20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. (Jón Jónsson):

Það var tilgangur fjvn. að gera sitt til þess, að fjárl. yrðu afgreidd frá þessu þingi með sem minnstum tekjuhalla, og samkv. því miðaði hún sínar till. til 2. umr. Ef þær hefðu verið samþ. og engum útgjaldaaukum verið bætt við, hefði hinn raunverulegi tekjuhalli minnkað um 50 þúsund kr., en það snerist svo í deildinni, eins og oft vill verða, að hinn raunverulegi tekjuhalli hækkaði um minnst 10 þús. kr. Það er þess vegna sjáanlegt, ef fjárl. fara þannig frá deildinni, að tekjuhallinn verður ekki aftur jafnaður á annan hátt en með nýjum sköttum eða tollum. N. hefir nú enn farið yfir frv. og þau erindi, sem fyrir liggja, og hefir ekki komizt hjá því, því miður, að taka upp nokkrar hækkunartill. Þær eru að vísu smáar allar nema ein, en við gátum þess við 2. umr. þessa máls, að við mundum koma með hana við þessa umr. Skal ég svo fara örfáum orðum um þessar brtt.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 733 undir rómv. tölul. II, um að veita lækni styrk til að nema lyfjafræði, að upphæð 2000 kr., gegn a. m. k. 1000 kr. framlagi annarsstaðar frá, fyrsta greiðsla af 3. Nú er það talið nauðsynlegt að hafa lærðan lyfjafræðing, sem svo jafnframt mundi kenna í háskólanum að einhverju leyti sem sérfræðingur í þessari grein.

Þá er næsta brtt., undir rómv. IV, styrkur til læknisbústaðar og sjúkraskýlis. Er 3000 kr. bætt við og er það lokastyrkur til sjúkrahúsbyggingar á Siglufirði. Það var lagt fram bréf frá stjórnarráðinu dags. fyrir 2 eða 3 árum, þar sem var skýlaust loforð um að leggja fram þennan hluta af kostnaðinum við sjúkrahúsbygginguna, en þetta hefir ekki verið greitt, og þykir okkur ekki fært annað en að fullnægja þessu gefna loforði.

Þá er þriðja till., undir rómv. XII, um að framlagið til bryggjugerða og lendingarbóta verði hækkað um 4000 kr. Það er líkt um þetta að segja og hina till., sem ég minntist á áðan, að þessu hefir verið lofað til bryggjugerðar í Hnífsdal, þegar vissa fengist fyrir því, að þeir gætu lagt fram fé á móti. Í þingbyrjun var lítil von um, að það væri hægt, en nú síðan hefir fengizt vissa fyrir því, að það muni verða hægt að leggja fram þetta fé, og þá þótti ekki annað fært en að efna þetta gefna loforð.

Þá er það brtt. undir rómv. lið XV á sama þskj., sem er fullnæging á því loforði, sem n. gaf við 2. umr. um að hækka styrk til utanfarar, samkv. ákvörðunum menntamálaráðs. Eins og fjárlfrv. kom frá Nd. var þessi styrkur 8 þús. kr., en jafnframt voru veittir nokkrir styrkir til einstakra manna, en þeir voru felldir úr við 2. umr. og engum nýjum bætt við. N. leggur því til, að þessi styrkur verði tvöfaldaður, og þykist hún þar með hafa fullnægt þessu loforði, sem hún gaf við 2. umr.

Þá er loks brtt. undir rómv. lið XIX. Eins og menn vita, þá eru hér nokkrir menn, sem eru mótoristar án þess að hafa lokið vélstjóraprófi. Þeir hafa starfað í nokkuð mörg ár og eiga erfitt uppdráttar, vegna þess hve margir hafa lokið prófi, er ganga þess vegna fyrir samkv. núgildandi lögum. En þar sem þeir hafa starfað svo lengi, þá þykir ekki rétt að útiloka þá frá þessu starfi í framtíðinni, og til þess að það verði ekki, er talið nauðsynlegt, að þeir fái nokkurt nám í þessum fræðum, og er því lagt til, að þeir fái að njóta sérstakrar kennslu í vélstjóraskólanum, og eru til þess ætlaðar 4000 kr.

Þá er lagt til að hækka styrkinn til blindravinafélagsins um 600 kr. Félagið sótti um styrk til þess að halda uppi skóla fyrir blind börn. Er eitthvað lítilsháttar byrjað á þessu, en það er ennþá á svo miklu frumstigi, að n. sá sér ekki fært að veita beinan styrk til þessa, en leggur þó til, að félaginu sé veitt einhver úrlausn, og leggur því til að hækka þennan lið um 600 kr., ef hlutaðeigendur sjá sér fært að inna af hendi þær skyldur, sem taldar eru nauðsynlegar til þess að hafa rétt á þessum styrk.

Þá kemur ein stór till., sem n. flytur við þetta frv. undir rómv. lið XXX., um framlag til atvinnubóta í kauptúnum, að upphæð 300000 kr. Eins og menn vita hefir talsvert batnað með atvinnu á árinu við sjóinn, en þó mun þar nokkuð af fólki, sem tímunum saman hefir mjög litla atvinnu vísa. Þess vegna er nauðsynlegt að ætla því nokkurn styrk í þessu skyni, og n. hefir því lagt til í samráði við forsrh., að það yrði þessi upphæð, og eru sett sömu skilyrði fyrir fjárveitingu þessari og eru í núgildandi fjárl. Fleiri till. viðvíkjandi gjaldalið fjárl. hefir n. ekki borið fram. Þessar till. um aukin útgjöld nema eitthvað um 320 þús. kr.

Þá hefir n., eftir upplýsingum, sem hún hefir fengið, lagt til að hækka tekjuhliðina um 130 þús. kr. Er það þá fyrst fasteignaskatturinn, sem er áætlaður 40 þús. kr. hærri en er í fjárl., og liggja til þess góð og gild rök, því að hann er ekki svo háður árferðinu. Sömuleiðis eru tekjurnar af tóbakseinkasölu ríkisins áætlaðar 50 þús. kr. hærri, og er það þó miðað að nokkru við þá raun, sem hún hefir gefið, en talið er líklegt, að hún gefi af sér talsvert meira.

Loks eru hækkaðar tekjurnar af póstinum um 40 þús. kr. Er það gert með það fyrir augum, að póstflutningurinn beri sig frekar en gert er ráð fyrir, eða m. ö. o., að búast má við, að flutningsgjöldin aukist. N. hefir leitað álits póstmálastjóra og viðkomandi ráðh., og telja þeir, að þetta geti vel staðizt. Auk þessa hefir n. borið fram 2 till. viðvíkjandi heimildum, eða 22. gr. fjárlagafrv.

Það er þá fyrst brtt. undir rómv. lið XL, nýr liður, sem heimilar að verja fé úr kirkjujarðasjóði til kaupa á jörðinni Skálholti í Biskupstungum.

Eins og menn vita er það fornhelgur sögustaður, sem því miður er ekki eins mikill sómi sýndur eins og vera ætti um svo fornhelgan sögustað. Nú er kostur á að kaupa jörðina, en verðið hefir hingað til þótt of hátt, en það eru líkur til, að hún fáist fyrir eitthvað lægra verð síðar, og þá þótti n. rétt í samráði við kirkjumrh., að stjórninni væri gefin heimild til þessara kaupa.

Þá kemur næst brtt. undir rómv. lið XLVI, um að ábyrgjast lán til að setja á stofn sútunarverksmiðju. Því miður hefir ekki ennþá verið hægt að leggja fram nein ábyggileg gögn um það, hvernig slík verksmiðja muni bera sig, eða hvort hægt er að selja það, sem hún kann að vinna. En við gerum ráð fyrir, að rannsókn fari fram á því, og verði eingöngu farið eftir því, hvað sú rannsókn leiðir í ljós, hvort stjórnin notar sér þessa heimild eða ekki. Og í fullu trausti þess, að hún noti sér hana ekki, nema mjög sterkar líkur bendi til þess, að þetta geti orðið heilbrigt og gott fyrirtæki, þá urðum við ásáttir um að leggja til þessa heimild. Við Íslendingar höfum nú eins og sakir standa mikla þörf fyrir að geta unnið sem mest úr okkar afurðum og gert þær sem mest markaðshæfar, þar sem svo mikil vandræði eru um sölu á þeim. N. sá sér ekki fært að leggjast á móti því, að svona heimild væri veitt, til þess að sýna viðleitni þingsins til þess að greiða fyrir svona miklu nytjamáli, ef það reyndist tiltækilegt að játa það bera árangur. Um fleiri till. ætla ég ekki að ræða að svo stöddu.

Ég á sjálfur eina meiri háttar till., en ég veit ekki, hvort er búið að leita afbrigða fyrir hana, svo að hún megi koma til umr. Svo er ég að vísu meðflm. að till. undir rómv. lið VII, ásamt hv. þm. Eyf., um styrk til Súgfirðinga til að hafa lærða hjúkrunarkonu. Þeir eru ákaflega afskekktir og eiga við erfiða læknissókn að búa. Þess vegna leikur þeim mjög mikill hugur á að fá lærða hjúkrunarkonu og vilja kosta hana að einhverju leyti sjálfir, en telja sig annars mjög illa stadda með læknishjálp, ef þetta getur ekki gengið.

Það er af þessum ástæðum, sem við höfum leyft okkur að flytja þessa till. eftir ósk.