20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög 1934

Einar Árnason:

Ég vil fyrst vekja athygli háttv. d. á brtt., er samgmn. flytur á þskj. 733. Hún er um að lækka styrkinn til flóaferða um 500 kr. Ástæðanna fyrir þeirri brtt. er getið í nál. á þskj. 739, svo ekki þarf frekar um það að ræða. Ég skal aðeins geta þess, að samgmn. leggur þar til, að Öræfingum verði veittur lítilsháttar styrkur vegna örðugrar aðstöðu, sem þeir eiga um alla flutninga.

Sjálfur flyt ég brtt. á þskj. 733, sem ég vildi drepa á. Ég mun þó ekki verða langorður um þær, enda tilgangslítið að tala fyrir þeim, því sú er orðin venjan, að háttv. þdm. hlusta lítið á fjárl. umr. Ég skal þá fyrst minnast á XIII. brtt. Hún er um það, að ríkissjóður leggi fram fé til byggingar öldubrjóts austur af Siglufjarðareyri, 40 þús. kr. á ári í 5 ár, gegn tvöföldu framlagi frá hafnarsjóði Siglufjarðar. Það vita allir, sem annars þekkja nokkuð til á Siglufirði, að fjörðurinn er opinn fyrir hafáttinni. Norðan brimsjóar gera þar stórusla á hafnarvirkjum, bryggjum sem öðru. Það má heita árlegur viðburður, að meira eða minna brotni þar af bryggjum, sem nauðsynlegar eru vegna útgerðarinnar. Er langt síðan menn komu auga á nauðsyn þess að byggja þennan brimgarð til að verja höfnina, þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum hingað til. Stafar það af því tvennu, að mannvirki þetta kostar mikið fé, en einnig því, að mannvirkin þarna hafa verið eign prívat félaga, eða einstakra manna. Áætlun hefir verið gerð um þetta mannvirki af Finnboga Þorvaldssyni fyrir hönd vitamálaskrifst. Hefi ég þá áætlun, ásamt lýsingu á mannvirkinu, hér í höndum, en vil ekki þreyta háttv. dm. með því að lesa það upp. Áætlað er, að mannvirki þetta kosti 600 þús. kr. Er það að vísu mikið fé, en Siglufjörður býðst til að leggja fram 400 þús. kr. af þeirri upphæð gegn því að ríkissjóður leggi fram 200 þús. kr., eða 1/3 kostnaðar. Er það sanngjörn krafa af hálfu Siglfirðinga, þar sem þingið hefir áður ákveðið framlag ríkissjóðs til slíkra mannvirkja ríflegra en 1/3 kostnaðar. Og enn sanngjarnari er þó þessi krafa, þegar þess er gætt, að ríkissjóður á þarna mikilla hagsmuna að gæta sjálfur, því bryggjur síldarbræðsluverksmiðju ríkisins eru þarna í stórhættu fyrir brimsjóum. Taka þær fyrst á móti þeim, að undanteknum bryggjum dr. Pauls, en nú er svo komið, að ákveðið hefir verið, að ríkið taki einnig að sér þá bræðslustöð, annaðhvort með kaupum eða leigu. Bætast þá þrjár bryggjur við hinar aðrar þrjár, sem ríkið á þar nú. Eru þessar bryggjur allar í mikilli hættu fyrir stórsjóum, en norðanveður með stórbrimi getur komið hvenær sem er og valdið miklu tjóni, sérstaklega þó, ef það er á þeim tíma, sem síldarbræðslustöðin þarf að nota bryggjurnar vegna starfrækslu sinnar. Getur slíkt tjón beint og óbeint fljótlega numið tugum eða jafnvel hundruðum þús. kr.

En þarna er einnig um aðra hættu en brimrótið að ræða. Þegar hafís rekur þarna inn, er hætt við, að hann brjóti þessar bryggjur niður, að nokkru eða öllu leyti. Nú stendur svo á, að bæjarstjórnin á Siglufirði telur sig hafa von um að geta náð viðunanlegum samningi við danskt mannvirkjafirma um byggingu þessa mannvirkis fyrir ákvæðisverð, ásamt útvegun á láni, sem hafnarsjóður verður óhjákvæmilega að taka til þessa mannvirkis. En til þess að fá það lán er Siglufjarðarkaupstað nauðsynlegt að fá ábyrgð ríkissjóðs. Er önnur till. um það síðar á sama þskj. Binda þær hvor aðra, svo nauðsynlega verður að samþ. þær báðar, ef önnur er samþ. — Viðvíkjandi ábyrgðinni má taka það fram, að ekki er hægt að sjá, að ríkissjóði stafi nein hætta af henni. Hafnarsjóður Siglufjarðar hefir góðar tekjur til að standa undir þessu láni, og tekjur hans eru yfirleitt mjög tryggar. Þá má enn geta þess, að þótt ríkissjóður greiði tillag sitt ekki örar en þetta, eða á 5 árum, þá hefir bæjarstjórn Siglufjarðar von um að geta komizt að þeim samningi, að byggingu garðsins stafi engin vandræði af því. Þetta verk, ef framkvæmt verður, mun bæta mjög úr því atvinnuleysi, sem nú steðjar að verkamönnum á Siglufirði, sem víða annarsstaðar. Það er vafalítið, að ríkissjóður verður laus við atvinnubætur þar á meðan á verki þessu stendur, sem vart verður minna en tvö ár. Sparast þá ríkissjóði fé á þann hátt. Ég vil benda á það, að verði þessi till. felld, getur af því stafað stórfelld fjárhagsleg hætta fyrir ríkissjóð, og það máske fyrr en varir. Ekki er hægt að segja um það, hvenær hafís kemur, eða stórfelldir brimsjóar, er brotið geta bryggjur, svo ríkissjóður þurfi að verja stórfé til endurbótar. Ég vil óska þess, að háttv. dm. skoði hug sinn áður en þeir fella þessa till., sem tryggir eignir ríkissjóðs, sparar honum atvinnubótafé og kemur í veg fyrir stórspjöll á verðmætum eignum.

Þá er það brtt. XLVIII. b., að ábyrgjast fyrir tunnuverksmiðju Siglufjarðar allt að 70 þús. kr. rekstrarlán, er greiðist upp árlega, og veitist sú ábyrgð gegn þeim tryggingum, er stjórnin metur gildar. Þetta mál er nú ekki nýtt hér á Alþ., því í fyrra var samþ. till. um, að ríkið tæki ábyrgð á 24 þús. kr. láni til að koma þessari tunnuverksmiðju upp. Verksmiðjan er nú komin upp og er það samvinnufélag, sem að henni stendur, enda er hún að öllu leyti mynduð á samvinnugrundvelli. Ég hefi skoðað þessa verksmiðju, og þótt ég sjálfur hafi ekki þekkingu á gæðum þeirra véla, sem keyptar hafa verið til hennar, þá hefi ég þó umsögn þeirra manna, er vel hafa vit á slíku, að verksmiðjan getur framleitt ágætar tunnur og jafnvel betri en þær, sem fást frá útlöndum. Verksmiðjan kostaði 40 þús. kr. uppkomin. Hygg ég, að félagsmenn hafi lagt fram 12 þús. kr. Hitt er fengið með lánum, þ. á m. 24 þús. kr. með ábyrgð ríksjóðs. Nú er því verksmiðjan tilbúin til starfs, en getur ekki starfað vegna vöntunar á rekstrarfé. En það hefir hún ekki getað fengið í bönkum, þótt eftir hafi verið leitað. Er því þingsins leitað um hjálp, svo fyrirtæki, sem kostað hefir 40 þús. kr., þurfi ekki að standa óstarfrækt. Þetta er vafalaust fyrirtæki, sem á fullan rétt á sér, og er hart, að það fari í mola vegna þess að það fær ekki nauðsynlegt rekstrarfé. Er glapræði að styðja ekki þetta fyrirtæki, sem nú er tilbúið til starfs, enda mun ríkissjóður geta orðið fyrir tapi vegna ábyrgðar sinnar fyrir stofnlánið ef fyrirtækið fellur í rústir. Það mun engum geta blandazt hugur um það, að nóg verksvið er fyrir tunnugerð hér á landi og hagur að því að greiða ekki peninga út úr landinu fyrir þá vinnu, sem til hennar þarf. Ég vil því vænta þess að háttv. d. taki vel í þetta mál.

Þá hefi ég flutt brtt. þá XLII. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að greiða Jóni Guðmundssyni, bónda á Brúsastöðum, þær 5000 kr., sem heimilað er á núgildandi fjárl. að greiða honum. Það er aðeins vegna formgalla, að ekki er hægt að borga þetta út. Stjórninni var þar heimilað að greiða honum þessa upphæð af fé, sem inn kæmi vegna alþingishátíðarinnar. Var það byggt á því, að vegna hennar væru útistandandi fjárhæðir, sem búizt var við að kæmu inn. En nú hefir farið svo, að ekkert hefir komið inn á þennan lið, og telur stjórnin sig, því ekki geta greitt þetta nema ný heimild komi til. Nú lít ég svo á, að þar sem þingið hefir samþ. þessa upphæð og þar sem það er aðeins vegna formgalla, að ekki er hægt að greiða hana, þá verði þingið að laga þetta svo, að ekki verði gabb eitt úr þessu fjárloforði. Hygg ég, að fleiri háttv. þm. líti eins og ég á þetta mál. Ég hefi því borið fram þessa brtt., sem bætir úr þessu og lætur þingið standa við orð sín. Þessi maður hefir byggt á að fá þessa upphæð greidda og hefir að áliti þingsins orðið hart úti vegna byggingu Valhallar. Þetta vona ég, að háttv. d. athugi og greiði atkv. með þessari brtt.