27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2105 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. Reykv. Hann vildi halda því fram, að það hefðu aldrei fallið nein orð hjá sér eða sínum flokki í umr. um norsku samningana, er bæru vott um kala í garð bænda eða kæruleysi um þeirra hag og sem ástæða væri til að taka illa upp. Ég vil aðeins minna hv. þm. á það, að í blaði því hér í bænum, sem hann ber sérstaklega ábyrgð á, Alþýðubl., var 15. þ. m. farið svohlj. orðum um samningana og þingmenn þá, er greiddu þeim atkvæði : „Þær lyddur ( þ. e. alþingis mennirnir), sem nú hafa svikið land sitt og stolið rétti landsmanna til gæða landsins handa útlendum ásælnismönnum, mun hverju íslenzku skólabarni kennt að hata og fyrirlíta í framtíðinni“. (HV: Þetta er alveg satt og það verður munað). Þetta ber vott um frámunalega ósvífna agitation og kaldranalegt hugarfar í garð bænda, samfara einstöku ábyrgðarleysi gagnvart landbúnaðinum eða markaðsmöguleikum annars af aðalatvinnuvegum landsmanna.

Þá eru það nokkur atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem ég finn ástæðu til að víkja að nokkrum orðum. Hv. þm. minntist á, hvaða áhrif þessar hjálparráðstafanir mundu hafa á atvinnu og fjármálalífið í landinu, þegar 12 millj. kr. yrði varið til þess að greiða úr skuldamálum bænda. Var að heyra á hv. þm., að það myndi hafa áhrif á verðgildi peninga og verðbréfa í landinu. Ég er honum sammála um þetta, að ef þessar ráðstafanir væru þess eðlis, að þær verkuðu sem ný seðlaútgáfa, þannig að þessum 12 millj. kr. væri kastað út í viðskiptin sem nýjum peningum, þá væri fullkomin ástæða til að spyrja, hvaða áhrif það hefði á gengi peninganna og verðgildi verðbréfa í landinu. En ég vil vekja athygli á því, að framkvæmd þessara ráðstafana, sem í frv. felast, verkar alls ekki eins og ný seðlaútgáfa; hér er ekki um annað að ræða en tilfærslu á skuldum. Þeir peningar, sem ríkið leggur fram til þessara hluta, verða innleystir á rúmum 40 árum með 1/40 hluta á ári. Með þessum peningum á nú að greiða þær skuldir, sem þegar eru orðnar fastar, en eru bændum óbærar, og festa þær að vísu aftur á öðrum stað með miklu betri afborgunarkjörum fyrir bændur. Það á að festa það fé á nýjum stað, sem þegar er fast, en lántakendurnir fá ekkert af þessu fé í sínar hendur. Þess vegna hygg ég, að sá ótti, sem hv. 4. þm. Reykv. ber í brjósti út af því, ef hér væri verið að kasta út nýjum peningum á markaðinn, sé ástæðulaus og ekki á rökum byggður.

Hér er aðeins verið að konvertera gömlum og óhagstæðum lánum, sem þegar eru föst, í ný og hagstæðari lán; eða m. ö. o. það er verið að breyta lánskjörunum og festa skuldirnar á öðrum stað.

Þá beindi hv. 4. þm. Reykv. þeirri spurningu til bændanefndarinnar, hvaða ráðstafanir hún hefði hugsað sér til styrktar öðrum framleiðendum í landinu en þeim, sem stunda landbúnað eingöngu. Og það er eðlilegt, að sú spurning komi hér fram. En ég vil benda hv. þm. á það, sem hæstv. atvmrh. sagði, að það er áreiðanlegt, að bændastéttin ber nú langminnst úr býtum allra stétta í landinu. Á síðastl. ári varð verðfallið á landbúnaðarafurðum langtum meira en á öðrum innlendum vörum, þannig að bændur hafa nú lítið eða ekkert kaup fyrir sitt strit við búreksturinn. Ennfremur skal ég geta þess, að bændanefndin hafði það afmarkaða verkefni að athuga afkomu og skuldir bænda, sem stunda landbúnað, en ekki annara. Hinsvegar er það vitanlegt, að kreppunefndin, sem þessi hv. þd. hefir skipað til þess að athuga þessi mál, hún á auðvitað að starfa á víðtækara grundvelli. —

Þá spurði hv. 4. þm. Reykv. um það, hvort nú væri kominn sá rétti tími til þess að framkvæma þær ráðstafanir, sem í frv. felast, að gera upp skuldir bænda. Ég skal fúslega játa, að um það er ekkert hægt að fullyrða, það sést betur síðar. Við getum ekki dæmt um það til hlítar, hvort það hefði átt að vera búið að gera þessar ráðstafanir, hvort hinn rétti tími er nú, eða ekki fyrr en síðar. En það vil ég undirstrika, sem nákunnugur maður þeirri bankastofnun, sem á mest lánsfé bundið hjá bændum í landbúnaðinum, að því er nú þannig varið, að ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir, þá hlýtur bankinn að láta fara fram nauðungarsölu á ákaflega mörgum fasteignum í sveitunum. Þess vegna álít ég ekki um annað að ræða en að framkvæma nú þegar þær ráðstafanir, sem kostur er á. Að öðrum kosti má búast við stórkostlegri röskun á þeim grundvelli, sem bankastofnanirnar hafa starfað á.

Að lokum gat hv. 4. þm. Reykv. um það, að benda mætti á einfaldari og óbrotnari leiðir til þess að framkvæma þær ráðstafanir, sem frv. fjallar um. Það skyldi gleðja mig, ef bent yrði á einfaldari leiðir í þeim efnum, og mundi enginn verða fúsari en ég að taka þær til greina. En þar sem hv. þm. gerði ráð fyrir að víkja nánar að því við 2. umr., þá skal ég ekki fara fleiri orðum um það nú.