27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (3360)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Með bréfi dags. 23. nóv. f. á. skipaði atvmrh. nefnd, „til þess að athuga hag landbúnaðarins og fjárhagsástæður bænda og geta tillögur um þær ráðstafanir, er tiltækilegastar þættu fjárhag bænda til styrktar og landbúnaðinum til viðreisnar, í þeim örðugleikum, sem heimskreppan veldur“.

Í nefndina voru skipaðir: Pétur Ottesen alþm., Sigurður Kristinsson forstjóri og Tryggvi Þórhallsson alþm.

N. tók þegar til starfa. Kom n. þegar í upphafi saman um það, að nauðsynlegt væri, vegna yfirstandandi ástands um afkomu landbúnaðarins og óhjákvæmilegur grundvöllur undir tillögum til umbóta, að afla sem allra víðtækastra skýrslna um afkomu bændastéttarinnar og fjárhagsástand. Var þá þegar gerð starfsáætlun um, hvernig því verki skyldi haga.

Með aðstoð atvmrn. var þegar hafið það starf að ná sem fyllstu yfirliti yfir skuldir bændastéttarinnar og bændafélaganna.

Var fyrst og fremst snúið sér til allra lánsstofnana: Bankanna, útíbúa þeirra, sparisjóða allra og sjóða þeirra, sem til náðist, og beðið um skýrslu um skuldirnar.

Því næst var snúið sér til allra verzlana, samvinnufélaga og kaupmanna, og í því efni notið mikils stuðnings sýslumannanna, um að safna verzlunarskuldum.

Loks var leitað aðstoðar allra oddvita á landinu og þeir beðnir að safna skýrslum um allar einkaskuldirnar, — þ. e. aðrar skuldir en við lánsstofnanir og banka.

Þessi skýrslusöfnun var framkvæmd með meiri hraða en hægt var að gera sér vonir um í fyrstu. Og það er skoðun okkar nefndarmanna, að hún hafi tekizt betur og orðið meira tæmandi en við frekast gerðum okkur vonir um, er við höfum starfið. Þeir aðilar, sem leitað var til, eins og að framan getur, tóku þeirri málaleitun yfirleitt framúrskarandi vel og lögðu á sig mikla vinnu til þess að þetta gæti orðið sem bezt leyst af hendi.

Við bárum mestan kvíðboga fyrir því, að erfitt mundi verða að safna einkaskuldunum. En aðstoð oddvitanna reyndist langtum betur en við gerðum ráð fyrir. Úr einum hrepp var talið ástæðulaust að safna nokkrum skuldum og stofna til nokkurra aðgerða. Úr tveim öðrum, hinum afskekktustu hreppum, komu ekki skýrslur. Þær komu úr öllum hinum, þar sem landbúnaður er stundaður sem aðalatvinnuvegur. Þær eru vitanlega mismunandi fullkomnar, en mjög víða eru þær mjög fullkomnar.

Það flýtti fyrir söfnun bankaskuldanna, að þegar áður en n. hóf að starfa, hafði verið samin fullkomin spjaldskrá um allar fastar skuldir í Búnaðarbankanum og fékk n. hana til afnota.

Skuldasöfnunin frá bönkunum, sparisjóðum og öðrum sjóðum mun vera nálega alveg tæmandi og að fullu ábyggileg. Söfnun verzlunarskuldanna mun einnig vera mjög tæmandi og ábyggileg og nálega undantekningarlaust naut n. hinnar beztu aðstoðar verzlananna. Þurftu þó margar þeirra að leggja á sig mikla vinnu, til þess að geta orðið við óskum nefndarinnar.

N. er það ljóst, að framtal einkaskuldanna, að mestu um hendur oddvitanna, er ófullkomnast. Er með öllu ógerlegt að áætla, hverju muni skakka. En það verður að gera ráð fyrir því, að þar vanti á e. t. v. 10—20%.

Jafnframt var þegar hafin vinna um að safna sem fyllstu yfirliti yfir eignir bændastéttarinnar.

N. fékk óhindraðan aðgang að síðustu framtalsskýrslunum til tekju- og eignarskatts. Hittist svo vel á, að úr flestum sýslum landsins lágu skýrslurnar hér í Rvík til afnota fyrir ríkisskattanefndina um það leyti, sem bændanefndin hóf sitt starf. Þessar skýrslur voru lagðar til grundvallar. En það var næsta ófullkominn grundvöllur. Er því ekki einungis svo varið víðast hvar á landinu, að jafnaðarlega vantar í fjölda einstaklinga, sem alls ekki hafa talið fram og alls engin gögn liggja því fyrir um í þessum skýrslum. En auk þess vantar víða heila hreppa með öllu, og úr einni af stærstu sýslunum höfðu alls engar skýrslur komið til ríkisskattanefndar. Hefir mikilli vinnu verið varið til þess að bæta úr þessum stórkostlegu göllum um eignaframtalið.

Um fasteignirnar, þ. e. eignarumráðin yfir þeim, fengust hinar öruggustu upplýsingar úr skuldaframtali lánsstofnananna. Með þeim frekari öryggisráðstöfunum, sem síðar getur, má ætla, að eignaskýrslan að því er fasteignirnar snertir, sé orðin allvel örugg og fullkomin.

Framtal lausafjár var mjög fullkomnað, með því að nota hreppstjóraframtalið frá síðasta vori, sem komið var til hagstofunnar. Af þeim skýrslum fékkst og bændatal. En þó að skattaskýrslurnar yrðu með þessu móti mjög fylltar, þá er það víst, að lausafjárframtalið er miklu óábyggilegra í skýrslum nefndarinnar en yfirlitið um fasteignirnar.

Enn varð að leita til margra kunnugra manna í héruðum eftir því, sem til var náð hér í bænum. Veittu þeir margir miklar upplýsingar, sem skylt er að þakka.

En eignaframtalið er vitanlega ófullkomnara en skuldaframtalið. Sparifjáreign og verðbréfa er ekki talin önnur en sú, sem fram kemur á hinum mjög ófullkomnu skattskýrslum. Er ekki að efa, að þar koma ekki nærri öll kurl til grafar. Þýðingarlaust er að gizka á, hve mikið muni vanta. En það hygg ég, að þar komi ekki fram drjúgum meira en það, sem upp á vantar skýrslurnar um skuldirnar (þ. e. aðallega einkaskuldirnar). Þess vegna er það mitt hugboð, að heildarútkoman eigi að vera nokkru betri en skýrslur nefndarinnar sýna.

Þann grundvöll lagði nefndin fyrir skýrslunni um eignirnar:

1. Fasteignirnar voru í skattskýrslunum taldar fram eftir gamla fasteignamatinu. N. lagði nýja fasteignamatið alstaðar til grundvallar.

2. Vegna verðfallsins lét n. fella allt lausafé í verði um 10% frá framtalsskýrslunum og samræma eftir því, sem við varð komið.

Nefndin hafði aðsetur í Búnaðarbankanum að langmestu leyti, og dró það mikið úr þeim mikla kostnaði, sem annars hefði orðið af þessari skýrslusöfnun. Þar voru öll áhöld til og allt, sem til þurfti. Um alllangan tíma voru um 10 manns í þjónustu nefndarinnar, auk nefndarmannanna sjálfra, og auk þeirrar aðstoðar, sem starfsmenn Búnaðarbankans veittu.

Vinnunni við skráning skuldanna var svo hagað, að skuldirnar voru færðar á spjaldskrá með nafni skuldunauta, flokkaðar eftir tegund skulda, og varð að skrifa hvern mann á eins mörg spjöld og hann kom oft fyrir í skuldaskýrslunum. Síðan var skránni raðað í stafrófsröð eftir hreppum og sýslum og skuldir hvers bónda færðar sundurliðaðar eftir tegundum inn á skrá þá, er eignir hans höfðu áður verið færðar á, og mismunur eigna og skulda færður niður. Einnig voru ábyrgðir þær, er viðkomandi bóndi var i, færðar á sömu skrá. Var þessi spjaldskráning mikið verk. Margar skýrslurnar voru eigi eins fullkomnar og skyldi. Heimilisfang voru oft mjög ófullkomin, oft vantaði heimilishrepp og sýslu skuldunauts, og olli það miklum töfum að komast að réttri niðurstöðu í því efni.

Fasteignalán í bönkum standa langoftast á nafni upprunalega lántakandans, enda þótt eigendaskipti hafi orðið að eigninni og það margsinnis. Var það og miklum vandkvæðum bundið að finna rétta eigendur slíkra veðskulda, sérstaklega þar sem skattaframtöl vantaði.

Einnig höfðu margir, er skýrslur gáfu, tekið með í skuldaskrána ýmsa þá, er eigi geta talizt bændur, þurrabúðarmenn, vinnufólk í sveitum og lausafólk allskonar. Oft varð að leita upplýsinga staðkunnugra manna um þessi efni, svo að sem fyllst trygging fengist fyrir því, að efnahagsreikningur hvers bónda yrði sem réttastur, og eins að aðrir yrðu eigi teknir á bændaskýrslurnar en þeir menn, er landbúnað stunda sem aðalatvinnuveg.

Er skráningu þessari var lokið, hafði n. uppgerðan efnahagsreikning hvers bónda á landinu, eins fullkominn og föng voru á.

N. lét nokkrum sinnum gera bráðabirgðaskýrslur um skuldirnar eftir skýrslunum eins og þær komu til nefndarinnar. Var það gert til þess, að n. gæti eins fljótt og unnt væri gert sér í hugarlund, hversu miklar skuldir bænda væru og hvers eðlis, svo að á þeim grundvelli mætti fara að athuga leiðir til lausnar þessum málum.

Samkv. skýrslum þeim, er nefndinni bárust, voru skuldirnar þessar:

Veðskuldir ............... kr. 12281270

Lausaskuldir við banka og

sparisjóði .............. — 7341197

Verzlunarskuldir ......... — 9211737

Prívatskuldir ............ — 7894121

Samtals kr. 36728325

Úr skrá þeirri, er samin hafði verið um efnahag bænda, ákvað n. nú að láta gera heildarskýrslur þær, er hér fylgja með frv. Á skýrslur þessar eru þeir einir teknir, sem landbúnað stunda sem aðalatvinnuveg.

Á skýrslunum er bændunum skipt í 4 flokka eftir efnahag.

l. flokkur. Í þeim flokki eru þeir bændur taldir, er skulda undir 50% á móti eignum.

Í þeim flokki eru:

Eignirnar alls ........... kr. 34043134

Skuldir .................. — 7101737

Skuldlaus eign kr. 26941397

Í fyrsta flokki eru 3464 bændur, eða liðugur helmingur allra bænda á landinu. Skuldir á móti eignum í þeim flokki eru 20,9%.

2. flokkur. Í þeim flokki eru þeir bændur, er skulda frá 50—75% á móti eignum. Eignir í þessum flokki eru kr. 11646064

Skuldir .................. — 7250821

Eignir umfr. sk. kr. 4395243

Tala bænda í þessum flokki er 1216.

3. flokkur. Í þeim flokki eru skuldirnar frá 75—100% á móti eignum.

Eignir eru í þeim flokki .. kr. 9084193

Skuldir alls .............. — 7885835

Eignir umfr. sk. kr. 1198358

Í þriðja flokki er tala bænda 932.

4. flokkur. Í þeim flokki eru þeir bændur taldir, er skulda meira en þeir eiga.

Eignir eru alls .......... kr. 8069507

Skuldir alls ............ — 10650779

Skuldir umfram eignir .. kr. 2581272

Tala bænda í 4. flokki er 1118.

Alls eru þá í landinu 1118 bændur, er samkv. rannsókn þeirri, sem fram hefir farið á efnahag bænda, skulda meira en þeir eiga. Er það 16,5% af öllum bændum á landinu.

Það má ganga frá því sem gefnu, að öllum þorra þeirra bænda, sem hér eru taldir í 3. og 4. flokki, veitist örðugt að halda áfram búrekstri sínum án stuðnings.

Lausaskuldir í þessum flokkum báðum er kr. 12674692. —

Að síðustu eru nokkrir bændur í X-flokki. Um efnahag þeirra bænda hafa eigi fengizt svo fullnægjandi upplýsingar, að rétt gæti álitizt, að setja þá í hina flokkana. Hinsvegar eru þeir teknir með á skýrslurnar, svo að þær skuldir, er í þeim komu fram, komi með í niðurstöðutölunum.

Samkv. skýrslunum, sem hér fara á eftir, eru niðurstöðutölurnar þessar:

Eignir:

Fasteignir ............... kr. 31741083

Lausafé ................. - 31523871

Kr. 63264954

Skuldir :

Veðskuldir ............. kr. 11492815

Lausaskuldir:

Í bönkum og sparisj. .. — 5563014 Verzlunarskuldir ....... — 8363014

Prívatskuldir .......... — 7680653

Kr. 33100437

Eignir umfram skuldir ... kr. 30164517

Ef þessari hreinu eign er skipt á þá 6799, sem skýrslurnar ná til, þá koma kr. 4437 á mann til jafnaðar.

Skuldir á móti eignum á öllu landinu eru því 52,3%.

Eftir skuldaskránum, er nefndinni bárust, voru skuldirnar kr. 36728395. Á heildarskýrslunum eru skuldirnar kr. 33100437, og liggur sá mismunur í því, að á skuldaskýrslunum, er n. bárust, voru skráðir ýmsir, er eigi teljast með bændum. Skuldarupphæðin í heild hefir því lækkað um 10%.

Ég óska þess af hálfu kreppun., að málinu verði vísað til 2. umr. Verður að því unnið af kappi af n. hálfu að greiða fyrir áframhaldandi afgreiðslu þess.