05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2140 í B-deild Alþingistíðinda. (3382)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um brtt. hv. 1. þm. Eyf. á þskj. 509 og brtt. hv. þm. Seyðf. og meðflm. hans á þskj. 539. Um brtt. hv. 1. þm. Eyf. vil ég fyrst taka það fram, að við hana er það að athuga, að enginn veit, hve mikið þar kann að vera um að ræða. Það veit enginn, hvað með henni kann að vera dregið inn í frv. Það veit enginn, hversu margir menn það eru í Glerárþorpi og ýmsum öðrum þorpum þessa lands, sem þar eiga að koma til greina. Það liggur engin rannsókn að baki þessari brtt., og það veit enginn, hversu mikið mundi dragast frá öðrum þeim verkefnum, sem sjóðurinn á að leysa vegna þessarar brtt. Hv. flm. spurði, hvort þeir menn, sem brtt. hans við 4. gr. nefnir, mundu komast undir ákvæði frv. eftir 4. brtt. n. Það er tvímælalaust hægt að svara því, að þeir komast það ekki allir, en hitt má vera, að einhverjir þeirra kynnu að komast það. Annars er 4. brtt. n. ekki efnisbreyt., heldur aðeins skýring á orðalagi. Vegna þess, sem þegar er sagt, vil ég taka það fram, að ég tel mér ekki fært að greiða atkv. með þessari brtt. hv. þm., af því að maður rennir alveg blint í sjóinn um það, hver áhrif hún mundi hafa fyrir sjóðinn, og þegar frv. er að öllu leyti reist á nákvæmum rannsóknum, þá er ekki hægt að samþ. við það brtt., sem raska grundvelli þess eins og þessi till. mundi gera.

Hitt er sennilegt, að allmargir svokallaðir smábýlabændur mundu komast undir ákvæði frv. eins og það er, þeir, sem fullnægja þeim skilyrðum um landbúnað, sem í frv. eru sett.

Þá ætla ég að snúa mér að brtt. hv. þm. Seyðf. á þskj. 539. Mér þykir vænt um það, að hv. þm. hefir viðurkennt nauðsyn þessa frv. bæði með þessum brtt. og eins með þátttöku sinni í samstarfi n. Hann hefir unnið algerlega loyalt með n. Að vísu hélt hann þar mikið fram þessum tveimur atriðum, sem brtt. hans fjalla um. Nú skal ég viðurkenna það um þessi tvö atriði, að þau er náttúrlega athugaverð og margt gott, sem um þau má segja. Þess vegna vil ég nú gera nokkra grein fyrir því, hversvegna ég sem áður hlýt að greiða atkv. á móti þessum brtt. hv. þm. Seyðf. og meðflm. hans. Það er þá um fyrri till. að segja, að það hlyti að leiða af sér mjög mikla skerðingu á áhrifum frv., ef þessi hali yrði skeyttur við það, því það er aðalhlutverk frv. að tryggja, að það, sem gert verður, verði þannig, að það hafi endanleg áhrif, að það, sem frv. er ætlað að leysa, verði leyst í raun og veru. Ef aftur á móti verður samþ. að draga úr þeirri hjálp, sem frv. gerir ráð fyrir, þá álít ég, að með því sé að miklu leyti tekin frá bændum sú hvöt, sem hjálpin gefur þeim til þess að koma sínum atvinnurekstri á heilbrigðari grundvöll og hafa sig út úr skuldafjötrunum. Með því að eiga það stöðugt á hættu, að lánskjörin breytist, er mjög dregið úr von manna til þess að verða sjálfstæðir, og þannig gæti slíkt fyrirkomulag haft alvarlegar móralskar afleiðingar. Hinsvegar vil ég benda á það, að það er talsvert aðhald í 19. gr. frv. í þessu efni, þar sem sjóðstjórninni er heimilt að stytta lánstímann, ef ástæður skuldunauta leyfa það. Ég álít, að þarna hafi sjóðsstjórnin aðstöðu til að gera það, sem rétt er að gera, ef kringumstæður bænda breytast verulega til batnaðar.

Annars hygg ég, að hv. þm. geri of mikið úr því, hve afkoma bændanna sé mjög á hverfanda hveli nú. Ég hygg, að þegar á næsta hausti áður en kreppulögin koma til framkvæmda, verði komnar í ljós afleiðingar af verzlunarpólitík Englendinga, og að þá geti sjóðsstjórnin með tilliti til samninga við Breta gert sér ljóst, hverjir muni verða afkomumöguleikar bænda í framtíðinni.

Þá sagði hv. þm. ennfremur, að sú hjálp, er þetta frv. veitti, kæmi ekki sem réttlátast niður, að þeir, sem miklar ættu eignir, nytu aðallega góðs af ráðstöfunum þessum, en leiguliðar hefðu tiltölulega miklu minni hagnað af þeim. Til þess að geta dregið slíka ályktun, hlýtur hv. þm. að misskilja frv. Það fjallar nefnilega aðeins um lausaskuldir bænda. Skuldir þeirra bænda, sem miklar eiga eignir, munu vera mestmegnis fasteignaveðslán, og ákvæði þessa frv. ná ekki til þeirra. Því yrði það svo, að leiguliði, sem mjög er skuldugur, og skuldir hans væru lausaskuldir, fengi hlutfallslega meiri hjálp samkv. þessu frv. en hinir, sem hefðu meiri hluta skulda sinna sem fasteignaveðsskuldir. Í síðari brtt. hv. þm. Seyðf. fer hann fram á það, að ráðstafanir þessar verði látnar ná til fleiri manna en til var ætlazt upphaflega, og nefnir þar til smáútgerðarmenn, iðnaðarmenn, sjómenn og verkafólk. Margt í ummælum hv. þm. um þetta atriði var algerlega réttmætt, það eru sömu ástæður, sem hafa gert þessum smáframleiðendum erfitt fyrir og bændunum, en þó er það ekki algerlega sambærilegt. Verðfallið á vörum bænda hefir verið miklu meira en á nokkurri annari framleiðslu í landinu. En það, sem aðallega mælir á móti þessari brtt., er sú staðreynd, að það liggur ekkert hliðstætt fyrir um afkomu þessara stétta og afkomu bændanna. Það hefir engin rannsókn farið fram á því, hvað réttmætt sé að hjálpa þessum stéttum, og hvað mikið þurfi til þess. Þess vegna finnst mér grundvöllinn vanta undir þessa till. hv. þm. Seyðf. En ég álít fullkomlega réttmætt, að fram fari samskonar rannsókn á afkomu þessara stétta, sem nefndar eru í brtt., og nú þegar hefir farið fram hvað bændurna snertir. Þá fyrst, að þeirri rannsókn lokinni, getur Alþ. gert sínar ráðstafanir til hjálpar þessu fólki. En eigi að skella þessu inn í frv. nú, er búið að teygja þetta mál út á grundvöll, sem í raun og veru enginn grundvöllur er. Ég vil beina því til hv. þm. Seyðf., hvort hann vill ekki taka þessa till. sína til nánari athugunar ásamt kreppun. nú milli umr.

Hv. þm. kom með talsvert af almennum aths. og hugleiðingum um réttmæti ýmissa ráðstafana, sem Alþ. hefði gert í landbúnaðarmálum nú á síðustu árum. Mér komu þessar hugleiðingar alls ekki ókunnuglega fyrir, því að hv. þm. hefir flutt þær flestar áður. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara út í þær nú, því að bæði ég og aðrir hafa svarað þeim áður. En þó vil ég benda á eitt atriði úr skýrslu bændan., sem gerir þá kenningu hv. þm. Seyðf., að lítið eigi að hugsa um hinar dreifðu byggðir landsins, enn vafasamari en hún áður var. Það kom í ljós við starf n., að mörg dæmi eru til þess, að fólkið í hinum dreifðu byggðum stendur nú betur að vígi en það fólk, sem í þéttbýlinu lifir, á hægari lífsbaráttu og hefir staðið betur af sér öldur kreppunnar. Hv. þm. talaði um það, að breyting þyrfti að verða á búnaðarháttum okkar Íslendinga. Þetta er rétt. Það er mjög aðkallandi verkefni fyrir okkur að gera búnaðarhættina fjölbreyttari en þeir nú eru. En það er verið að vinna að þessu.

Síðasta búnaðarþing lagði drög að fjölbreyttari búnaðarháttum á mörgum sviðum. En þó að hörð kreppa standi yfir um tveggja ára skeið og e. t. v. lengur, þá má ekki láta það hafa slík áhrif á dómgreind sína að halda, að öllu þjóðskipulaginu þurfi að gerbreyta til þess að bót fáist. Ég vil benda á það sem lítið dæmi, að síðasti farmur af frystu kjöti, sem sendur var til Englands, seldist þar 50% hærra verði en hefir verið á þeirri vöru upp á síðkastið. Þetta og ýmislegt svipað bendir í þá átt, að nú sé eitthvað að rofa til. Og vel gæti farið svo, að ráðstafanir Breta í sambandi við Ottawasamningana yrðu okkur til góðs: Það væri skemmtilegt, ef við gætum gert upp það gamla allmyndarlega, eins og farið er fram á í frv. þessu, og samtímis rofaði til fyrir nýjum og betri degi í athafnalífi þjóðar okkar.