05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2149 í B-deild Alþingistíðinda. (3385)

167. mál, kreppulánasjóð

Bernharð Stefánsson:

Ég get verið hv. frsm. n. og hæstv. atvmrh. þakklátur fyrir, að þeir hafa ekki tekið brtt. þeirri, sem ég bar hér fram, óvingjarnlega, þótt þeir hafi ekki treyst sér til þess að mæla með henni, eins og hún nú liggur fyrir. Hv. frsm. vék að því, og reyndar hæstv. atvmrh. líka, að þar sem ekki lægju fyrir skýrslur um skuldir ábúenda smábýlanna, væri ekki vitað, hve mikil byrði það verður fyrir ríkissjóð, að kreppulánasjóður veiti þessum mönnum lán. Það er alveg rétt, að þessar skýrslur liggja ekki fyrir, eins og ég tók fram áður, og ég hefi vitanlega enga aðstöðu til þess að safna þeim sjálfur. En ég vil beina því til hv. n., hvort ekki megi ákveða tiltekna upphæð í þessu augnamiði. t. d. þá upphæð, sem smábýladeildin hefði átt að réttu lagi þegar að hafa fengið. Með þessu móti er reyndar ekki víst um það, hve mörgum verður hægt að liðsinna, en þó er vitað, hve mikil byrði þetta verður fyrir ríkissjóð. Er ég þess fullviss, að með þessu móti yrði þó bætt úr brýnustu þörfunum í þessu efni.

Hv. frsm. gat þess út af 4. brtt. n., að þó að hún yrði samþ., þá myndi ekki nærri allir ábúendur smábýla komast undir lögin. Þetta er rétt, og þess vegna hefir mín brtt. alveg sömu þýðingu, þótt 4. brtt. n. liggi fyrir. Hv. frsm. talaði um, að bezt væri að halda sér við grundvöll frv. og forðast að víkka starfssvið kreppulánasjóðs. Ég get verið sammála því yfirleitt. En til till. minnar liggja alveg sérstakar ástæður, sem ég gat um áðan: að með búnaðarbankalögunum var gefið fyrirheit um sérstaka lánastofnun fyrir smábýlin, og ýmsir treystu því, að þetta yrði gert, en ennþá hafa engar framkvæmdir sézt í þá átt. Ég held, að þessar sérstöku ástæður geti fyllilega afsakað það, að tillaga mín er borin fram, jafnvel þótt viðurkennd séu rök hv. frsm. um, að rétt sé að halda sér við grundvöll frv. að öðru leyti. Hæstv. atvmrh. virtist hræddur um, að þótt tillaga mín yrði samþ., þá myndi þetta koma misjafnlega niður innbyrðis, vegna ákvæða 57. gr. búnaðarbankalaganna. Það gæti farið svo, að einn fengi lán, en annar ekki, þó að báðir væri í sömu vandræðum. Þetta getur verið rétt, en þeir, sem fullnægja 57. gr. búnaðarbankalaganna, eru einmitt mennirnir, sem höfðu ástæðu til að treysta á, að þeir gætu fengið lán, og hafa því orðið fyrir hreinum og beinum prettum ríkisvaldsins, og við það er till. mín miðuð. — Hæstv. ráðh. stakk upp á því, að ég tæki aftur til 3. umr. tillögu mína, svo að n. gæfist tækifæri til þess að athuga hana. Ég hefi nú reyndar komið á fund n. og rætt þetta mál við hana áður, en ég vil einskis láta ófreistað til þess að unnt verði að veita þessum mönnum, sem ég ber fyrir brjósti, nokkra hjálp. Þess vegna er ég því ekki mótfallinn, að frestað sé atkvgr. um till. og tek hana aftur til 3. umr. í trausti þess, að hv. n. taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar.