27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2100 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

167. mál, kreppulánasjóð

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Str. hefir nú með þögn sinni viðurkennt flest það, sem ég tók fram í ræðu minni við hann, og þarf ég því ekki að fara mörgum orðum um það, en vil aðeins óska þess, að hann taki fram það í umr. um norsku samningana, sem ég hefi hallmælt bændastéttinni. Ég veit ekki til, að það hafi ég eða nokkur úr okkar flokki gert. En hann beindi orðum sínum sérstaklega til mín. Hitt er það, að ég er sannfærður um, að þetta er ekki einu sinni til hagsmuna fyrir bændastéttina, og það mun sýna sig, að ekki verður keypt mikið kjöt fyrir íslenzka síldarpeninga eftir að samningarnir hafa gilt í 1—2 ár. — Þá óð atvmrh. töluverðan reyk, þegar hann talaði um mína ræðu í þessu sambandi. Ég hefi ekki farið út í frv., ég hefi ekki lagzt á móti því enn, og ég sagði, að jafnaðarmönnum væri skylt að veita kreppuhjálp til bænda. (Atvmrh: Hv. þm. sagði, að þetta væri eyðslufrv.). Ég tók þetta fram. (Atvmrh: Þakka fyrir, ef svo er). Hitt gat ég um í sambandi við þá stefnu, sem áður hefir verið fylgt og ég veit, að hæstv. atvmrh. tilheyrir, þótt forsrh. væri þá Tryggvi Þórhallsson, og því verður ekki neitað, ef það væri gullvæg regla, að eyða ætti öllu fénu í góðærunum, en spara öll útgjöld í hallærunum, þá væri það býsna undarlegt og varhugavert. Og það er harla einkennileg framkvæmd á þeirri stefnu, sem flaggar með því í ræðu og riti, að greiða eigi skuldir. Þetta frv. nemur þó 12 millj. kr. útgjöldum fyrir ríkissjóðinn. Ég vænti, að svo skýr maður sem hæstv. atvmrh. skilji, að það er ekki neitt einkennilegt, þó að frv., sem flutt er af þeim mönnum, sem mestu hafa ráðið um stjórn undanfarinna ára, sé heilsað með því að minnast á fyrri kenningar, og að menn efi, að kenningar þeirra í kreppunni séu miklu réttari en kenningarnar í góðærunum. Hinsvegar er það svo, að þetta mál fer til kreppun. og okkar afstaða kemur þar fram.

Þá kom greinilega fram af því, sem hæstv. atvmrh. sagði, að stj. hefir ekki hugsað út í, að nokkuð þyrfti að gera fyrir verkalýðinn. Það var talað um möguleika til að við fengjum mann í stj. Það hefði verið einskis virði, meðan hlutföllin í þinginu eru hin sömu, og ég veit, að það hefði átt að kosta, að við gengjum inn á ýmsa þá hluti, sem við aldrei hefðum gert, svo að frá Alþýðuflokksins hálfu var auðvitað ómögulegt að ganga að slíku En þó að við hefðum ekki mann í samsteypustj., þá verður að krefjast þess, jafnvel af fjandsamlegum flokkum, að þeir virði eins stóra stétt og verkalýðinn, þar sem í verkalýðssamtökunum einum eru um 10 þús. manns, en hér er verið að tala um 6000 bændur. En það er greinilegt, að stj. hefir a. m. k. ekki gert neitt ákveðið skipulag um þá hluti. Hún hefir ekki haft neina rannsókn um hönd, og það virðist hreinasta tilviljun, hvað út úr þessu verði gert.

Það þarf ekki að segja við okkur Alþýðuflokksþm., að við höfum ekki gert neitt. Við höfum gert það, sem okkur sem þm. bar skylda til, borið fram brtt. við fjárl. og margskonar kreppufrv. En eftir því sem gengur um okkar málefni í þinginu, býst ég ekki við, að þau nái fram að ganga, því að þeir fóstbræðurnir í stj. virðast láta sér annt um, að svo verði ekki. Vildi ég því vita, hvort frá þeim kæmi nokkuð í staðinn. Það, sem hæstv. atvmráðh. sagði um, að meira yrði verkað af fiski hér sunnanlands, þá má vera, að eitthvað meira verði verkað af togurunum, en af bátunum verður það nú ekki. Karlmennirnir hafa lítinn hluta af þessari fiskverkun eða ekki nema um 7% af karlmönnum, sem hafa við það beina atvinnu, svo að það munar ekki miklu. Eins er um þessi frv. um vegagerðir og brúargerðir. Til eru önnur frv., sem í er heimild fyrir stj. til þess að eyða fé til atvinnubóta, t. d. samkv. gömlum l. um opinberar byggingar. En það kemur ekki málinu við, heldur hvað stj. ætlar að aðhafast, en það hefir ekki komið fram hér. Við höfum komið fram með frv. hér um bæjarútgerð í Rvík, en stj. hefir ekki látið koma í ljós sína afstöðu til þess. Ég sé því ekki annað en að annaðhvort sé vilji stj. að gera ekki neitt, og þá auðvitað í þeim tilgangi að koma verkalýðnum á kné og lækka kaupgjaldið, eins og þeir eru mjög áfjáðir í, eða þá vítavert andvaraleysi, að líta ekkert á hagsmuni verkalýðsins í þessu sambandi. Þótt bændur séu stór stétt og eigi að njóta stuðnings, þá eru þeir ekki fjölmennari en verkalýðsstéttin og helmingur þeirra er betur staddur en verkamenn. Aftur er nokkur hluti þeirra eins illa staddur og verkamenn almennt og enn einn hluti þeirra eins illa staddur og hinir verst stöddu í verkamannastétt.