11.05.1933
Efri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

1. mál, fjárlög 1934

Jakob Möller:

Ég nenni ekki að karpa lengi við hv. frsm. n. um ummæli menntamálaráðsins. En ég fell ekki frá því, að menntamálaráðið hafi játað það, sem ég sagði um þetta efni, að það, sem strandaði á, væri ágreiningur um, hvort veita ætti styrk til þessarar námsgreinar.

Það er ekki nema tvennt til. Annaðhvort telur menntamálaráðið manninn ekki verðugan styrks eða námsgreinina þannig lagaða, að því beri ekki að veita styrk til náms í henni. En nú stendur svo á, að þessi maður, sem hér um ræðir, er eini maðurinn á landinu, sem leggur stund á þessi fræði. Og ég held, að um námsgreinar þær, sem menntamálaráðið hefir stutt, sé fæstar svo ástatt. Að vísu er þessi maður ekki útskrifaður með hæstu einkunn, en þó talinn góður námsmaður. Og ég er sannfærður um, að þeir góðu menn í fjvn. vita, að menn verða alls ekki dæmdir eftir vitnisburðum eingöngu. Ég vil láta þess getið, að ég flyt þessa till. eftir tilmælum frá stúdentaráði háskólans, og tel ég það a. m. k. eins þýðingarmikinn meðmælanda og menntamálaráðið. Stúdentaráðið hefir miklu betri skilyrði til að þekkja mennina, en menntamálaráðið veit venjulega ekkert annað um umsækjendur styrkjanna en það, sem stendur í umsóknum þeirra og meðmælabréfum.

Ætli menntamálaráðið að skjóta því fyrir sig, að þessi maður sé ekki verðugur styrksins, þá verð ég að álíta slíkt órökstuddan sleggjudóm. En ég gæti skilið það betur, að menntamálaráðinu fyndist þetta nám vera fyrir utan verksvið sitt. Þetta nám er venjulega ekki talið til vísindanáms, en það er hagkvæm menntun, sem áreiðanlega er mikil þörf á fyrir okkur. Og ég held, að í þessu máli sé ég réttlætisins megin, þrátt fyrir hin mörgu orð formanns menntamálaráðs.

Ég held, að það sé nokkuð mikið sagt hjá hv. frsm. n., að hér sé um tugi þúsunda að ræða í námsstyrkjum. Ég hefi lagt saman upphæðirnar, sem samþ. voru í hv. Nd., og þær, sem hér eru fluttar till. um, og nema þær samtals 15—16000 kr. — Og séu listamannastyrkirnir teknir með, eru það 6 styrkir, sem n. vill láta fella niður. Og þeir eru ekki eins stórvægilegir og frsm. n. vildi vera láta. Að lokum skal ég geta þess, að í 10. till. hefir skolazt til nafn mannsins: Þar stendur Ágúst Einarsson, en á að vera Ásgeir Einarsson. Ég vona, að þetta verði lagað í endurprentun.