05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (3378)

167. mál, kreppulánasjóð

Bernharð Stefánsson:

Ég hefi leyft mér að flytja brtt. við frv. þetta og er hún á þskj. 509. Í brtt. þessari er farið fram á, að heimilað verði að lána fé úr kreppulánasjóði til ábúenda á smábýlum í grennd við kaupstaði og kauptún. Hvað stærð býlanna snertir, þá er það tiltekið, að þau fullnægi þeim ákvæðum, sem sett eru í 57. gr. búnaðarbankalaganna, þannig, að till. mín nær aðeins til þeirra, sem áttu að geta fengið lán í smábýladeild búnaðarbankans, ef hún hefði verið stofnuð. Ég vék að svipuðu efni á þinginu í fyrra í sambandi við frv. um gjaldfrest bænda, sem þá lá fyrir; skal ég þó rifja upp nokkuð af því, sem ég sagði þá. Það er alveg af sérstökum ástæðum, að ég ber till. þessa fram. Ég lít nefnilega svo á, að þessir menn, sem till. mín fjallar um, hafi fengið alveg sérstakt loforð löggjafarvaldsins um lánsstofnun fyrir sig. Loforð, sem ekki hefir verið efnt til þessa, þar sem í lögunum um Búnaðarbanka Íslands er gert ráð fyrir, að ein deild hans láni beinlínis þessum smábýlabændum. Mér er nú kunnugt um, að einmitt vegna þess ákvæðis búnaðarbankalaganna hafa ýmsir þeir, sem á smábýlum búa, lagt í framkvæmdir, bæði byggingar o. fl., og fengið sér bráðabirgðalán til þeirra, í trausti þess að geta síðar fengið lán úr smábýladeild bankans til að endurgreiða bráðabirgðalánin. Þannig hafa þeir, beinlínis af þessum orsökum komizt í óþægilegar lausaskuldir. Sömuleiðis hafa ýmsar byggingaefnaverzlanir liðið hnekki við vanefnd þessa loforðs um sérstaka lánadeild fyrir smábýli, því að þær hafa lánað byggingarefni o. fl. í trausti þess, að hlutaðeigendur gætu fengið lán í þessari umræddu lánadeild.

Ég hefi ekki getað gert neina áætlun um það, hversu mikið fé myndi þurfa úr kreppulánasjóði til þessara hluta. Ég hefi ekki haft aðstöðu til þess að safna upplýsingum um það. Skuldum þessara manna hefir ekki verið safnað saman í eina heild, eins og bændanefndin hefir gert um skuldir bændanna. En þó skýrslur liggi ekki fyrir um það, hvað skuldir þessara manna séu miklar, þá liggur annað fyrir til að byggja á, og það er sú krafa, sem þeir að réttu eiga á ríkissjóð. Það stendur í lögum búnaðarbankans, að verja megi allt að 50 þús. kr. á ári til smábýladeildarinnar. Nú mun það vera þrisvar, sem þessi upphæð hefði fallið til útborgunar, ef deildin hefði tekið til starfa um leið og aðrar deildir bankans. Ég geri ráð fyrir, að bætt yrði úr brýnustu þörf þessara manna, þó hámark þess, sem mætti lána þeim úr kreppulánasjóði, yrði ekki hærra en þær 150 þús., sem hefði átt að vera búið að borga út úr ríkissjóði til lánveitinga handa þeim, ef lögunum hefði verið fullnægt. Mundi ég sættast á, að slíkt hámark yrði sett, ef till mín yrði að öðru leyti samþ.

Það er ein brtt. háttv. n., sem mætti hugsa, að tæki út yfir þetta. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hennar, og þá sérstaklega háttv. frsm., hvort hún líti svo á, að ef 4. brtt. á þskj. 538 verður samþ., þá verði hægt að veita þessum mönnum lán úr kreppulánasjóði. Fái ég skýlausa yfirlýsingu n. um, að hún líti svo á, verði 4. brtt. hennar samþ., að lána megi þeim sömu mönnum úr kreppulánasjóði, sem ætlazt var til, að lán fengju úr smábýladeild búnaðarbankans, þá sé ég ekki ástæðu til þess að halda till. minni fram. En fái ég ekki yfirlýsingu þessa, þá held ég henni fram. Ég vænti nú, að háttv. þdm. líti með sanngirni á þetta mál og greiði atkv. með till. minni, komi hún undir atkv. Þessir menn, sem ég fer fram á, að verði svipaðs stuðnings aðnjótandi og bændur, hafa hingað til verið olbogabörn þjóðfélagsins og ekki sízt lánstofnananna. Og sem dæmi um það vil ég geta þess, að ég var einu sinni að reyna að útvega einum slíkum manni lán. Hann átti fasteign, sem metin var á 20 þús. kr., en lánið, sem hann vildi fá, var aðeins 2 þús. kr. Lán þetta gat ég hvergi fengið, því að eignin var hvorki kaupstaðarhús né jörð í sveit. Var t. d. sakir þessa alveg afsvar að fá það úr veðdeild Landsbankans.