27.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2119 í B-deild Alþingistíðinda. (3368)

167. mál, kreppulánasjóð

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jafnaðarmenn þeir, sem hér hafa talað, eru reiðir út af því, að í frv. er ekki gert ráð fyrir hjálp til verkalýðsins. Frv. er þannig sniðið, að ekki er hægt að gera ráð fyrir slíku. Málið snýst, eins og líka hv. þm. Seyðf. tók fram, um skuldamál bænda. Er nú til nokkuð hliðstætt þessu, að því er til verkalýðsins kemur? Nei. Og því er ekki við því að búast, að frv. innihaldi ákvæði um það.

Þegar um það er að ræða að veita fé til atvinnubóta, þá er ekki eðlilegt, að ákvarðanir séu teknar um það á hverjum tíma fyrr en séð er, hvert útlitið er. Hér er því allt annað viðhorf. Atvinnubótamálin verður að afgreiða fyrir hvert tímabil í senn, en ekki langt út í framtíðina, eins og þegar um skuldamál bænda er að ræða. Í gildandi fjárl. er fé til atvinnubóta, en þar er ekkert ákveðið um skuldamál bænda. Fjárveitingar til atvinnubóta í fjárl. 1933 eru eftir till. jafnaðarmanna. Gætu þeir því verið óánægðir með það eitt, að slíkt fé væri ekki í fjárl. fyrir 1934, en í því efni skyldu þeir þó ekki bregða stj. um ósanngirni fyrr en í þinglokin. Þykist ég hafa gert nægilega grein fyrir því, hvað því veldur, að enn eru ekki komnar fram till. í því máli. En stj. mun sýna öllum landsmönnum fulla sanngirni, eftir því sem hægt er.

Ég finn, að það andar köldu frá jafnaðarmönnum í garð frv. Þó þykir mér skörin færast upp í bekkinn, þegar hv. 2. þm. Reykv. ávítar eyðslusemi undanfarinna ára, þó að vitanlegt sé, að hann hefir verið aðalhvatamaður þeirrar eyðslu, og hv. þm. Seyðf. vildi jafnvel eyða 11 millj. kr. í viðbót við það, sem þá var gert.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði um fyrirætlanir stj. í ýmsum þeim framkvæmdum, sem hún hefir heimild til. Ég vil þar til svara, að ekki er hægt að framkvæma meira en fé er veitt til í fjárl.

Ég held, að tilgangslaust sé að vera að deila hér um norsku samningana. Þó má benda á, að það ber ekki vitni um mikla ræktarsemi við framleiðendur kjötsins, þegar það er talið einskisvirði, að opnaður sé markaður fyrir allmikið af framleiðslu bænda á tímum eins og þessum, þegar búast má við því, að markaður þrengist mjög annarsstaðar.

Hv. þm. Seyðf. gerði lítið úr frv. og sagði, að það gerði lítið annað en flytja til skuldir bænda. Þetta er ekki rétt. Aðaltilgangurinn er að fá skorið úr því, hverjar skuldir verði að teljast tapaðar, svo að hægt sé að heimta inn hitt. Tilgangurinn er, að ekki verði gefnar eftir aðrar skuldir en þær, sem verða að skoðast sem tapaðar.

Það kemur ekki málinu við, hvort betra sé eða ekki, að bændur eigi jarðirnar sjálfir. Vil ég þó taka í sama streng og hv. þm. Str. Ég hefi séð mörg hundruð jarðir í sjálfsábúð og margar í leiguábúð, og er það sannfæring mín, að sjálfsábúðarjarðirnar séu yfirleitt betur setnar. Væri það því landbúnaðinum til niðurdreps, ef farið væri inn á þá leið, sem hv. þm. Seyðf. stakk upp á.

Þá talaði hv. þm. um, að rétt væri að draga að samþ. frv., því að óvíst væri um ensku samningana. Ég sé ekki ástæðu til að draga samþykktina, en verið getur, að framkvæmd málsins fari nokkuð eftir því, hvernig fer um ensku samningana. Í framkvæmdinni verður hægt að taka tillit til þeirra, því að þá verða þeir fullgerðir. Þá er nokkurnveginn vitað um markaðshorfur í Englandi næstu 3 árin. Verður þá hægt að hafa hliðsjón af þeim í 3 ár og e. t. v. lengur. Annars skoða ég mig ekki sem forsvarsmann frv. og fer því ekki fleiri orðum um það.