24.05.1933
Neðri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (3337)

117. mál, barnavernd

Steingrímur Steinþórsson:

Hv. frsm. allshn. er ekki viðstaddur, svo ég verð að taka að mér að svara fyrirspurn hv. 3. þm. Reykv. N. lagði til, að brtt. væri felld, ekki vegna þess, að hún kynni ekki að vera réttmæt að efni til, heldur af því, að við töldum, að þetta þyrfti að athugast betur. Ef þessi myndskoðun færi fram á mörgum stöðum á landinu, þá vorum við hræddir um, að ósamræmi gæti orðið í þeim dómum, sem felldir yrðu um myndirnar, þannig að ein mynd, sem óhæf væri dæmd á einum stað, gæti orðið dæmd hæf á öðrum. Eins og hv. þm. benti á, gæti einnig komið til greina, að allar myndir, sem sýndar eru hér á landi yrðu skoðaðar af einum manni hér í Reykjavík. En n. er óljóst, hverjum óþægindum slíkt gæti valdið fyrir kvikmyndahús í öðrum landshlutum. Vill hún því ekki leggja til, að slíkt verði lögboðið, að málinu óathuguðu. Barnaverndarráð kom á fund allshn. og mætti á móti brtt., en lagði hinsvegar áherzlu á, að frv. eins og það er nú nái fram að ganga. Ég veit það, að þó málið sé tekið út af dagskrá nú, þá næst ekki samkomulag við n. um þetta. Hinsvegar sé ég þó ekkert á móti því, að málinu sé frestað að sinni, úr því hv. 3. þm. Reykv. leggur svo mikla áherzlu á það.