27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

167. mál, kreppulánasjóð

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég verð að segja, að mér kom dálítið einkennilega fyrir, að þegar þetta frv. er lagt fram hér í þinginu, eftir mikinn og rækilegan undirbúning af hálfu bændan., þann undirbúning, sem ég vil nota tækifærið til að þakka, þá eru kveðjurnar ekki aðrar frá fulltrúum stéttar, sem líka á erfiða aðstöðu í þjóðfélaginu, en að þetta sé eyðslufrv. Ég hygg, að ef frv. þetta hefði miðað að því að bæta kjör annarar stéttar, þá hefðu þau orð ekki hljómað, því að það virðist ekki, að þessi hv. þm. hafi svo mjög horn í síðu eyðslu eftir atkvæðagreiðslum að dæma. (HV: Það er ekki hægt að sjá atkvgr. ráðh., því að hann hefir ekki atkvæðisrétt). Hinsvegar mun það ekki leika á tveim tungum, að ef bæta á atvinnuna í landinu, þá verður fyrst að snúa sér að þeim, sem hafa lakast kaup og lélegasta atvinnu. Það mun láta nærri, og ég hefi áður hér í þinginu fært rök að því, að bændur hafi 16 til 17 aur. tímakaup um árið, þótt þeir vinni öllum stundum allan ársins hring. Og ég hygg, að ef hv. 2. þm. Reykv. væri fulltrúi fyrir þá kjósendur og liti á þeirra aðstöðu með sama hug og hann lítur til annara þeirra, sem erfiðar kringumstæður eiga í þjóðfélaginu, þá myndi honum ekki þykja þetta kaup um of. Hv. þm. talaði um að gera þyrfti sveitirnar lífvænlegri, en í sömu andránni virtist hann hallmæla Framsóknarflokknum og foringjum hans fyrir, að þeir hefðu eytt til þess of miklu fé. Því fé, sem hefir verið varið til að gera sveitirnar lífvænlegri, hefir fyrst og fremst verið varið til vega, til samgöngubóta og ræktunar. En jafnframt hefir verið varið nokkru fé til að gera híbýli manna, þau sem lökust hafa verið, svo, að þau væru íbúðarhæf.

Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. beindi til stj., þá vænti ég, að sá ráðh., sem sérstaklega fer með atvinnubótamálin, svari þar nokkuru til. En ég get þó, ekki annað en látið í ljós jafnframt því að ég heyrði þessi orð af vörum hv. þm., nokkra undrun mína yfir því, að þessi hv. þm. eða hans flokkur hafi ekki að neinu leyti boðið stj. einskonar samvinnu um lausn þeirra mála. Ég hygg, að áður en þessi stj. var mynduð, hafi þeim flokki, sem hann heyrir til, verið boðin náin samvinna um þau mál sem önnur mál, þar sem boðið var fram, að fulltrúi frá hans flokki ætti sæti í stj. Og ef þeim hefði litist að vinna að þessum málum, hefðu þeir átt að nota það tækifæri, og myndi hv. 2. þm. Reykv. þá e. t. v. standa í þeim sporum, sem ég stend nú í og hefði getað komið fram með sínar till.

Þegar rætt er um þetta kreppumál bændanna, verður að gæta þess, að hjá bændastéttinni eða um helmingi hennar a. m. k., eru svo mikil vandræði, að þar verður að gera alvarlegar sérstakar ráðstafanir, sem ekki er hægt að gera nema í sérstaklega aðknýjandi kringumstæðum og ekki er fordæmi fyrir áður. Ég veit vel, að það hefir þrengt víða að fyrir verkafólkinu, en menn verða að vænta þess, þar sem ástæður manna og aðstaðan til atvinnubóta er mjög mismunandi á hverjum stað í landinu, að þá taki bæjarfélögin sig fram um að leita þeirra ráða, sem tiltækileg eru á hverjum stað, og að því loknu þegar bæjarstj. og slík stjórnarvöld hafa lagt á ráðin, þá sé leitað aðstoðar þings og stj., og ég veit ekki betur en að stj. hafi viljað taka þær málaleitanir, sem komið hafa fram, til vingjarnlegrar athugunar. M. a. hefir nú nýlega verið samþ. á Alþ. ríkisábyrgð fyrir samvinnufélög í nokkrum kaupstöðum og kauptúnum til skipakaupa til þess einmitt að bæta úr atvinnuleysinu við sjóinn. Og þetta hefir verið samþ. þrátt fyrir það, að fyrri ábyrgðir hafa komið töluvert við ríkissjóðinn. Ríkissjóður hefir orðið að hlaupa undir bagga með samvinnufélögum, sem flokksmenn hv. þm. hafa stofnað og stýrt. Og ríkisstj. hefir gert það alveg möglunarlaust. Jafnframt vil ég minna hv. þm. á, að um leið og bændum er hjálpað, er þeim gert mögulegt að halda verkafólk og greiða því kaup. Þá er og nokkuð gert til að létta af atvinnuleysinu í kaupstöðunum. Það verður við það að kannast, að ríkissjóður hefir ekki haft svo mikið fé sem skyldi til ýmissa opinberra framkvæmda til þess að létta undir atvinnuleysisvandræðin í bæjunum, en minna má þó á, að fé til vega- og brúargerða hefir verið aukið í því fjárlfrv., sem nú liggur fyrir, frá því sem áður var. Stj. hefir og haft forgöngu að því að henni yrði heimiluð lántaka til vega- og brúargerða, sem nemur allt að ½ millj. kr. og þar sérstaklega haft fyrir augum að geta veitt atvinnulausu fólki vinnu. Svo er og fyrir þakkandi, að ekki horfir neitt líkt því jafnþunglega fyrir þeim vinnuveitendum, sem sérstaklega veita verkafólki atvinnu, og fyrir landbúnaðinum. Flestir eða allir, sem nokkurri fleytu hafa átt yfir að ráða, hafa sett hana á flot. Í annan stað hefir m. a. fyrir bráðabirgðalögin, sem gefin voru út af stj. síðastl. vetur, ekki verið flutt út nándar nærri eins mikið af óunnum sjávarafurðum og áður. Á seinustu vertíð var selt svo mikið af linsöltuðum fiski og óverkuðum að öllu leyti, að það átti mikinn þátt í að skapa atvinnuleysi á síðasta sumri hér í Rvík og kaupstöðunum hér sunnanlands. Nú verður að líkindum miklu meira af fiski fullverkað hér heima, og mun þá aukast atvinnan, ekki sízt fyrir þá, sem erfitt eiga með að leita sér atvinnu annarsstaðar. Í fjárl., sem nú gilda, er heimild fyrir ríkisstj. til að verja allmiklu fé til atvinnubóta og það meiru fé en áður hefir verið heimild fyrir. Ég býst við, að ríkisstj. noti þessa heimild eftir því sem hún sér sér fært og hjálpi kaupstöðum og kauptúnum úti um land eftir því sem mögulegt er að afla þess fjár, sem viðkomendur verða að leggja á móti. Ríkisstj. hefir einnig gert sér far um að styðja kauptúnin og íbúa þeirra til þess að auka þar ræktunina, einkanlega í sjávarþorpum, þar sem atvinnan er fábreytt og þar sem það verður að teljast nauðsynlegur liður í afkomumöguleikum manna, sem þar búa, að þeir eigi nokkra stoð í landbúnaðinum til viðbótar sjávarafurðunum, og til þess að þeir geti stuðzt við ræktað land og landsnytjar er atvinnu brestur, einkum á sumrin. Þeir geta þá verið sumir eigin atvinnuveitendur á sínum ræktarblettum. Ég vænti þess, og það þótt ég tali þar ekki fyrir hönd stj. allrar, að stj. muni áður þingi lýkur taka til athugunar að biðja um heimild til þess að mega 1934 verja nokkru fé til að bæta úr atvinnuleysi, a. m. k. þangað til þing kemur saman á því ári og geri þá frekari ráðstafanir. Skal ég svo ekki gera meiri aths. við ræðu þessa hv. þm. Mér fannst hún ekki gefa tilefni til þess.