11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

1. mál, fjárlög 1934

Guðrún Lárusdóttir:

Ég á hér eina nýja brtt. Ég ætla að byrja á því að biðja velvirðingar á því, að slæðzt hefir inn í hana ein prentvilla, þar sem sagt er, að brtt. eigi við 16. gr., í staðinn fyrir 12. gr., og vil ég vona, að þetta komi ekki að sök. Þessari brtt. var í fyrstunni ekki ætlað að koma fram fyrr en við 3. umr., en af vissum ástæðum, sem ég hirði ekki að greina hér, varð það úr, að hún kom fram nú.

Áður en ég vík að efni till. vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir því, hverskonar félagsskapur það er, sem hér á hlut að máli. Eins og kunnugt er, er félag þetta, Hvítabandið, alheimsfélag. Það er fyrst stofnað í Ameríku 1874, og í Englandi er það stofnað árið 1876; vagga þess er því í hinum enska heimi. Upphaflega var félag þetta kristilegt bindindisfélag aðallega fyrir börn og konur, síðar varð það sjúkraheimili til hjúkrunar bágstöddum konum og munaðarlausum börnum. Félagsskapur þessi barst til Norðurálfunnar árið 1888 og til Svíþjóðar árið 1898. Starfsaðferðir félagsins voru með líkum hætti og goodtemplarareglunnar, að félaginu var skipt í deildir eða stúkur, sem svo störfuðu að nokkru leyti hver fyrir sig.

Til Íslands barst þessi félagsskapur árið 1895 fyrir atbeina enskrar konu, Mrs. Asherman, sem var hér á ferð. Setti hún sig í samband við tvær konur, þær Þorbjörgu Sveinsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur, sem síðan hrundu þessu félagi myndarlega af stað. Mér þykir rétt að skjalfesta það hér, hverjar merkiskonur stóðu að stofnun þessa ágæta félags, sem upphaflega var bindindisfélag, en síðar tók að vinna að líknarmálum. Félagskonur hafa lengst af haft yfir litlu fé að ráða, en þó má sjá margt merkilegt í gömlum gerðabókum félagsins, hvernig þeim með fórnfýsi sinni og dugnaði tókst smátt og smátt að safna saman nokkrum sjóði, sem þær aðallega öfluðu félaginu með hlutaveltum. Konurnar söfnuðust saman með saumavélarnar sínar, prjónavélar, rokkana og kambana og unnu ýmsa þarfa hluti, sem þær svo síðan seldu á tombólum. Og svo var öllum aurunum, sem inn komu, varið til þess að hjálpa bágstöddum, bæði með mjólkurgjöfum og með því að hjálpa þurfandi sængurkonum og fleirum um fatnað og rúmföt. Þannig birtist vaxtarþróttur þessa félagsskapar í mannúð og kærleika þessara kvenna.

Þá kom nú að því, að konurnar fóru að færa út kvíarnar. Þær hugsuðu sér að fara að aura saman í sjóð til þess að stofna og starfrækja hjúkrunarheimili fyrir konur. Þær hugsuðu sér, að á því heimili skyldu eiga griðastað bágstaddar konur bæði innanbæjar og utan, sem þyrftu að leita sér heilsubótar, og áttu þær að vera á þessu heimili bæði áður og eftir að þær væru í spítölunum til lækninga án þess að þurfa að greiða fyrir veruna allt of mikið fé. Að þessu var unnið um nokkurt árabil; síðan breyttist hugmyndin í það horf, að þetta skyldi verða sjúkraheimili eða spítali. Nú er svo komið, að búið er að reisa þessa byggingu hér í bænum, við Kárastíg. Lóðin undir bygginguna kostaði 7 þús. kr. og 51 þús. kr. hefir félagið varið til byggingarinnar sjálfrar. Eins og gefur að skilja, kostaði svo stór bygging sem þessi miklu meira fé, og því er nú svo ástatt, að félagið hefir ekki bolmagn til þess að standa undir þessu fyrirtæki og koma á stað rekstri þess. Þess vegna hefir það nú sent erindi til Alþingis um fjárstyrk í því skyni. Mér er kunnugt um, að hv. fjvn. Ed. hefir átt kost á því að skoða þetta hús og komizt að raun um, að það er hið eigulegasta. Ef til vill má finna það að húsinu, að það sé of mikið inni í bænum, lóð þessi sé of lítil og það of skammt frá götunni, en það er bót í máli, að bak við húsið er lóð, sem á sínum tíma verður hægt að fá keypta til viðbótar og þá verður hægt að stækka húsið, ef ástæður leyfa.

Ég hefi nú gert grein fyrir þessu félagi og fyrirtæki þess, og vona, að hv. þdm. sjái það og skilji, að félaginu er mikil þörf á peningastyrk, til þess að geta látið sjúkrahúsið taka til starfa. Félagið fer fram á að fá 8 þús. kr. styrk úr ríkissjóði til kvennaheimilisins. Í upphafi var ráðgert að biðja um hærri upphæð, eða 15 þús. kr., en vegna hinna erfiðu tíma var þessi upphæð lækkuð í 8 þús. kr., og í því trausti, að hv. d. líti með skilningi og velvild á þetta starf kvennanna, læt ég útrætt um þetta mál.

Þá vil ég, úr því ég kvaddi mér hljóðs, minnast nokkrum orðum á annað atriði, en það er fjárstyrkir þeir, sem kvenfélagasambönd landsins fá úr ríkissjóði. Eins og menn sjá, þá eru það frekar smærri upphæðir, sem þessi sambönd fá. Nú er það þó svo, að Samband sunnlenzkra kvenna hefir notið rífari styrks en hin samböndin. Nú er það langt frá því, að ég vilji á nokkurn hátt draga úr því, að þetta eina samband fái svo háan styrk, því ég veit ekki betur en hann sé notaður til þess að hrinda áfram þörfum málum, en mér virðist, að hin kvenfélagasamböndin séu hér beitt nokkru misrétti og að styrk til þeirra ætti að hækka, ef Alþingi vill sýna þeim fullt réttlæti.

Þá liggur hér fyrir þinginu fjárbeiðni frá frú Ragnhildi Pétursdóttur í Háteigi, sem hún ætlar til þess að starfrækja húsmæðraskóla á Eyrarbakka. Erindi þessu fylgja eindregin meðmæli frá Búnaðarsambandi Suðurlands. Ef þessari beiðni væri sinnt, hygg ég, að það fé fengist betur borgað heldur en þær 2500 kr., sem á að veita Sambandi sunnlenzkra kvenna til þess að halda námskeið fyrir húsmæður og húsmæðraefni. Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér þetta erindi frá Ragnhildar Pétursdóttur:

„Á undanförnum árum hefir mikið verið rætt um það, að nauðsyn bæri til að koma upp húsmæðraskóla á Suðurlandsundirlendinu. Mál þetta hefir verið rætt á fundum Búnaðarsambands Suðurlands, á fundum Sambands sunnlenzkra kvenna og víðar. Allir sjá þörfina á því, að komið sé upp myndarlegum húsmæðraskóla í þessu víðlenda héraði, með sínum miklu umbótamöguleikum, og þar sem nú búa yfir 10 þús. manns, þar af um 560 stúlkur á aldrinum 15—19 ára. Fyrir mér hefir þetta staðið sem eitt hið mesta velferðarmál þessa héraðs. Ég hefi kynnzt áhuga ýmsra mætra kvenna og karla á þessu máli þar eystra, og til að koma þessu máli á rekspöl keypti ég síðast húseignina Garð á Eyrarbakka, með þeirri hugsjón, að þar yrði settur á stofn húsmæðraskóli. Nú hefi ég látið gera allmiklar umbætur á húsinu, svo nú er það þannig úr garði gert, að húsakynni geta verið þar góð fyrir húsmæðraskóla. Ég mun einnig sjá skólanum fyrir sæmilegum húsbúnaði og matreiðsluáhöldum.

Hér er því til umráða húsnæði og áhöld, sem ég býð að lána skólanum endurgjaldslaust, ef ríkisvaldið vildi veita mér stuðning nokkurn til starfrækslu skólans.

Til stuðnings þessari málaleitun minni skal ennfremur færa:

1. Skólastaðurinn liggur í kyrrlátu þorpi (sveitarþorpi).

2. Samgöngur við Eyrarbakka eru góðar.

3. Húsakynni eru góð, og allur útbúnaður í samræmi við það, sem almennt tíðkast.

4. Skólahúsinu fylgir jarðnæði, svo skilyrði eru þar til að hafa nokkurt búfé — alifugla — og garðyrkju í sambandi við skólann.

5. Skólinn getur bæði verið heimavistar- og heimangönguskóli.

Sem sagt, ég leyfi mér að fara þess á leit, að hið háa Alþingi veiti mér styrk nokkurn til starfrækslu húsmæðraskóla á Eyrarbakka. Starfrækslukostnað áætla ég þannig :

1. Tvær kennslukonur, laun kr. 2500,00

2. Tímakennsla ............ — 400,00

3. Eldsneyti og ljós ........ — 1000,00

4. Ýms útgjöld, til garðyrkju

o. fl. ................ —- 500,00

Samtals kr. 4400,00

Það er þessi upphæð, sem ég vona, að hið háa Alþingi sjái sér fært að veita mér, svo stofnun skólans og starfræksla geti komizt til framkvæmda. Þess skal getið, að ætlunin er, að skólinn starfi minnst í 6 mánuði árlega.

Ég þykist þess fullviss, að þörf sé fyrir hinn umrædda húsmæðraskóla og að hann geti með tíð og tíma orðið húsmæðrum á Suðurlandsundirlendinu og víðar til ómetanlegs gagns, og vona því, að hið háa Alþingi sjái sér fært að veita skólanum hinn umrædda styrk.

Virðingarfyllst.

Reykjavík, 23. febr. 1933.

Ragnhildur Pétursdóttir.

En nú liggur þetta mál ekki fyrir sem slíkt, heldur las ég þetta bréf upp til staðfestingar máli mínu. Ég tel, að hag sunnlenzkra kvenna myndi eins vel borgið, ef þær fá þennan skóla starfræktan, og að þær fengju styrkinn. Auk þessa má á það líta, að úti um land eru mörg smákvenfélög, sem ef til vill eru enn verr í sveit sett en það, sem hér um ræðir, og hefðu gjarnan viljað fá fé í sama augnamiði. Þau fá þetta 300—400 kr., en Samband sunnlenzkra kvenna fær 2500 kr. styrk. Ég teldi réttast, að öll fjórðungssambönd kvenna fengju þann sama styrk, eða þá að kvenfélagasamband Íslands, fengi allt féð til umráða og það úthlutaði því svo til hinna einstöku kvenfélaga. Það má búast við, að konur úti um land reyni mjög ákveðið að fá hækkaðan styrkinn til sinna félaga, þar sem eitt fjórðungssambandið fær svona ríflegan styrk. Það er ekki nema sjálfsagt, og auðvitað þykir mér ekki að því, að kvennasamtökin fái sem mestan og ríflegastan ríkissjóðsstyrk, heldur þvert á móti.

Þá vil ég minnast á orð þau, er hv. 2. landsk. lét falla út af till. minni um að lækka styrkinn til Halldórs Kiljans Laxness. Þm. kvaðst vera mótfallinn þeirri till., en talaði þó ekki eins hjartnæmt og í fyrra, þegar hann flutti langa og góða ræðu til varnar þessum manni og ritverkum hans. En áðan virtist mér svo, sem aðalrökin gegn till. minni væru þau, að ekkert hefði verið hróflað við þessum styrk í hv. Nd., og væri því ekki viðeigandi að fara að gera það hér. Þetta get ég ekki álitið mikilsverð rök. Ég veit ekki betur en að Ed. telji sér oft og tíðum skylt að hrófla við afgreiðslu hv. Nd. á ýmsum málum. Annað mál væri það, ef hv. þm. hefði tekizt að sanna, að þessi ritandi maður ætti skilinn ósnertan styrk sinn í fjárl., þegar flestir styrkir og aðrar fjárveitingar lækka meira eða minna.

Hv. 2. landsk. fór lofsamlegum orðum um styrk til fávitahælis, og kann ég honum þakkir fyrir það. Hann hefir sjálfur komið á barnahælið, sem Sesselja Sigmundsdóttir veitir forstöðu, og séð með eigin augum, hvað þar er myndarlega og vel búið bæði að börnum og þessum vesalingum.

Í sambandi við styrk til þeirra ungu námsmanna, sem hv. fjvn. gerir till. um, að niður verði felldur, vil ég taka það fram, að ég get því aðeins greitt þeim till. atkv., að þessum ungu mönnum verði tryggður styrkur af fé því, sem menntamálaráðið fær til úthlutunar á þessu ári.