatt af 10 þús. kr. skattskyldum tekjum af eign með 5% ársvöxtum.

Tekjuskattur til ríkis …. kr. 462.00

Eignarskattur til ríkis .... - 621.00

Samtals kr. 1083.00

100% álagning eftir frv …. kr. 1083.00

Samtals kr. 2166.00

Útsvar af tekj. kr. 860+15% - 989.00

Útsvar af eign kr. 2975+15% - 4387.00

Alls eftir frv. kr. 7542.50

Afg. af skattsk. tekjum .... - 2457.50

Kr. 10000.00

Þá er að athuga, hvernig afkoma gjaldandans yrði, ef hann aflaði sér 5 þús. kr. í viðbót af samskonar tekjum. Hann hefir sömu frádrætti, því þeir eru ákveðnir af útsvari fyrra árs, svo sá frádráttur gerir engan mun.

Tekjuskattur til ríkis ….. kr. 1062.00

Eignarskattur til ríkis .... - 1121.00

Samtals kr. 2183.00

100% álagning eftir frv…. - 2183.00

Samtals kr. 4366.00

Útsvar af tekj.kr.1610+15% - 1851.50

Útsvar af eign 5175+15% - 7760.50

Alls eftir frv. kr. 13978.00

Afg. af skattsk. tekjum .... - 1022.00

Kr. 15000.00

Í fyrra tilfellinu hefir maður afgang af skattskyldum tekjum kr. 2457,50, en í síðara tilfellinu kr. 1022.00. Mismunurinn, sem er beint tap gjaldenda af því að hafa aflað sér þessa tekjuauka, er kr. 1435.50.

Þetta er það, sem átt er við með því, að skattstiginn reki sig upp undir. Með þessu er auðvitað ekki sagt, hvað þessi gjaldandi hefir til að lifa af, því það fer eftir því, hvaða frádrætti hann hefir fengið, en þeir eru þeir sömu, hvort sem gjaldandinn aflar sér 10 þús. kr. eða 15 þús. kr. tekna, svo mismunurinn, sem hann hefir til eigin afnota, er sá sami, og hann er það, sem ég hefi áður sagt, kr. 1435.50. Það er tap hans á því að afla sér þessa tekjuauka. Þegar svo er komið skattaálagningunni, þá er komið upp í þá vitleysu, sem ekki þýðir að bjóða skynsemi gæddum verum, því menn hætta að afla sér tekjuaukans, þegar hann er orðinn þeim beint tap.