05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2146 í B-deild Alþingistíðinda. (3384)

167. mál, kreppulánasjóð

Pétur Halldórason [óyfirl.]:

Ég spurðist fyrir um það við 1. umr., hvort hv. kreppun. vildi ekki gera dm. grein fyrir ýmsum atriðum viðvíkjandi þessu stórmáli, þegar það kæmi til 2. umr. Ég lýsti því yfir þá, og er þeirrar skoðunar enn, að þetta frv. sé gott og gagnlegt, að svo miklu leyti sem það nær þeim tilgangi, að hagur landsmanna yfirleitt batni við þessar ráðstafanir, að þær stuðli að almannaheill. Ég átti við það, að ekki mættu fram koma erfiðleikar á öðrum sviðum, sem væru afleiðingar þessara ráðstafana. Að svo miklu leyti, sem hér er verið að hugsa um almannaheill, er frv. gagnlegt. En sé litið á þær verkanir, sem þessar ráðstafanir kynnu að hafa á íslenzk fjármál, verða þær að ýmsu leyti athugaverðar. Getur hv. n. gert þdm. grein fyrir því, hvort þessar ráðstafanir muni ekki hafa veruleg áhrif á verðlag í landinu? Og ef þær hafa ekki áhrif á verðlagið til frambúðar, verða ekki orsök í verðhækkun, þá er ég ánægður hvað það snertir. En það eru ekki aðeins Íslendingar, sem eiga við erfiðleika að búa á þessu sviði, heldur stynur svo að segja allur heimurinn undir sömu erfiðleikum og við. Og nú þegar eru hafin stórkostleg átök til þess að létta af erfiðleikum landbúnaðarins um heim allan. Og þegar nú er verið að gera sameiginlegar ráðstafanir til þess að bæta úr búnaðarerfiðleikunum með verðhækkun, þá er athugandi, hvort ekki væri réttara fyrir okkur að bíða um stund og sjá, hver árangurinn verður af ráðstöfunum þeirra landa, sem ná til stærstu evrópumarkaðanna fyrir landbúnaðarafurðir.

Ég get hugsað mér, að þegar búið væri að gera þessar ráðstafanir hér og hækka verðlag, við skulum segja um 25%, sem kæmi fram í því, að þeir, sem framleiddu fyrir íslenzka markaði, fengju 25% meira fyrir afurðir sínar, þá væri það sérstök, íslenzk verðhækkun. Og segjum svo, að ofan á þetta bættist verðhækkun, sem stafaði af ráðstöfunum gerðum annarsstaðar, og verðlagið hækkaði af þeim sökum um önnur 25%. Augljóst er, að sú verðhækkun kæmi hér fram líka, og gæti hún samtals orðið 50% eða upp undir það. Og þá væri hér nýlega búið að gera þessar ráðstafanir að taka á ríkissjóð áhættuna af 8 millj. kr. skuldabréfum og leita nauðasamninga með ærnu tjóni fyrir ýmsa skuldheimtumenn bænda. Og þá yrði það auðvitað svo, sem hv. þm. Seyðf. benti á, að þeim, er þessa aðstoð fengju, væri mismunað stórkostlega af hinu opinbera. Af þessum sökum tel ég ástæðu til, að það sé rannsakað gaumgæfilega, hvort nú sé það rétta augnablik til þess að gera svo stórfelldar ráðstafanir og þetta frv. fer fram á. Ef yrði hér veruleg verðhækkun innanlands, og við það bættist svo almenn verðhækkun á erlendum markaði, þá sýnist áhætta ríkissjóðs engin. En færi svo, að þetta valdi engri verðhækkun hér á landi, ætti hv. kreppun. að útskýra vel fyrir hv. þdm., hver áhætta ríkissjóðs er af þessari 8 millj. kr. ábyrgð, sem hér er farið fram á. Það má auðvitað segja, að réttmætt sé, að ríkissjóður beri eitthvert tjón af þessum ráðstöfunum. En ég held, að þó svo færi, að af þeim 18500000 kr. í 3. og 4. flokki skuldanna verði felldar niður 4 millj., sé það ekki svo mikill hluti, að án þeirrar byrðar væri öllu borgið, en með henni allt í voða. Nú sagði hv. frsm., að málið væri að öllu leyti reist á svo nákvæmri rannsókn og mikilli vinnu, að engin hætta væri á, að af því hlytist verulegar afleiðingar til tjóns landi og lýð. En ég vildi fá nánari skýringar á þeim atriðum, sem ég gerði fyrirspurn út af, til þess að geta greitt frv. atkv. við 3. umr. — Mér þykir gott að heyra, að ekki er útlit fyrir frekara verðfall á íslenzkum landbúnaðarafurðum og að nýlega hafi verið seldur farmur af kjöti til Englands með hærra verði en gerzt hefir undanfarið. En ég er ekki sérstaklega glaður yfir og legg ekki mikið upp úr þeirri verðhækkun, sem stafar af ráðstöfunum Englendinga. Það var sagt, að Ottawasamningurinn yrði öllum til góðs. En tilætlun Englendinga með honum var að koma svo hátt upp verði á landbúnaðarafurðum, að þeirra nýlendur og dominions gætu haft hagnað af sinni framleiðslu. En ef kæmi fram veruleg verðlækkun í markaðslöndunum, þá kemur það í ljós, að þessar ráðstafanir eru til ills eins, því að verðfallið kemur þá fram aftur og ennþá gífurlegar en áður, því að framleiðslan hefir á verðhækkunartímabilinu aukizt til muna, og við Íslendingar þekkjum af eigin reynslu, að ekki er hægðarleikur að draga úr framleiðslunni á stuttum tíma. Ég held því, að þetta sé vafasamt til bjargráða, en hinsvegar er aðalatriðið að sjá til þess, að enginn sá, er landbúnað stundar, þurfi að láta af höndum jörð sína, sín framleiðslutæki, a. m. k. þar til séð verður fram úr erfiðleikunum, sem nú ríkja. Ég fyrir mitt leyti sé enga leið út úr því nú. En eftir 1—2 ár er líklegt, að ljósara verði, hvers má vænta. Og þó að þessi stórkostlega ráðstöfun verði gerð, þá tel ég ekki, að tekið sé fyrir þá örðugleika í framtíðinni, sem nú eru huldir. En það vil ég gjarnan játa nú sem fyrr, að tilgangurinn með þessari ráðstöfun er réttur og góður og landsmönnum til hins mesta gagns, því að hann er sá, að koma í veg fyrir að þessi atvinnuvegur fari um koll. En ég held enn í dag, þrátt fyrir upplýsingar nefndarinnar, sem ekki hafa getað sannfært mig, að of snemmt sé að gera svona endanlega ráðstöfun í þessu mikla vandamáli.