27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (3361)

167. mál, kreppulánasjóð

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Það er margt eftirtektarvert í ræðu hins seinvirka frsm. þessa frv. Hv. þm. Str. var á sínum tíma sá maður, sem hafði einna bezta aðstöðu til að sjá kreppuna fyrir. Hann var forsrh. og hafði því ágæta aðstöðu til að líta á allar hliðar þjóðlífsins, Hann er sá maður, sem síðast viðurkenndi, að nokkur kreppa væri til. Eftir að allir sáu hið voveiflega ástand og kvartanir komu víðsvegar, þá hélt þessi sami maður, að engin kreppa væri til í landinu.

Síðan fann þessi sami hv. þm. upp þá merkilegu kenningu, til þess að afsaka sína blindni, að það ætti að eyða og eyða í góðæri, en spara síðan í harðæri. Nú sjáum við, hvað úr þessari kenningu verður, þegar hann er nú sjálfur frsm. að einhverju hinu mesta eyðslufrv. — ef svo má að orði kveða — fyrir ríkissjóð, sem borið hefir verið fram á þingi, þar sem ætlazt er til að leggja fram 12 millj. vegna kreppunnar. M ö. o. þetta er sá mesti löðrungur, sem hv. þm. gefur sjálfum sér; með því að bera fram þetta frv. er viðurkennt, hve stórkostlega röng og fráleit hans stefna hefir verið í öllum þessum málum.

Það er margt merkilegt, sem kemur fram í þeim skýrslum, sem fylgja, og hefi ég þó ekki haft tíma til að yfirfara nema mjög lítið. Þar er kenning þessa fyrrv. forsrh. um það, að allir hafi sömu hagsmuni í bændastétt, gersamlega hrakin. Hér sjáum við yfirlitsskýrslu yfir eignir og skuldir þeirra, og helmingur bænda skuldar 1/8 af eignunum, en hinn helmingurinn er eignalaus og ýmsir skulda meira en þeir eiga. Það eru þá í bændastéttinni, eins og annarsstaðar í þjóðfélaginu, efnaðir menn og efnalausir eða öreigar. Þetta ætti nú hv. frsm. að viðurkenna í framtíðinni, þó að hann hafi ekki gert það hingað til. Og það virðist að nokkru leyti viðurkennt af því pólitíska viðhorfi, sem tekið er upp á síðkastið, með því að snúa sér til þeirra, sem efnaðri eru í þjóðfélaginu.

Enn kom fram annað í ræðu hv. frsm., að lánveitingar til bænda undanfarin ár séu orsök til skuldanna. Því ætti líka fyrrv. forsrh. að geta viðurkennt, ásamt öðrum, að það er ekki nóg að ausa fé í bændur, ef ekki er jafnframt séð svo um, að það svari kostnaði. Það er ekki nóg að ausa fé til að krækja í atkvæði, það þarf að skipuleggja þessa starfsemi til þess að hún geri mönnum lífvænlegra í sveitunum. En því miður hugsar Framsóknarflokkurinn miklu meir um atkv. í bili en að gera sveitirnar lífvænlegar þar, sem þær eru beztar. Afleiðingin birtist í þessari skýrslu.

Það má nú segja, að sjáandi sjá þeir ekki, þegar sami hv. frsm. er að tala um það, að sjálfseignin sé farsælust fyrir bændastéttina. Að vísu er þetta þvert ofan í yfirlýsingu flokks hans, eða þá ráðstöfun, að sem mest af sjálfseignum geti farið til ríkissjóðs. Þegar svo er komið, að helmingur bænda á ekki neitt, hvernig getur hann þá búizt við, að það sé hagstætt fyrir bændur að hleypa sér í stórlán, til þess að þykjast eiga jarðirnar.

Annars vil ég ekki fara nákvæmlega út í þetta frv. nú. Kreppunefnd mun fara höndum um það, og þar á flokksmaður okkar sæti.

Það er sjálfsagt að hjálpa illa stöddum bændum, og að ríkissjóður beri byrðar þar af. En út af þessu vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. stj. Hvernig hefir hún hugsað sér að leysa þá atvinnukreppu, sem er meðal verkalýðsins í landinu. Eftir manntalinu er það fullt eins fjölmenn stétt og bændastéttin. Og ef tekið væri eignatal verkamanna og sjómanna, þá myndi það ekki sýna 60 millj. kr. eign á móti 30 millj. kr. skuld.

Mér er ekki vitanlegt, að stj. hafi sett n. til þess að athuga og gera skýrslur um atvinnuleysið í kaupstöðunum, sem hefir sýnt sig að vera meira nú en nokkru sinni fyrr síðan atvinnuleysisskýrslur byrjuðu. Stj. veit sjálfsagt, að hér í Rvík er ekki nein vellíðan meðal verkafólksins, jafnvel nú um vertíðina þegar atvinnan ætti að vera mest. En stj. hefir ekki hreyft hönd né fót til þess að bjarga þessari stétt. Ekki ein einasta ríkisstj. í Norðurálfu eða Vesturheimi er svo gersneydd sómatilfinningu að ímynda sér, að hægt sé að ganga fram hjá verkamannastéttinni á krepputímum. Jafnvel stj. Hitlers og Mussolinis gera ráðstafanir fyrir verkalýðinn. En þessi sambræðslustj. gerir ekkert. Hún hefir komið á norsku samningunum til þess að svipta sjómennina atvinnunni. Hún hefir ekki séð um að dragnótaveiðalögin gengu í gegn, þótt hún bæri þau fram. Hún kemur ekki með neinar atvinnubætur í fjárl. og hún hefir komið á ríkislögreglunni. Það lítur út fyrir, eftir athöfnum og athafnaleysi stj., að tilgangurinn sé bókstaflega að drepa niður verkalýðinn í landinu. Og ég vil skora á stj., ef tilgangurinn er annar, að skýra frá því, hvernig hún ætlar að bæta kjör verkalýðsins við sjóinn.